Páskahret í Manchester
Eftir sjö sigra í röð lenti Liverpool í slæmu páskahreti á Old Trafford í dag. Liverpool lék ekki vel og mátti þola tap í leik sem allt gekk í móti.
Leikmenn Liverpool virtust ekki vera vel upplagðir þegar þessi páskarimma hófst. Vörnin var óörugg og Wayne Rooney fékk tvö færi á upphafskaflanum en Jose Reina varði vel frá honum í bæði skiptin. Í bæði skiptin slapp Wayne einn inn á teiginn. Hinu megin náði Fabio Aurelio að komast inn á teig eftir gott spil. Hann ákvað að skjóta í stað þess að senda en skot hans fór víðsfjarri. Litlu síðar átti Steven Gerrard skot, utan teigs, sem fór í varnarmann og af honum rétt yfir. Líkt og í síðustu leikjum Liverpool við Rauðu djöflanna var fyrsta markið í leiknum slysalegt. Wayne fékk boltann úti á vinstri kanti. Hann fékk frið til að gefa fyrir. Fyrir miðju marki stökk Wes Brown manna hæst og af baki hans fór boltinn í markið! Varnarmenn Liverpool voru illa á verði og Jose Reina var ekki í markinu eftir algjörlega mislukkað úthlaup. Hann hefði betur verið kyrr í markinu og það var undarleg ákvörðun hjá honum að koma út úr markinu.
Mínútu fyrir leikhlé fór allt á versta veg fyrir Liverpool. Fernando Torres var þá sparkaður niður lengst úti á velli og dómarinn dæmdi honum aukaspyrnu. Fernando kvartaði yfir meðferð varnarmanna United og dómarinn gaf honum þá umsvifalaust gult spjald. Fernando hefur greinilega sagt eitthvað mjög ljótt! Javier Mascherano tók þá glórulausa ákvörðun og ákvað að blanda sér í mál sem kom honum ekki nokkurn hlut við. Hann spurði dómarann út í hvers vegna hann hefði bókað Fernando og uppskar sjálfur gult spjald. Áður var hann búinn að fá gult og því var þátttöku hans í þessum leik lokið. Hann var mjög ósáttur við útafreksturinn enda sakirnar litlar. Félagar hans og áttu í miklum erfiðleikum með að koma Javier af velli og hann gaf sig ekki fyrr en Rafael Benítez kom á vettvang. Vissulega var þessi brottrekstur harður en Javier átti að hafa vit á því að skipta sér ekki af því sem dómarinn var búinn að ákveða. Nú var útlitið orðið svart! Liverpool var nú manni færri og einmitt þeim manni sem margir töldu fyrirfram lykilmann í þessum leik.
Síðari hálfleikur byrjaði með miklum látum. Jose Reina varði vel frá Cristiano Ronaldo og Edwin Van der Sar varði frá Steven nokkrum andartökum síðar. Wayne komst svo enn einu sinni einn inn á teig nú eftir langt útspark en Jose sá við honum sem fyrr. Eftir þetta lá Liverpool lengi vel í vörn en heimamenn náðu ekki að opna vörnina. Um tuttugu mínútum fyrir leikslok fór Liverpool að færa sig framar á völlinn og engu munaði að Fernando Torres næði til boltans í góðu færi eftir aukaspyrnu. Liverpool virtist vera í uppsveiflu en svo varð ekki og þess í stað gerðu heimamenn út um leikinn. Jose varði frábærlega frá Carlos Tevez og á 79. mínútu fékk Cristiano Ronaldo boltann í dauðafæri inni á teig en Jose varði enn einu sinni. Boltinn fór aftur fyrir og dæmd var hornspyrna. Varamaðurinn Luis Nani tók hana. Boltinn fór á landa hans Cristiano sem skallaði í mark. Líkt og í fyrsta markinu þá átti Jose algjörlega vanhugsað úthlaup og boltinn hafnaði í auðu markinu. Tveimur mínútum seinna skoraði svo Luis sjálfur. Hann fékk boltann rétt utan teigs, lék framhjá tveimur leikmönnum Liverpool og þrumaði boltanum í markið. Fjórða tap Liverpool í röð á Old Trafford varð staðreynd!
Manchester United: Van der Sar, Brown, Ferdinand, Vidic, Evra, Ronaldo, Scholes, Carrick, Anderson (Tevez 73. mín.), Giggs (Nani 73. mín.) og Rooney. Ónotaðir varamenn: Kuszczak, Hargreaves og O´Shea.
Mörk Manchester United: Wes Brown (34. mín.), Cristiano Ronaldo (79. mín.) og Luis Nani (81. mín.).
Gult spjald: Rio Ferdinand.
Liverpool: Reina, Arbeloa, Carragher, Skrtel, Aurelio, Mascherano, Alonso, Kuyt, Gerrard, Babel (Benayoun 66. mín.) og Torres (Riise 82. mín.). Ónotaðir varamenn: Itandje, Hyypia og Crouch.
Rautt spjald: Javier Mascherano.
Gul spjöld: Javier Mascherano, Fernando Torres og Alvaro Arbeloa.
Áhorfendur á Old Trafford: 76.000.
Maður leiksins: Fabio Aurelio. Brasilíumaðurinn spilaði vel vinstra megin í vörninni og það fór fátt framhjá honum.
Álit Rafael Benítez: Ég er mjög vonsvikinn. Leikurinn skiptist í tvo hluta fyrir og eftir brottreksturinn. Við vorum mikið til í góðum málum áður en við urðum manni færri. Við vorum að reyna að beita skyndisóknum og vorum búnir að fá nokkrar hornspyrnur. Við náðum að sækja svolítið í síðari hálfleik en það er erfitt þegar verið er að spila á móti liði með snjalla og fljóta leikmenn. Okkar fólk er vonsvikið núna og ég er vonsviknastur en héðan af verður engu breytt.
Hér eru myndir úr leiknum af Liverpoolfc.tv...
-
| Sf. Gutt
Gleðileg jól! -
| Sf. Gutt
Úr leik! -
| Sf. Gutt
Hlýrra uppi í stúku! -
| Sf. Gutt
Dregið í Deildarbikarnum -
| Sf. Gutt
Áfram í Deildarbikarnum -
| Mummi
Miðasala á Liverpool – Ipswich og Liverpool – West Ham -
| Mummi
Seinkun á jólagjöf -
| Sf. Gutt
Af samningamálum Trent Alexander-Arnold -
| Sf. Gutt
Jafntefli manni færri! -
| Sf. Gutt
Enn nær Mohamed Salah merkum áfanga!