| Grétar Magnússon

Rafa í viðtali

Rafa Benítez er hér í nokkuð löngu viðtali sem tekið var við hann af opinberri heimasíðu félagsins.  Rafa talar meðal annars um leikinn gegn West Ham í kvöld, sem er gríðarlega mikilvægur.

Það hefur komið fram mikil gagnrýni á liðið eftir slælega frammistöðu í fyrri hálfleik gegn Havant.  Munu leikmenn þínir hafa eitthvað að sanna gegn West Ham ?

Rafa Benítez:  ,,Ég held að við gleymum því að hver einasti leikur er í 90 mínútur og þegar maður skorar 5 mörk og kemst áfram í bikarkeppni þá getur maður ekki verið mjög vonsvikinn.  Maður getur verið reiður eða vonsvikinn ef maður vill eftir hluta úr fyrri hálfleik.  Ég man að fyrsta tækifæri okkar í leiknum féll fyrir Yossi.  Þetta var gott færi og eftir þetta áttum við góða skyndisókn með Babel.  Allt hefði farið öðruvísi ef við hefðum skorað fyrst en við vitum auðvitað að frammistaða okkar verður að vera betri í fyrri hálfleik.  Og frammistaðan var venjuleg í seinni hálfleik.  Þú hlýtur að vera ánægður með að við komumst áfram, skoruðum 5 mörk og vonandi getum við átt góðan leik gegn West Ham.  Og þá mun fólk segja að vikan hafi verið góð."

Liðið er auðvitað ennþá með í FA Bikarnum, ennþá í Meistaradeildinni.  En þegar kemur að Úrvalsdeildinni þá verður liðið að fara að sigra leiki vegna þess að allt of margir leikir hafa endað með jafntefli nýlega...

,,Já það er satt; maður verður að vera raunsær þegar talað er um stöðu okkar í deildinni, við verðum að vinna þá leiki sem við höfum verið að gera jafntefli í.  Við erum mjög nálægt því að sigra, við erum að skapa okkur færi, erum að sækja en við erum að fá á okkur léleg mörk.  Ef maður sér boltann skoppa í vítateig okkar þá endar það oftast í netinu hjá okkur.  Ég held stundum að þetta sé óheppni en leiðin til að breyta þessu er að styrkja vörnina og halda áfram að skapa færi, skora mörk og nýta færin sem við fáum."

Leikmennirnir hafa sagt að þeir verði fyrir áhrifum af atburðum utan vallar, núna virðist það allt vera komið í lag og nú er virkilega gott tækifæri til þess að koma sterkir til baka á tímabilinu ekki satt ?

,,Jú ég held það, ég held að ef leikmennirnir sýni gæðin og þann karakter sem þeir búa yfir þá munum við byrja að vinna þá leiki sem við erum að gera jafntefli í.  Og ef við höldum áfram að gera vel í FA Bikarnum og Meistaradeildinni þá gæti þetta orðið gott tímabil."
 
Þú hefur einnig talað um hversu mikilvægt sjálfstraust er, þrjú stig gegn West Ham myndi gera mönnum mjög gott, ekki satt ?

..Hver einasti leikur er mikilvægur fyrir leikmennina og þessa vikuna sérstaklega vegna þess að við eigum tvo leiki, þetta verður mjög mikilvægt vegna þess að þá getum við komið í leikinn gegn Chelsea með gott sjálfstraust."
 
Lið sem þú hefur stjórnað hafa ávallt byggt mikið á ákveðið mikinni ástríðu, hvort sem það er úrslitaleikur Meistaradeildarinnar eða FA Bikarsins, eru leikmennirnir að sýna nógu mikla ástríðu fyrir þig núna ?
 
,,Já, ég held að við sjáum að sumir leikir eru mjög góðir, í sumum leikjum mætti sýna meiri ástríðu, en það er alltaf erfitt að greina og útskýra hvers vegna við spilum vel í einum leik, sköpum færi og svo hvers vegna við gerum ekki eins vel í næsta leik.  Gegn Luton spiluðum við fyrri leikinn illa en seinni leikurinn var allt annað þannig að ég held að við verðum að sýna meiri stöðugleika í því að sýna þessa ástríðu, karakter og gæði."
 
