100 Evrópuleikir hjá Carra!
Jamie Carragher varð á þriðjudagskvöldið fyrsti leikmaður í sögu Liverpool til að spila eitt hundrað Evrópuleiki fyrir hönd félagsins. Þetta afrekaði Jamie á San Siro þegar hann stóð vaktina þar gegn Inter Milan. Það er fremur sjaldgæft að leikmenn nái að spila svo marga Evrópuleiki með sama liðinu en slíkt afrek segir sína sögu um stöðugleika þeirra leikmanna sem ná því.
Ef þessir eitt hundrað leikir eru flokkaðir kemur í ljós að Jamie á 70 leiki að baki í Meistaradeildinni. Í Evrópukeppni félagsliða hefur hann spilað 28 leiki og til viðbótar hefur hann spilað tvo leiki um Stórbikar Evrópu. Í þessum eitt hundrað leikjum hefur Jamie skorað eitt mark. Alls eru leikir hans með Liverpool nú 511 og mörkin fjögur.
Jamie hefur unnið fjóra Evróputitla á ferli sínum. Hann varð Evrópumeistari félagsliða og Stórbikarmeistari árið 2001. Árið 2005 bætti hann Evrópubikarnum og Stórbikarnum, í annað sinn, í safnið.
Hér er listi yfir leikjahæstu leikmenn Liverpool í Evrópukeppni:
1. Jamie Carragher 100
2. Sami Hyypia 91
3. Ian Callaghan 89
4. Steven Gerrard 87
5. Tommy Smith 85
6. Ray Clemence 80
7. Emlyn Hughes 79
8. John Arne Riise 76
9. Phil Neal 74
10. Steve Heighway 67
Á þessum lista má sjá að Sami Hyypia á ekki langt í land með að ná eitt hundrað Evrópuleikjum með Liverpool. Hann hefur á hinn bóginn leikið fleiri en hundrað Evrópuleiki á ferli sínum. Alls á hann 104 Evrópuleiki að baki með öllum þeim félögum sem hann hefur leikið með. Sami gæti náð áfanganum ef samningur hans við Liverpool verður framlengdur í sumar.
Jamie um 100 leikina... "Það er magnað að verða fyrsti leikmaður Liverpool til að ná 100 Evrópuleikjum. Það mikilvægasta er að vinna bikara en það sýnir að maður er að gera eitthvað rétt þegar maður hefur náð að spila svona marga leiki. Þetta er gaman fyrir mig því félagið á svo mikla sögu í Evrópu. Þetta er eitthvað sem ég er stoltur af vegna þess að Liverpool er stórt félag. Það er erfitt að skrifa nýja kafla í söguna eða gera eitthvað sem enginn hefur gert áður. Venjulega hjá Liverpool, þá skiptir engu hvað maður afrekar, þá hefur einhver annar gert betur."
-
| Heimir Eyvindarson
Ofurhetja í uppbótartíma -
| Heimir Eyvindarson
Nunez tryggði mikilvægan sigur á Brentford -
| Heimir Eyvindarson
Brentford-Liverpool -
| Sf. Gutt
Áfram með smjörið! -
| Sf. Gutt
Jafnglími! -
| Heimir Eyvindarson
Af hverju er okkur illa við Nottingham Forest? -
| Sf. Gutt
Fyrsta tapið! -
| Sf. Gutt
Darwin í banni -
| Sf. Gutt
Dregið í FA bikarnum -
| Sf. Gutt
Auðvelt áframhald!