Ekki lagast það!
Liverpool tapaði leik sem liðið hefði getað unnið. Reyndar hefði liðið svo sem getað unnið leikina fjóra sem enduðu með jafntefli á undan þessum. Enginn þessara fimm deildarleikja hefur samt unnist! Í kvöld tapaði Liverpool sínum fyrsta leik á þessu ári. Eina mark leiksins kom út vítaspyrnu á lokamínútu leiksins. Ekki lagast það og lengi virðist vont geta versnað!
Liverpool hóf leikinn vel og Yossi Benayoun fékk gott færi snemma leiks eftir góða sendingu frá Dirk Kuyt en hann skaut yfir úr teignum. En eftir góða byrjun færðu heimamenn sig upp á skaftið. Um miðjan hálfleikinn mátti engu muna að Hamrarnir kæmust yfir. Mark Noble tók þá aukaspyrnu utarlega við vítateiginn vinstra megin. Hann skaut boltanum að marki. Inni á teignum rak Steve Finnan höfuðið í boltann og af höfði hans fór boltinn í þverslá. Þetta var það næsta sem liðin komust því að skora í fyrri hálfleik.
Liverpool byrjaði síðari hálfleikinn af krafti og það skall hurð nærri hælum við mark West Ham í fyrstu sókn. Hinum megin á vellinum fékk Luis Boa Morte dauðafæri en hann hitti ekki boltann. Eftir þetta ógnuðu heimamenn lítið og Liverpool var líklegra liðið til að brjóta ísinn. Varamennirnir Lucas Leiva og Ryan Babel færðu líf í sóknarleikinn og Lucas hefði átt að skora en skot hans úr góðu færi fór framhjá. Undir lokin þyngdist sókn Liverpool. Sami Hyypia átti góðan skalla eftir horn en Lucas Neill varð fyrir skalla hans á markteignum. Leikmenn Liverpool vildu fá víti því Ástralinn virtist slæma hendi í boltann en ekkert var dæmt. Allt leit út fyrir fimmta jafnteflið í röð. Það hefði verið nógu slæmt en það átti eftir að versna á lokamínútunni. Heimamenn náðu skyndisókn og Freddie Ljungberg komst inn á vítateig. Þar hótaði hann markskoti. Jamie Carragher hugðist henda sér fyrir skotið. Freddie skaut á hinn bóginn aldrei og Jamie sópaði honum niður þegar hann renndi sér fyrir hann. Dómarinn dæmdi vítaspyrnu sem Mark Noble tók. Hann hamraði boltanum í netið og tryggði sigur! Liverpool tók miðju og dómarinn flautaði af þegar því verki var lokið. Ömurleg niðurstaða. Liverpool átti aldrei að tapa þessum leik en liðið var ekki nógu gott til að vinna og það sama má segja um síðustu fimm deildarleiki! Að minnsta kosti hefur engin þessara leikja unnist og janúar á nú eftir að líða sitt skeið án þess að Liverpool fagni sigri í deildarleik!
West Ham United: Green, Neill, Ferdinand, Upson, McCartney, Ljungberg, Noble, Mullins, Bowyer (Ashton 58. mín.), Boa Morte (Etherington 59. mín.) og Cole (Spector 81. mín.). Ónotaðir varamenn: Wright og Solano.
Mark West Ham United: Mark Noble, víti (90. mín.).
Liverpool: Reina, Finnan, Carragher, Hyypia, Aurelio, Benayoun (Babel 72. mín.), Gerrard, Alonso, Kewell (Lucas 61. mín.), Torres og Kuyt. Ónotaðir varamenn: Itandje, Crouch og Skrtel.
Gul spjöld: Fabio Aurelio, Fernando Torres og Xabi Alonso.
Áhorfendur á Upton Park: 34.977.
Maður leiksins: Sami Hyypia. Finninn átti mjög góðan leik í vörn Liverpool og olli nokkrum sinnum hættu hinu megin á vellinum.
Álit Rafael Benítez: Við byrjuðum leikinn vel og í síðari hálfleik vorum við mikið með boltann. Það er því ergilegt að tapa eftir skyndisókn á lokamínútu leiksins. Það var hræðilegt að tapa eftir að hafa fengið á sig víti svona seint í leiknum. Við þurfum núna að huga að næsta leik.
Það er ekki venjan í leikskýrslum okkar hér á Liverpool.is að vera með nein læti. Hér er markmiðið að greina sæmilega faglega frá því sem fram fór í leikjum Liverpool. En nú spyr ég! Hversu lengi getur vont gengi Liverpool í deildinni versnað? Tveir leikmenn sem voru í byrjunarliðinu í síðasta deildarleik héldu sætum sínum þrátt fyrir að hafa ekki sýnt neitt í þeim leik! Leikmaður sem hefur skorað í síðustu tveimur leikjum sat allan tímann á bekknum í kvöld! Þessar staðreyndir segja allt sem segja þarf!
Að lokum. Liverpool er nú í sjöunda sæti deildarinnar og það þýðir að liðið er ekki í Evrópusæti!
-
| Heimir Eyvindarson
Ofurhetja í uppbótartíma -
| Heimir Eyvindarson
Nunez tryggði mikilvægan sigur á Brentford -
| Heimir Eyvindarson
Brentford-Liverpool -
| Sf. Gutt
Áfram með smjörið! -
| Sf. Gutt
Jafnglími! -
| Heimir Eyvindarson
Af hverju er okkur illa við Nottingham Forest? -
| Sf. Gutt
Fyrsta tapið! -
| Sf. Gutt
Darwin í banni -
| Sf. Gutt
Dregið í FA bikarnum -
| Sf. Gutt
Auðvelt áframhald!