Þriðja þrenna Fernando sökkti Hömrunum!
Stuðningsmenn Liverpool mótmæltu eigendum félagsins í kvöld en þeir geta verið ánægðir með liðið sitt! Liverpool hefndi grimmilega fyrir sárt tap fyirr West Ham í lok janúar. Fernando Torres fór enn einu sinni á kostum og skoraði þriðju þrennu sína á leiktíðinni. Steven Gerrard skoraði svo og innsiglaði 4:0 sigur Liverpool. Liverpool færðist upp um sæti og er nú komið í fjórða sæti deildarinnar. Everton hefur jafn mörg stig en markahlutfall Liverpool er betra og það lagaðist heldur betur í kvöld!
Leikmenn Liverpool hófu leikinn af krafti enda lá það fyrir að sigur myndi lyfta liðinu upp í fjórða sæti deildarinnar. Strax á 7. mínútu skall hurð nærri hælum við mark gestanna. John Arne Riise sendi þá fyrir frá vinstri. Dirk Kuyt fékk boltann við fjærstöngina og skallaði fyrir markið á Fernando Torres en skalli hans fór rétt framhjá. Þetta var þó aðeins gálgafrestur fyrir West Ham því mínútu síðar kom fyrsta markið. Dirk fékk þá boltann hægra megin. Hann sendi fyrir markið. Boltinn skoppaði einu sinni í jörðina áður en hann barst fyrir mitt markið. Þar skaut Fernando sér fram fyrir einn varnarmann og smellti boltanum viðstöðulaust í markið. Glæsilega afgreitt hjá Spánverjanum. Á 13. mínútu fékk West Ham sitt eina færi. Luis Boa Morte komst þá inn á vítateiginn vinstra megin. Jose Reina kom út á móti honum en lét Portúgalann fara. Luis skaut svo að marki úr þröngu færi en Alvaro Arbeloa komst fyrir boltann og bjargaði í horn. Eftir þetta réði Liverpool lögum og lofum á vellinum. Það var þó ekki mikið um opin færi það sem eftir var af fyrri hálfleiknum. Besta færið kom á 37. mínútu en Robert Green varði þá vel frá Steven Gerrard eftir að Ryan Babel lagði upp færi fyrir fyrirliðann.
Framan af síðari hálfleiknum virtist næsta mark ætla að standa á sér. Á 54. mínútu lagði Steven laglega upp gott færi fyrir Ryan en Robert varði fast skot hans. Þrátt fyrir stöðuga sókn Liverpool kom annað markið ekki fyrr en á 61. mínútu. Xabi Alonso tók hornspyrnu frá hægri. Boltinn fór yfir á fjærstöng þar sem Dirk náði honum. Hann lék á varnarmann og sendi fyrir. Boltinn fór beint á höfuðið á Fernando sem þurfti ekki einu sinni að stökkva upp. Hann stýrði bara boltanum í rólegheitunum í markið. Ótrúlegt mark! Á 67. mínútu munaði hársbreidd að Fernando innsiglaði þrennu sína. Steven sendi frábæra sendingu fyrir frá hægri. Fernando henti sér fram og sneiddi boltann að marki. Boltinn hafnaði í innanverðri stönginni og West Ham slapp. Fernando var þó ætlað að skora þrennu og þriðja markið kom níu mínútum fyrir leikslok. John Arne, sem lék líklega besta leik sinn á leiktíðinni, skaut þá að marki. Varnarmaður komst fyrir og boltinn fór í loft upp. Norðmaðurinn stökk upp og skallaði boltann fyrir fætur Fernando sem fékk boltann vinstra megin í teignum. Hann lék á Lucas Neill eins og hann væri ekki til og renndi boltanum svo af mikilli yfirvegun neðst út í hornið fjær. Frábær afgreiðsla hjá "Stráknum" sem þarna innsiglaði þriðju þrennu sína á leiktíðinni. Þetta var síðasta verk Fernando sem var skipt af velli áður en leikurinn hófst á nýjan leik. Áhorfendur stóðu á fætur og klöppuðu honum lof í lófa. Tveimur mínútum seinna innsiglaði Steven Gerrard stórsigur Liverpool. Hann fékk þá boltann á miðjum vallarhelmingi West Ham. Hann rauk fram völlinn og þrumaði boltanum upp í vinstra hornið af um 25 metra færi. Frábært skot hjá fyrirliðanum sem átti mjög góðan leik. Fyrirliðinn færði svo Fernando keppnisboltann eftir leikinn! Þriðji boltinn sem Fernando fær á þessari leiktíð! Öruggur stórsigur og nú er bara að halda áfram á sömu braut!
Liverpool: Reina, Arbeloa, Skrtel, Carragher, Riise, Gerrard, Mascherano, Alonso, Babel (Pennant 76. mín.), Kuyt (Benayoun 63. mín.) og Torres (Crouch 82. mín.). Ónotaðir varamenn: Itandje og Hyypia.
Mörk Liverpool: Fernando Torres (8., 61. og 81. mín. og Steven Gerrard (83. mín.).
West Ham: Green, Neill, Ferdinand, Upson (Spector 63. mín.), McCartney, Solano (Ashton 69. mín.), Noble, Mullins, Ljungberg, Boa Morte og Cole (Zamora 69. mín.). Ónotaðir varamenn: Wright og Pantsil.
Gul spjöld: Carlton Cole, Lucas Neill og Mark Noble.
Áhorfendur á Anfield Road: 42.954.
Maður leiksins: Fernando Torres. Hver annar? Strákurinn skoraði þriðju þrennu sína á leiktíðinni. Hann afgreiddi öll mörkin geysilega vel og það var aðeins stöngin sem kom í veg fyrir að hann skoraði fernu. Fyrir utan að skora mörkin þrjú þá var hann látlaust á ferðinni og hann gaf varnarmönnum Hamranna aldrei stundlegan frið. Svo var hann slappur fyrir leikinn!
Álit Rafael Benítez: Við erum að spila núna af miklu sjálfstrausti. Við byrjuðum leiktíðina vel og núna, þegar komið er að mikilvægum kafla á leiktíðinni, erum við að spila virkilega vel. Liðið er núna að spila sem heild og það er mjög mikilvægt. Sigurinn í kvöld var mikilvægur því það er lengi búið að tala um þennan leik því við áttum hann til góða. Það er þó miklu betra að vera búinn að spila leikinn og ná stigunum í hús. Það er betra fyrir sjálfstraustið. Við höfum núna þremur stigum meira og þetta er núna allt í okkar höndum.
Hér eru myndir úr leiknum af vefsíðu Liverpoolfc.tv...
Hér eru myndir úr leiknum af vefsíðu BBC...
-
| Sf. Gutt
Úr leik! -
| Sf. Gutt
Hlýrra uppi í stúku! -
| Sf. Gutt
Dregið í Deildarbikarnum -
| Sf. Gutt
Áfram í Deildarbikarnum -
| Mummi
Miðasala á Liverpool – Ipswich og Liverpool – West Ham -
| Mummi
Seinkun á jólagjöf -
| Sf. Gutt
Af samningamálum Trent Alexander-Arnold -
| Sf. Gutt
Jafntefli manni færri! -
| Sf. Gutt
Enn nær Mohamed Salah merkum áfanga! -
| Sf. Gutt
Sögulegur sigur!