Fimm mörk og áframhald tryggt!
Liverpool tók Luton Town í gegn í aukaleik liðanna í F.A. bikarnum og vann stórsigur 5:0. Steven Gerrard skoraði fyrstu þrennu Liverpool í F.A. bikarnum í tólf ár. Það var mikill stemmning á Anfield Road og stuðningsmenn beggja liða skemmtu sér konunglega.
Rafael stillti upp sterku liði. Í raun voru flestir fastamenn liðsins í byrjunarliðinu utan hvað Charles Itandje stóð í markinu. Þetta var fyrsti leikur hans á Anfield. Í hjarta varnar Luton stóð Don Hutchison fyrrum leikmaður Liverpool. Hann fékk þar með draum sinn uppfylltan að leika á sínum gamla heimavelli!
Liverpool hóf leikinn af miklum krafti og hver sóknin af annarri buldi á vörn Luton. Strax á 6. mínútu sendi Jermaine Pennant fyrir markið frá hægri. Peter Crouch stökk upp við fjarstöngina en skallaði rétt framhjá. Þremur mínútum seinna átti Liverpool snögga sókn sem endaði með því að Ryan Babel, sem átti frábæran leik, fékk boltann vinstra megin. Hann reyndi að snúa boltann í fjarhornið en boltann fór í stöng. Eftir því sem leið á hálfleikinn varð minna um færi hjá Liverpool. Vörn Luton, með Don Hutchison sem besta mann, varðist frækilega og allt leit út fyrir að jafnt yrði í hálfleik. En á lokaandartökum hálfleiksins tókst Liverpool loks að brjóta ísinn eftir hraða sókn. Steven Gerrard sendi á Fernando Torres. Hann gaf á Ryan sem var kominn hægra megin. Hann lék inn í vítateiginn og skoraði með nákvæmu skoti í fjærhornið. Stuðningsmönnum Liverpool var sannarlega létt við markið og nokkrum andartökum seinna var flautað til hálfleiks.
Í síðari hálfleik var aðeins spurning um hversu mörg mörk Liverpool myndi skora. Xabi Alonso gaf tóninn með því að skjóta á markið strax eftir upphafsspyrnuna en markvörður Luton greip boltann. Skemmtileg tilraun hjá Xabi. Á 52. mínútu sendi Jermaine fyrir frá hægri. Boltinn fór yfir að fjærstöng. Þar stökk Peter upp og skallaði fyrir markið. Steven Gerrard lét þetta happ ekki úr hendi sleppa. Hann ruddist að boltanum og skallaði hann í markið. Fimm mínútum seinna kom næsta mark. Steven Gerrard tók hornspyrnu frá vinstri. Sami Hyypia stökk manna hæst og skalli hans hafnaði í markinu eftir viðkomu í einum varnarmanni. Finninn sterki átti þó markið. Hann gerir það ekki endasleppt því þetta var þriðja mark hans á leiktíðinni. Á 64. mínútu sendi John Arne Riise inn á vítateiginn. Fernando fékk boltann. Hann reyndi skot en varnarmaður komst fyrir boltann sem hrökk út. Steven var fyrstur að átta sig og renndi boltanum af öryggi í markið rétt innan vítateigs. Steven fullkomnaði svo þrennu sína á 72. mínútu. John Arne lagði boltann út á Steven sem fékk góðan frið til að skjóta. Skot hans af um 30 metra færi lá í markinu án þess að markvörður Luton kæmi nokkrum vörnum við. Frábært mark og ekki amalegt að fullkomna þrennu með svona marki fyrir framan The Kop. Þetta var síðasta spark Steven í þessum leik og honum var skipt af velli strax eftir markið. Mörkin urðu ekki fleiri en það hefðu þau getað orðið. Varamaðurinn Dirk Kuyt fékk tvö færi undir lokin en honum tókst ekki að skora frekar en að undanförnu. Fyrst skallaði hann framhjá úr góðu færi og svo varði markvörður Luton frá honum af stuttu færi. Stuðningsmenn Liverpool sungu You´ll Never Walk Alone af krafti undir lokin og fögnuðu svo fyrsta sigrinum á árinu 2008. Vonandi fer nú allt að ganga betur innan vallar sem utan!
Liverpool: Itandje, Arbeloa, Carragher, Hyypia, Riise, Pennant, Alonso, Gerrard (Lucas 73. mín.), Babel, Crouch (Kuyt 65. mín.) og Torres (Aurelio 73. mín.). Ónotaðir varamenn: Martin og Kewell.
Mörk Liverpool: Ryan Babel (45. mín.), Steven Gerrard (52., 64. og 72. mín.) og Sami Hyypia (57. mín.).
Gult spjald: Sami Hyypia.
Luton Town: Brill, Jackson, Hutchison, Keane, Goodall, Bell (McVeigh 73. mín.), Robinson (O´Leary 68. mín.), Spring, Currie, Andrew (Furlong 68. mín.) og Talbot. Ónotaðir varamenn: Parkin og Emanuel.
Áhorfendur á Anfield Road: 41,446.
Maður leiksins: Steven Gerrard. Leiðtoginn gaf eftir fyrirliðabandið eftir en það var það eina sem hann gaf eftir í þessum leik. Hann skoraði þrennu og átti stóran þátt í hinum tveimur mörkum Liverpool. Þar fyrir utan var yfirferð hans með ólíkindum. Vel af sér vikið á einni kvöldstund!
Álit Rafael Benítez: Við þurftum að skora snemma og fengum fullt af marktækifærum en þeir vörðust mjög vel. Þetta varð allt auðveldara, í síðari hálfleiknum, eftir að við vorum búnir að skora fyrsta markið. Þetta var góð kvöldstund. Carra lék 500. leik sinn, Stevie skoraði hat-trick og liðið skoraði fimm mörk. F.A. bikarkeppnin er okkur alltaf mikilvæg og við ætlum okkar að reyna að komast áfram í keppninni og vinna hana ef við mögulega getum.
Jamie Carragher, sem lék sinn 500. leik fyrir Liverpool, var hylltur fyrir leikinn. Hann kom síðastur allra út á völlinn. Allir leikmenn liðanna klöppuðu fyrir honum þegar hann gekk til leiks. Það gerði líka þjálfaralið Liverpool. Ekki má gleyma áhorfendum sem fögnuðu hetjunni sinni innilega. Frábær stund!
Hér eru myndir úr leiknum af Liverpoolfc.tv...
Hér eru myndir úr leiknum af vefsíðu BBC...
-
| Heimir Eyvindarson
Ofurhetja í uppbótartíma -
| Heimir Eyvindarson
Nunez tryggði mikilvægan sigur á Brentford -
| Heimir Eyvindarson
Brentford-Liverpool -
| Sf. Gutt
Áfram með smjörið! -
| Sf. Gutt
Jafnglími! -
| Heimir Eyvindarson
Af hverju er okkur illa við Nottingham Forest? -
| Sf. Gutt
Fyrsta tapið! -
| Sf. Gutt
Darwin í banni -
| Sf. Gutt
Dregið í FA bikarnum -
| Sf. Gutt
Auðvelt áframhald!