Er það ekki hlutverk sumra leikmanna liðsins að byrja að sýna þessa ástríðu eða ertu kannski að leita til leiðtoganna þegar vandræðin steðja að ?
 
,,Ég held blöndu af báðum.  Við verðum að sýna meira.  Þetta snýst ekki bara um leiðtogana heldur alla leikmennina.  Við erum með marga góða leikmenn, góða atvinnumenn og við verðum því að sýna gæðin og karakterinn sem við búum yfir."
 
Hvað finnst þér um West Ham það sem af er tímabili ?
 
..Ég held að þeir séu að bæta sig stöðugt og þetta verður erfiður leikur; þeir hafa einnig staðið sig vel í leikjum gegn Arsenal, United og Chelsea.  Þetta verður erfitt fyrir okkur en við vitum að við verðum að mæta þarna með hugann við það að sigra í leik sem verður erfiður."
 
Finnst þér ótrúlegt að liðið hafi ekki unnið leik í Úrvalsdeildinni síðan um síðustu jól ?
 
,,Ef maður skoðar myndbönd af leikjunum þá er það í raun ótrúlegt, í sumum leikjum fannst mér við skapa nógu mörg færi til að sigra og við höfum einnig verið ótrúlega óheppnir.  Markið sem við fengum á okkur gegn Villa þegar boltinn fór í höndina á Aurelio er eitthvað sem maður sér ekki oft, og kannski sjáum við það ekki gerast aftur.  En í þeim leikjum sem við viljum vinna þá verðum við að nýta færin og vera sterkir í vörninni."
 
Momo er farinn til Juventus, ertu nokkuð viss um að það takist að útkljá mál Javier Mascheranos fljótlega ?
 
,,Ég held að Momo hafi gert góð félagaskipti fyrir sig og okkur einnig.  Vegna þess að hann er góður atvinnumaður, góður drengur, vildi hann spila og það var erfitt hér með Mascherano og Lucas spilandi vel núna ásamt Xabi Alonso og Steven Gerrard.  Varðandi Mascherano þá erum við nálægt því að semja, við erum að vinna hart að þessu.  Ég held að við getum vonandi séð eitthvað jákvætt á næstu dögum."
 
Á næstu 48 tímum ?

,,Í raun liggur okkur ekkert á vegna þess að leikmaðurinn er hjá okkur.  Félagaskiptaglugginn skiptir ekki máli hér þar sem þetta eru annarskonar viðskipti en ég held að við munum heyra góðar fréttir."
 
En þú myndir vilja klára málið fyrir lok gluggans ?
 
,,Það er ekki nauðsynlegt.  Ef við gerum ekkert þá getur hann samt spilað með okkur."
 
Hefur þú fengið staðfestingu á því frá Javier að hann sjái framtíð sína hjá Liverpool ?
 
,,Já, hann vill vera hér."
 
Varðandi Momo, þá er það ekki oft sem þú virðist ná að selja leikmann þannig að hann sé ánægður sem og upphæðin sem félagið fær sé góð..
 
,,Ég held að allt varðandi þetta sé jákvætt.  Momo þurfti að spila, hann vildi spila fyrir okkur og við erum með fjóra leikmenn í þessari stöðu núna.  Ég held að þetta hafi verið gott fyrir hann og líka okkur."

Liðið hefur verið allsráðandi í leikjum undanfarið en hefur ekki verið að setja boltann mikið í netið, er þetta andlegt atriði eða hefur þú verið að vinna að málunum á æfingasvæðinu til að bæta úr þessu ?
 
,,Stundum þegar maður er ekki að skora en skapar sér engu að síður góð færi, þá þarf maður sjálfstraust, þannig að þetta er meira andlegt heldur en tæknilegt.  Hvernig sem er, þá verður maður að bæta sig tæknilega og þá fær maður kannski meira sjálfstraust, ef maður skorar fyrsta markið eins og Yossi gerði um daginn, hann skoraði eitt og hann hefði getað skorað fjögur vegna þess að hann fékk færin til þess.  Þannig að stundum er þetta bara andlegt."

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan