Kevin Keegan dáist að samvinnu Stevie og Fernando
Kevin Keegan, framkvæmdastjóri Newcastle United, hafði ekki yfir miklu að gleðjast um síðustu helgi þegar Liverpool tók liðið hans í gegn á Anfield Road.
Liverpool vann 3:0 og þeir Steven Gerrard og Fernando Torres fóru á kostum. Þeir skoruðu sitt markið hvor og lögðu upp mark fyrir hvorn annan. Kevin Keegan veit eitt og annað um góða samvinnu sóknarmanna en samvinna hans og John Toshack var á sínum tíma rómuð og skilaði fjölda marka. Þeir tveir eru taldir einn magnaðasti sóknardúett sem Liverpool hefur átt. Kevin gat því eiginlega ekki annað en dáðst að samvinnu þeirra Steven og Fernando.
"Maður er núna bara að sjá byrjunina á samvinnu þeirra. En það sem maður sér nú þegar er nóg til þess að Rafa Benítez og stuðningsmenn Liverpool grípa andann á lofti af hrifningu. Það segir samt í raun lítið hvað þeir eru að gera núna en þeir eiga alla möguleika á að þróa samvinnu sína þannig að mótherjar þeirra eigi eftir að óttast þá mikið. Liverpool hefur leikmenn sem geta farið illa með mótherja sína og þeir Steven og Fernando eru sannarlega svoleiðis leikmenn. Þeir eru að þróa góða samvinnu með því að átta sig á styrkleikum hvors annars. Þeir notfæra sér svo styrkleika sína þegar komið er út á völlinn.
En það verður að setja málið í rétt samhengi. Ef maður borgar rúmlega 20 milljónir sterlingspunda fyrir sóknarmann þá reiknar maður með því að hann eigi að vera í allra fremstu röð. Þetta var ekki eins og þegar Liverpool keypti mig frá Scunthorpe fyrir 33.000 sterlingspund. Þá var verið að taka áhættu! Þeir borguðu 20 milljónir fyrir Fernando en hann er búinn að spila svona vel í nokkur ár á Spáni og með landsliði þeirra. Hann er mjög góður leikmaður og það kemur ekki á óvart að hann sé að spila svona vel. En samvinna hans við Steven Gerrard á bara eftir að batna."
Kevin Keegan sneri á sinn gamla heimavöll í fyrsta sinn eftir endurkomu sína til Newcastle United. Hann kunni vel við sig á Anfield Road og það var til þess tekið að hann eyddi löngum tíma fyrir leikinn í að gefa stuðningsmönnum Liverpool eiginhandaráritanir. Kevin er einfaldlega einstakt ljúfmenni og það er ekki að spyrja að gæðunum á þeim bænum! Líklega óska flestir, ef ekki allir, stuðningsmenn Liverpool honum góðs gengis til vors!
-
| Sf. Gutt
Vopnahlésdagurinn -
| Sf. Gutt
Mikil jákvæðni hjá félaginu -
| Sf. Gutt
Alisson farinn að æfa -
| Sf. Gutt
Landsleikjafréttir -
| Sf. Gutt
Harvey farinn að æfa -
| Sf. Gutt
Ungliðar lánaðir -
| Sf. Gutt
Virgil fékk frí -
| Sf. Gutt
Landsleikjafréttir -
| Sf. Gutt
Georginio Wijnaldum fer víða -
| Sf. Gutt
Tveir uppaldir í enska landsliðinu