Skrautlegt sjálfsmark lagði grunn að sigri
Skrautlegt sjálfsmark markvarðar Bolton lagði grunninn að fágætum útisigri Liverpool á Reebok leikvanginum. Þetta var aðeins annar sigur Liverpool á þessum leikvangi í sögunni. Sigurinn var öruggur og hefði átt að vera stærri. Leikmenn Liverpool fóru á hinn bóginn illa með góð tækifæri til að bæta við fleiri mörkum.
Jamie Carragher var aftur í byrjunarliðinu eftir meiðsli og lék sem hægri bakvörður í stað Steve Finnan sem var meiddur. Bolton, sem hefur haft góð tök á Liverpool á heimavelli sínum síðustu árin, byrjaði leikinn vel og það skall hurð nærri hælum við mark Liverpool á 6. mínútu. El Hadji Diouf tók þá aukaspyrnu lengst utan af velli vinstra megin. Hann sendi inn á teig og þar sveif boltinn framhjá öllum og öllu áður en hann skoppaði í völlinn og fór þaðan í þverslána. Jose Reina hreyfði hvorki legg né lið. Rétt á eftir náði Joey O´Brien skalla að marki en Steven Gerrard bjargaði að síðustu stundu við marklínuna. Eftir þessa hressilegu byrjun heimamanna kom það mörgum á óvart þegar Liverpool náði forystu á 12. mínútu. Reyndar kom markið eins og þruma úr heiðskíru lofti. Steven fékk boltann við vítateigshornið vinstra megin og skaut. Skotið var ekki ýkja fast og stefndi þar að auki framhjá en boltinn skoppaði rétt fyrir framan Jussi Jaaskelainen, markvörð Bolton, sem ákvað af einhverjum ástæðum að skutla sér á eftir boltanum. Við að boltinn skoppaði missti finnski markvörðinn öll tök á aðstæðum. Boltinn stoppaði af höfði hans og skrúfaðist þaðan til baka inn að markinu og í markið. Stuðningsmenn Liverpool sem voru fyrir aftan markið trúðu ekki eigin augum en fögnuðu innilega enda hefur heppnin sjaldan verið með Liverpool á þessum leikvangi! Mörg hafa skrautleg mörkin litið dagsins ljós og þetta er með þeim allra skrautlegustu sem sést hafa! Á 18. mínútu bætti Jussi fyrir mistökin þegar hann varði hörkuskot frá Ryan Babel sem hafði farið illa með vörn Bolton. En á 27. mínútu bjargaði Jose Reina frábærlega þegar hann varði skalla frá Kevin Davies. Spánverjinn sýndi ótrúleg viðbrögð og þau þurfti til því margir sáu boltann í markinu. Þetta reyndist gríðarlega mikilvæg markvarsla. Undir lok hálfleiksins var Ryan enn ógnandi og komast upp að teignum en varnarmaður komst fyrir skot hans og bjargaði í horn.
