Fjórða jafnteflið í deildinni í röð!
Liverpool gerði í kvöld fjórða jafntefli sitt í deildinni í röð. Enn dregur í sundur með Efstu liðunum þremur og Liverpool. Hér eftir snýst baráttan í deildinni aðallega um að ná fjórða sætinu. Hvort sem stuðningsmönnum Liverpool líkar það betur eða verr þá er þetta staðreyndin. Efstu þrjú liðin eru nú kominn langt á undan. Samt hefur Liverpool bara tapað tveimur leikjum en jafnteflin eru búin að kosta sitt.
Liverpool byrjaði betur og Yossi Benayoun átti skot snemma leiks sem fór yfir. Ísraelinn gerði betur á 19. mínútu. Dirk Kuyt sendi þá laglega sendingu inn á vítateiginn. Eftir barning í teignum náði Yossi að senda boltann í markið af harðfylgi. Þetta var önnur tilraun hans en varnarmaður komst fyrir boltann þegar hann skaut fyrst. Liverpool var miklu sterkari aðilinn fram að leikhléi en fleiri urðu mörkin ekki. Fabio Aurelio komst næst því að skora en fast skot hans utan teigs fór rétt framhjá.
Liverpool virtist hafa öll tök framan af hálfleiknum. Harry Kewell átti fast skot utan teigs sem Stuart Taylor gerði vel í að verja. Fernando Torres skaut svo rétt yfir. Allt leit út fyrir að Liverpool myndi gera út um leikinn hvað úr hverju en það tókst ekki að skora annað mark og illur grunur fór að læðast að stuðningsmönnum Liverpool eftir því sem á leið. Á 69. mínútu gerðist einmitt það sem ekki mátti gerast. Alvaro Arbeloa braut þá klaufalega á einum leikmanni Villa lengst út á velli. Aukaspyrnan var send inn á vítateig. Martin Laursen skallaði fyrir markiið og við fjærstöngina náði varmamaðurinn Marlon Harewood að klippa boltann aftur fyrir sig og í markið.
Markið kom eins og köld varnsgusa framan í leikmenn Liverpool en það var ekki allt búið enn. Martin Skretl kom inn sem varamaður, fyrir Alvaro, í sínum fyrsta leik með Liverpool strax á eftir jöfnunarmarkið. Tveimur mínútum síðar voru gestirnir komnir yfir. Eftir aukaspyrnu frá hægri barst boltinn út til hliðar hægra megin. Þar reyndi Olof Mellberg að senda fyrir markið. Sendingin var ekki merkileg en hún varð gagnleg eftir að boltinn fór í hendina á Fabio Aurelio og í markið! Liverpool sótti nú allt hvað af tók til leiksloka. Ryan Babel og Peter Crouch voru sendir til leiks. Reyndar hefðu þeir báðir átt að hefja leikinn en betra reyndist seint en aldrei. Leikmenn Villa vörðust með kjafti og klóm. Vörnin hélt þó ekki tveimur mínútum fyrir leikslok. Fabio sendi þá langa aukaspyrnu inn á teig frá vinstri. Boltinn hrökk af Jamie Carragher til Peter sem náði að lyfta boltanum viðstöðulaust, rétt utan við hægra markteigshornið, yfir Stuart í markinu. Vel gert hjá Peter! Markinu var vel fagnað en því miður þá skilaði það bara einu stigi. Fjögur stig af tólf úr síðustu fjórum deildarleikjum og Liverpool hefur ekki unnið sigur í deildinni frá því á öðrum degi jóla!
Liverpool: Reina, Arbeloa (Skrtel 70. mín.), Carragher, Hyypia, Aurelio, Benayoun (Crouch 80. mín.), Mascherano, Gerrard, Kewell (Babel 74. mín.), Kuyt og Torres. Ónotaðir varamenn: Itandje og Alonso.
Mörk Liverpool: Yossi Benayoun (19. mín) og Peter Crouch (88. mín.).
Gul spjöld: Alvaro Arbeloa og Javier Mascherano.
Aston Villa: Taylor, Mellberg, Laursen, Davies, Bouma, Gardner (Harewood 66. mín.), Petrov, Reo-Coker, Young, Carew (Knight 90. mín.) og Agbonlahor. Ónotaðir varamenn: Sorensen, Cahill og Osbourne.
Mörk Aston Villa: Marlon Harewood (69. mín.) og Fabio Aurelio, sm. (72. mín.).
Gul spjöld: Martin Laursen og Ashley Young.
Áhorfendur á Anfield Road: 42.590.
Maður leiksins: Peter Crouch. Hann kom inn á þegar tíu mínútur voru til leiksloka og bjargaði Liverpool frá tapi með því að skora átta mínútum síðar. Fyrir það eitt má telja að hann hafi verið besti maður Liverpool.
Álit Rafael Benítez: Við vorum með stjórn á leiknum og vorum að skapa okkur færi en við þurftum að skora annað mark til að gera út um leikinn. Ef við hefðum náð að gera það þá er ég viss um að við hefðum skorað fleiri mörk því við vorum að spila vel. Ég sagði leikmönnunum eftir leikinn að ef ekki tekst að gera út um leik þá færir það hinu liðinu von og það var það sem gerðist.
-
| Heimir Eyvindarson
Ofurhetja í uppbótartíma -
| Heimir Eyvindarson
Nunez tryggði mikilvægan sigur á Brentford -
| Heimir Eyvindarson
Brentford-Liverpool -
| Sf. Gutt
Áfram með smjörið! -
| Sf. Gutt
Jafnglími! -
| Heimir Eyvindarson
Af hverju er okkur illa við Nottingham Forest? -
| Sf. Gutt
Fyrsta tapið! -
| Sf. Gutt
Darwin í banni -
| Sf. Gutt
Dregið í FA bikarnum -
| Sf. Gutt
Auðvelt áframhald!