Loksins deildarsigur!
Þar kom að því að Liverpool vann deildarsigur. Fyrsti deildarsigur ársins og sá fyrsti frá öðrum degi jóla var sannarlega vel þeginn! Sunderland lá í valnum þegar Liverpool vann 3:0 sigur á Anfield Road nú undir kvöldið. Staða liðsins batnaði töluvert í baráttunni um fjórða sætið og þessi sigur á nú vonandi eftir að koma liðinu í gang.
Liverpool hóf leikinn af krafti og það var greinilegt að leikmenn liðsins ætluðu að leika af stolti eins og Rafael Benítez var búinn að biðja um. Á hinn bóginn gekk leikmönnum Liverpool ekki nokkurn hlut að klekkja á vörn Sunderland. Svörtu kettirnir vörðust vel og gáfu engin færi á sér. Craig Gordon, markvörður Sunderland, þurfti ekki að verja nema eitt skot í fyrri hálfleiknum og það var á 39. mínútu. Jermaine Pennant, sem loksins fékk að spila í byrjunarliðinu í deildarleik, lék þá upp að endamörkum og gaf fyrir. Fernando Torres náði skalla á markið en Craig fékk boltann beint á sig. Gestirnir ógnuðu marki Liverpool aldrei verulega en þeir gátu verið sáttir þegar flautað var til leikhlés.
Liverpool sótti sem fyrr eftir leikhlé en ekkert gekk fyrr en á 57. mínútu. Jamie Carragher, sem lék stöðu hægri bakvarðar, lék á varnarmann og sendi góða sendingu fyrir markið. Peter Crouch stökk manna hæst í teginum og skallaði boltann neðst í vinstra hornið. Nú var ísinn brotinn og leikmenn Liverpool færðust allir í aukana. Craig varði tvívegis vel á stuttum tíma. Fyrst varði hann frá Fernando og hann varð svo að hafa sig allan við að verja bakfallsspyrnu frá Peter. Craig varði í horn. Steven Gerrard tók hornspyrnuna. Hún rataði beint á Peter sem skallaði að marki. Boltinn stefndi í markið en Phil Bardsley bjargaði á marklínu. Markið lá í loftinu og það skilaði sér á 69. mínútu. Löng sending kom fram völlinn. Peter framlengdi sendinguna með því að skalla boltann aftur fyrir sig. Stórt gat hafði myndast í vörn Sunderland og það notfærði Fernando Torres sér. Hann stakk sér í gegn og óð upp að vítateignum. Craig kom út á móti honum en Spánverjinn sá við Skotanum og sendi boltann af miklu öryggi í markið. Einfalt og árangursríkt! Sunderland færði sig nú loks aðeins framar og það hefði átt að skila sér í vítaspyrnu á 73. mínútu. Daryl Murphy átti þá skot að marki Liverpool. Boltinn fór greinilega í hendina á Jamie Carragher en dómarinn dæmdi ekkert. Það var ekki að undra þótt leikmenn Sunderland tryðu ekki ranglæti heimsins því þetta var augljós vítaspyrna. Litlu síðar vildu gestirnir aftur fá vítaspyrnu þegar Javier Mascherano sótti hart að einum þeirra. Ekkert var dæmt en dómarinn dæmdi á hinn bóginn vítaspyrnu á Sunderland þegar ein mínúta var til leiksloka. Jermaine tók þá góða rispu inn á vítateiginn hægra megin. Þar felldi Nyron Nosworthy hann og dómarinn dæmdi víti eftir að annar línuvörðurinn gaf honum merki um brotið. Steven Gerrard tók vítaspyrnuna og skoraði með skoti í hægra hornið. Craig kom við boltann en allt kom fyrir ekki. Sigur Liverpool var öruggur og sanngjarn en hann var ekki síst mikill léttir!
Liverpool: Reina, Carragher, Hyypia, Skrtel, Aurelio (Finnan 46. mín.), Pennant, Gerrard, Mascherano, Lucas (Benayoun 61. mín.), Crouch (Kuyt 83. mín.) og Torres. Ónotaðir varamenn: Itandje og Babel.
Mörk Liverpool: Peter Crouch (57. mín.), Fernando Torres (69. mín.) og Steven Gerrard, víti, (89. mín.).
Gult spjald: Steve Finnan.
Sunderland: Gordon, Bardsley, Nosworthy, Evans, Collins, Chopra (Waghorn 83. mín.), Whitehead, Miller, Richardson (Prica 7. mín.), Murphy, Jones og Prica (O´Donovan 55. mín.). Ónotaðir varamenn: Fulop og McShane.
Gul spjöld: Liam Miller og Craig Gordon.
Áhorfendur á Anfield Road: 43.244.
Maður leiksins: Peter Crouch. Risinn stóð sig mjög vel í framlínu Liverpool. Hann skoraði markið sem braut og var þar eftir stórhættulegur uppi við markið. Hann var óheppinn að skora ekki aftur. Peter lagði svo upp annað markið. Hann hlýtur nú að vera búinn að vinna sér sæti í byrjunarliðinu.
Álit Rafael Benítez: Mig langar að þakka stuðningsmönnum okkar. Þeir stóðu við bakið á liðinu þegar þess var þörf. Við vissum að leikurinn í dag gæti orðið erfiður svo við þurftum að halda okkar striki. Við byrjuðum síðari hálfleikinn vel. Leikurinn opnaðist um leið og við skoruðum fyrsta markið. Þegar sjálfstraustið er lítið er mikilvægt að vinna leiki. Dagurinn í dag var því á margan hátt góður.
-
| Sf. Gutt
Hlýrra uppi í stúku! -
| Sf. Gutt
Dregið í Deildarbikarnum -
| Sf. Gutt
Áfram í Deildarbikarnum -
| Mummi
Miðasala á Liverpool – Ipswich og Liverpool – West Ham -
| Mummi
Seinkun á jólagjöf -
| Sf. Gutt
Af samningamálum Trent Alexander-Arnold -
| Sf. Gutt
Jafntefli manni færri! -
| Sf. Gutt
Enn nær Mohamed Salah merkum áfanga! -
| Sf. Gutt
Sögulegur sigur! -
| Sf. Gutt
Sigur á Spáni