Sigri kastað á glæ!
Ekki byrjaði nýja árið vel fyrir Liverpool. Leikmenn Liverpool köstuðu sigri frá sér í fyrsta leik ársins. Liverpool missti unninn leik niður í jafntefli gegn Wigan. Liðin gerðu 1:1 jafntefli á Anfield Road og þrjú efstu liðin fjarlægjast!
Fyrir leikinn var einnar mínútu þögn. Sheila Walsh ritari Rafael Benítez lést á gamlársdag og hennar var minnst. Hún hafði starfað með sjö síðustu framkvæmdastjórum Liverpool. Eins var skoska landsliðsmannsins Phil O´Donnell minnst en hann lést á dögunum. Oft hefur Rafael Benítez komið á óvart í liðsuppstillingu sinni og nú kom hann á óvart með að setja Jermaine Pennant inn í byrjunarliðið en hann er búinn að vera meiddur í margar vikur. Leikurinn fór hægt af stað og ekkert gerðist þar til Fernando Torres skoraði á 13. mínútu en hann var dæmdur rangstæður. Var sá dómur alveg á mörkunum að standast. Rétt á eftir átti Michael Brown hörkuskot rétt framhjá marki Liverpool frá vítateig. Á 22. mínútu átti Liverpool loks gott færi. Javier Mascherano komst þá inn á vítateig eftir gott þríhyrningsspil við Fernando Torres en skot hans fór beint á Chris Kirkland. Rétt undir lok fyrri hálfleiks skallaði Fernando rétt yfir eftir góða aukaspyrnu frá Xabi Alonso.
Leikmenn Liverpool voru mjög daufir í fyrri hálfleik en þeir komu ákveðnir til leiks eftir leikhlé. Ákveðni þeirra gaf af sér mark eftir fjórar mínútur. Steven sendi inn á vítateiginn þangað sem Steve Finnan var kominn. Hann sendi boltann þvert fyrir markið á Fernando sem renndi honum í markið framhjá Chris Kirkland fyrrum markverði Liverpool. Nú hefðu líklega flestir talið að Liverpool hefði sigurinn svo gott sem pakkaðan inn í síðbúinn jólapakka. En eins og svo oft áður, síðustu misseri, gekk illa að gera út um leikinn. Eftir klukkutíma leik munaði litlu að það tækist. Steven Gerrard átti þá þrumuskot úr aukaspyrnu. Boltinn fór beint á Chris sem varði. Hann hélt þó ekki boltanum en varnarmaður bjargaði áður en Javier náði að koma boltanum í markið. Á 74. mínútu átti Harry Kewell fast skot fyrir utan vítateig en boltinn fór rétt yfir. Þetta var það síðasta sem Harry gerði en honum var skipt af velli af velli eftir þetta skot. Þetta bitleysi leikmanna Liverpool kom í bakseglin þegar tíu mínútur voru eftir. Aukaspyrna var send inn á vítateig Liverpool. Steven reyndi að hreinsa en það tókst ekki betur til en svo að boltinn fór beint til Titus Bramble. Miðvörðurinn hikaði hvergi og þrumaði boltanum í mark frá vítateig án þess að Jose Reina ætti nokkra möguleika. Fyrsta skot Wigan á markrammann hafði sannarlega gefið góða raun. Leikmenn Liverpool reyndu að koma sér aftur í gagn en án árangurs. Eina færið það sem eftir lifði leiks kom sex mínútum fyrir leikslok. Steven átti þá bylmingsskot af löngu færi. Chris varði vel en hélt ekki boltanum. Steven rauk inn í teiginn og náði frákastinu en aftur varði Chris frá fyrrum félaga sínum. Jafntefli varð því staðreynd og það olli mikilli gremju innan vallar sem utan á Anfield Road! Liverpool lék langt frá því vel og það var mikið andleysi yfir leikmönnum liðsins. Sigur hefði samt átt að vinnast en honum var kastað á glæ!
Liverpool: Reina, Finnan, Arbeloa, Carragher, Aurelio, Pennant (Kuyt 86. mín.), Alonso, Mascherano (Crouch 84. mín.), Kewell (Benayoun 74. mín.), Gerrard og Torres. Ónotaðir varamenn: Itandje og Riise.
Mark Liverpool: Fernando Torres (49. mín.).
Gul spjöld: Javier Mascherano og Fernando Torres.
Wigan Athletic: Kirkland, Melchiot, Scharner, Bramble, Kilbane, Valencia, Landzaat, Brown, Taylor (Koumas 79. mín.), Heskey (Sibierski 84. mín.) og Bent. Ónotaðir varamenn: Pollitt, Boyce og Olembe.
Mark Wigan: Titus Bramble (80. mín.).
Gul spjöld: Paul Scharner.
Áhorfendur á Anfield Road: 42.308.
Maður leiksins: Fernando Torres. Spánverjinn skoraði enn eitt markið. Hann var mjög duglegur í sókninni og var alltaf ógnandi.
Álit Rafael Benítez: Þetta var gremjulegt. Það verður að nýta færin þegar þau gefast og klára leiki eins og þennan. Þeir fegnu eitt færi í síðari hálfleik og náðu jafntefli.
-
| Sf. Gutt
Mikil jákvæðni hjá félaginu -
| Sf. Gutt
Alisson farinn að æfa -
| Sf. Gutt
Landsleikjafréttir -
| Sf. Gutt
Harvey farinn að æfa -
| Sf. Gutt
Ungliðar lánaðir -
| Sf. Gutt
Virgil fékk frí -
| Sf. Gutt
Landsleikjafréttir -
| Sf. Gutt
Georginio Wijnaldum fer víða -
| Sf. Gutt
Tveir uppaldir í enska landsliðinu -
| Sf. Gutt
Trent meiddur