Enn eitt jafnteflið
Liverpool gerði enn eitt eitt jafnteflið í dag. Liverpool náði jafntefli 1:1 gegn Middlesborough á Árbakka eftir að hafa lent undir. Jafnteflin eru búin að vera dýrkeypt á þessari leiktíð og þetta var það fjórða í röð í deild og bikar. Liðið getur bara ekki unnið um þessar mundir. Liverpool færðist þó upp um eitt sæti og er nú í fjórða sæti deildarinnar. Þrjú önnur lið eru þó með jafnmörg stig.
Leikurinn á Riverside var tíðindalítill lengi framan af. Steven Gerrard átti þó gott langskot sem Mark Scwarzer varði. Heimamenn náðu svo forystu á 26. mínútu. Sending kom fyrir markið frá vinstri. Boltinn var skallaður til baka fyrir markið og þar náði George Boateng að skora með harðfylgi af stuttu færi. Vörn Liverpool var illa á verði og Jose Reina átti vafasamt úthlaup þegar fyrst var gefið fyrir markið. Markið var því autt þegar George skoaði. Það sem eftir var af hálfleiknum gerðist lítið. Leikmenn Liverpool virtust slegnir út af laginu og heimamenn voru ákveðnari til leikshlés.
Rafael Benítez skipti Ryan Babel inn á í hálfleik og hann færði líf í sóknarleik Liverpool. Snemma í hálfleiknum vildi Liverpool fá vítaspyrnu en dómarinn dæmdi ekkert þegar Robert Huth virtist brjóta á Andriy Voronin. Liverpool sótti nú í sig veðrið og Ryan átti skot skot utan teigs sem fór rétt framhjá. Liverpool slapp þó með skrekkinn á 67. mínútu þegar Stewart Downing fékk boltann utarlega í teignum vinstra megin. Hann hamraði boltann að marki en hann small í stönginni. Frákastið fór út í teig til leikmanns Boro en hann hitti ekki markið. Fjórum mínútum seinna jafnaði Liverpool. Fernando Torres fékk boltann á miðjum vallarhelmingi Boro og lék upp að markinu. Um 25 metra frá marki þrumaði hann að marki. Boltinn fór í stöng og inn án þess að Mark ætti hina minnstu möguleika á að jafna. Algerlega frábært mark og stuðningsmenn Liverpool á Ábakka fögnuðu mjög. Eftir þetta sótti Liverpool án afláts en heimamenn treystu vörn sína. Ryan átti fast skot framhjá og þegar þrjár mínútur voru eftir skaut Steven utan teigs en mark sló boltann yfir. Á lokamínútunni átti Sami Hyypia hörkuskalla eftir hornspyrnu sem Mark varði naumlega. Sigurmarkið náðist ekki og fjórða jafnteflið í röð varð staðreynd. Þessi jafntefli eru orðin dýrkeypt í meira lagi!
Middlesbrough: Schwarzer, Young, Wheater, Huth, Grounds, O´Neil, Boateng, Rochemback, Downing, Aliadiere (Hutchinson 73. mín.) og Sanli. Ónotaðir varamenn: Turnbull, Riggott, Lee og Johnson.
Mark Middlesborough: George Boateng (26. mín.).
Gult spjald: Robert Huth.
Liverpool: Reina, Finnan, Carragher, Hyypia, Riise, Arbeloa (Babel 46. mín.), Gerrard, Mascherano, Benayoun (Alonso 59. mín.), Voronin (Kuyt 75. mín.) og Torres. Ónotaðir varamenn: Itandje og Agger.
Mark Liverpool: Fernando Torres (71. mín.)
Gult spjald: Xabi Alonso.
Áhorfendur á Riverside: 33.035.
Maður leiksins: Sami Hyypia. Finninn var heldur seinn til þegar Boro skoraði en hann var gríðarlega sterkur eftir leikhlé. Hann tók svo virkan þátt í sókninni undir lokin og var óheppinn að ná ekki að skora sigurmarkið.
Álit Rafael Benítez: Við erum vonsviknir því við byrjuðum leikinn vel og Steven Gerrard fékk gott færi. En eftir það misstum við tökin á leiknum. Gangur leiksins breyttist í síðari hálfleik því þá sóttum við og sköpuðum okkur færi til að skora. Leikmennirnir sýndu mjög gott viðhorf og það var augljóst að þeir voru að reyna að vinna sigur."
-
| Heimir Eyvindarson
Ofurhetja í uppbótartíma -
| Heimir Eyvindarson
Nunez tryggði mikilvægan sigur á Brentford -
| Heimir Eyvindarson
Brentford-Liverpool -
| Sf. Gutt
Áfram með smjörið! -
| Sf. Gutt
Jafnglími! -
| Heimir Eyvindarson
Af hverju er okkur illa við Nottingham Forest? -
| Sf. Gutt
Fyrsta tapið! -
| Sf. Gutt
Darwin í banni -
| Sf. Gutt
Dregið í FA bikarnum -
| Sf. Gutt
Auðvelt áframhald!