Þrátefli á Brúnni!
Það má segja að það hafi verið jafnt á öllum tölum á Stamford Bridge síðdegis í dag. Liverpool sótti Chelsea heim og fór þaðan með eitt stig eftir sannkallað þrátefli. Ekkert mark var skorað og þau voru ekki mörg færin sem sköpuðust. Þau úrslit munu mun hvorugan aðilann gleðja en þau voru sanngjörn þegar allt er tekið. Liverpool fékk þó betri færi.
Rafael Benítez kom ekkert sérstaklega á óvart í liðsuppstillingu sinni nema hvað Sami Hyypia var ekki í vörninni. Það kom kannski meira á óvart að Finninn sterki var ekki heldur á varamannabekknum. Ungur Spánverji, Mikel San Jose Dominguez, var á bekknum til taks sem varnarmaður. Þetta er í fyrsta sinn sem hann kemst svo nærri aðalliðinu. Sami mun reyndar hafa verið meiddur. Liverpool hóf leikinn vel. Fyrsta færi leiksins kom eftir stundarfjórðung en Peter Crouch skallaði þá framhjá eftir fyrirgjöf frá Steve Finnan. Rétt á eftir lék Peter þríhyrning við Ryan Babel. Peter fékk boltann til baka í góðu færi inni í teig en skot hans fór rétt framhjá. Hann hefði sannarlega átt að hitta markið enda færið gott.
Enn liðu aðeins nokkrar mínútur áður en Peter komst aftur í færi. Steven Gerrard braut upp að endamörkum og sendi fyrir. Peter fékk sendinguna í góðu færi en máttlaus skalli hans fór beint á Petr Cech. Peter hefði því getað verið búinn að skora þrennu á upphafskafla leiksins. Heimamenn ógnuðu marki Liverpool ekkert en þeir gerðu tilkall til vítaspyrnu á 25. mínútu. Ashley Cole sendi á nafna sinn Joe sem lék inn í teiginn. Þar hljóp Javier Mascherano að honum og Joe féll við. Hann og félagar hans heimtuðu víti en dómarinn dæmdi ekkert en það hefði hann vissulega getað gert því Javier fór með annan fótinn fyrir Joe. Liverpool var sterkara liðið í hálfleiknum en ekkert mark hafði verið skorað þegar flautað var til leikhlés.
Síðari hálfleikur var sannkallað þrátefli. Heimamenn voru heldur sókndjarfari en vörn Liverpool var gríðarlega sterk. Svo sterk var hún að Jose Reina hafði ekkert að gera. Áhyggjuefni skapaðist þó snemma í hálfleiknum þegar Martin Skrtel datt illa eftir návígi og meiddi sig á úlnlið. Hann fór af velli þar sem bundið var um hendina. Spánverjinn Mikel hitaði upp en það þurfti ekki að setja hann inn á. Slóvakinn kom aftur inn á stóð vaktina vel við hlið Jamie Carragher. Chelsea fékk loks dauðafæri 82. mínútu. Ashley Cole lagði þá boltann fyrir fætur Michael Ballack. Þjóðverjinn fékk boltann í miðjum teig og stýrði honum að marki en boltinn fór hárfínt framhjá. Skall þar hurð nærri hælum. Leikurinn fjaraði út og honum lauk án marka. Það hefðu nú bara þótt góð úrslit enda Chelsea ekki tapað deildarleik á heimavelli frá því í byrjun árs 2004.
Chelsea: Cech, Belletti, Carvalho, Alex, A. Cole, Ballack, Makelele, Lampard (Obi 71. mín.), Wright-Phillips (Malouda 64. mín.), Anelka og J. Cole (Pizarro 86. mín.). Ónotaðir varamenn: Cudicini og Ben-Haim.
Gul spjöld: Juliano Belletti, Ricardo Carvalho og Alex.
Liverpool: Reina, Finnan, Carragher, Skrtel, Riise, Gerrard, Mascherano, Lucas, Babel (Pennant 71. mín.), Crouch og Kuyt. Ónotaðir varamenn: Itandje, Kewell, Benayoun og Dominguez.
Gul spjöld: Ryan Babel og John Arne Riise.
Áhorfendur á Stamford Bridge: 41.788.
Maður leiksins: Martin Skrtel. Slóvakinn sýndi hvað í honum býr í þessum leik. Hann var gríðarlega sterkur í vörninni og var ekki feiminn að láta leikmenn Chelsea finna fyrir sér. Hann meiddist á hendi í síðari hálfleik en kom aftur til leiks eftir að búið var að binda um. Trúlega er þarna kominn framtíðarleikmaður sem eitthvað er spunnið í.
Álit Rafael Benítez: Það myndi venjulega teljast gott að ná stigi á útivelli gegn Chelsea en við áttum nokkur góð færi í fyrri hálfleik sem hefðu getað fært okkur sigur. Við þurftum að verjast meira í síðari hálfleik og það gerðum við vel auk þess að fá nokkur hálf færi í vítateig þeirra. Við hefðum getað náð öllum stigunum en það er ekki auðvelt þegar leikið er gegn svona góðu liði. Ég er ánægður með liðið og þá sérstaklega í fyrri hálfleik því við áttum nokkur virkilega góð færi."
-
| Sf. Gutt
Alisson farinn að æfa -
| Sf. Gutt
Landsleikjafréttir -
| Sf. Gutt
Harvey farinn að æfa -
| Sf. Gutt
Ungliðar lánaðir -
| Sf. Gutt
Virgil fékk frí -
| Sf. Gutt
Landsleikjafréttir -
| Sf. Gutt
Georginio Wijnaldum fer víða -
| Sf. Gutt
Tveir uppaldir í enska landsliðinu -
| Sf. Gutt
Trent meiddur -
| Sf. Gutt
Heilsteypt lið!