Liverpool hafi lengst af góð tök á leiknum eftir leikhlé og á 60. mínútu kom markið sem svo gott sem gerði út um leikinn. Jamie Carragher sendi fyrir markið frá hægri á Dirk Kuyt sem skaut góðu skoti. Boltinn hafnaði í stöng og hrökk út í teig. Varnarmaður reyndi að hreinsa en það tókst ekki betur til en það að boltinn fór beint á Ryan sem skoraði með nákvæmu skoti í hornið nær. Hollenski strákurinn fagnaði með miklum fimleikastökkum. Hann verðskuldaði sannarlega að skora. Hér eftir var aðeins spurning um hversu stór sigur Liverpool yrði. Steven Gerrard hefði átt að fá vítaspyrnu þegar skot hans fór í hendi varnarmanns. Þriðja mark Liverpool varð ekki umflúið og það kom þegar stundarfjórðungur var eftir. Xabi Alosno tók hornspyrnu frá hægri. Varnarmaður skallaði út fyrir teig en það var skammgóður vermir. Boltinn hafnaði hjá Fabio Aurelio sem var óvaldaður rétt utan teigs. Brasilíumaðurinn drap boltann með brjóstinu og þrumaði honum svo á lofti út við stöng hægra megin. Glæsilegt mark hjá Fabio sem hefur verið að leika betur í síðustu leikjum. Honum var vel fagnað af félögum sínum og greinilegt var að þetta var stór stund fyrir hann! Þetta var fyrsta mark Fabio fyrir Liverpool. Fjórum mínútum síðar skoraði annar leikmaður sitt fyrsta mark fyrir félagið sitt. Varamaðurinn Tamir Cohen skallaði þá í mark eftir hornspyrnu og rétti þar með hlut heimamanna. Það er spurning hvað föður Tamir hefur fundist um markið en hann er Avi Cohen sem eitt sinn lék með Liverpool! Bolton reyndi að sækja undir lokin og Liverpool fékk þrjú skyndiupphlaup sem hefðu átt að skila eins og einu marki. Leikmenn Liverpool náðu ekki að notfæra sér upphlaupin en sigrinum varð ekki ógnað. Fyrsti sigur Liverpool í Bolton frá leiktíðinni 2002/2003 var staðreynd!
Bolton Wanderes: Jaaskelainen, Steinsson (Rasiak 42. mín.), A. O´Brien, Cahill, Gardner, J. O´Brien, Campo, Nolan (Cohen 46. mín.), Diouf, Davies og Taylor. Ónotaðir varamenn: Al Habsi, Meite og Giannakopoulos.
Mark Bolton Wanderes: Tamir Cohen (79. mín.).
Gul spjöld: Grzegorz Rasiak og Kevin Davies.
Liverpool: Reina, Carragher, Hyypia, Skrtel, Aurelio, Gerrard, Alonso, Mascherano, Babel, Kuyt (Arbeloa 86. mín.) og Torres (Riise 77. mín.). Ónotaðir varamenn: Martin, Benayoun og Crouch.
Mörk Liverpool: Jussi Jaaskelainen, sm. (12. mín.), Ryan Babel (60. mín.) og Fabio Aurelio (75. mín.).
Gult spjald: Sami Hyypia.
Áhorfendur á Reebok leikvanginum: 24.004.
Maður leiksins: Ryan Babel. Hollenski strákurinn var gríðarlega sterkur á vinstri kantinum og ógnaði vörn Bolton án afláts. Hann skoraði svo fallegt mark og þau hefðu getað hæglega getað verið fleiri. Þar fyrir utan lék hann allan leikinn og það hefur hann ekki gert áður fyrir Liverpool ef minnið bregst ekki.
Álit Rafael Benítez: Þetta var góður leikur og liðið lék sérlega vel. Við lögðum hart að okkur, spiluðum vel og sköpuðum okkur færi. Ég er því ánægður. Við áttum í vandræðum til að byrja með þegar þeir ógnuðu eftir aukaspyrnum en eftir það stjórnuðum við gangi mála. Við reyndum að spila boltanum vel og sækja. Markmið okkar var að spila vel og ná þremur stigunum.
Hér eru myndir úr leiknum af Liverpoolfc.tv...
-
| Heimir Eyvindarson
Ofurhetja í uppbótartíma -
| Heimir Eyvindarson
Nunez tryggði mikilvægan sigur á Brentford -
| Heimir Eyvindarson
Brentford-Liverpool -
| Sf. Gutt
Áfram með smjörið! -
| Sf. Gutt
Jafnglími! -
| Heimir Eyvindarson
Af hverju er okkur illa við Nottingham Forest? -
| Sf. Gutt
Fyrsta tapið! -
| Sf. Gutt
Darwin í banni -
| Sf. Gutt
Dregið í FA bikarnum -
| Sf. Gutt
Auðvelt áframhald!