Rauðliðar snéru Bláliða niður!
Rauðliðarnir í Liverpool snéru Bláliða sömu borgar niður á Anfield Road í dag. Eitt hundraðasta mark þeirra Rauðu á þessari sparktíð dugði til sigurs. Rauður dagur í Liverpool!
Það var gríðarlega mikið undir í þessum 207. grannaslag Liverpool og Everton á Anfield Road í dag. Fyrir utan stoltið, sem alltaf skiptir mestu, þá voru stigin þrjú sem í boði voru sérstaklega mikilvæg fyrir bæði liðin í baráttu þeirra um fjórða sætið í deildinni. Andrúmsloftið var rafmagnað þegar leikmenn liðanna gengu til leiks. Gestirnir ógnuðu fyrst. Mikel Arteta átti þá skot utan vítateigs en landi hans Jose Reina varði örugglega. Þetta var fyrsta og síðasta skotið sem Jose þurfti að verja í leiknum! Liverpool náði svo forystu strax á 7. mínútu. Liverpool fékk þá aukaspyrnu frá vinstri. Boltinn var sendur fyrir markið og barst þaðan út fyrir vítateiginn. Xabi Alonso virtist ætla að ná boltanum en Aiyegbeni Yakubu varð fyrri til. Xabi gafst samt ekki upp og potaði boltanum frá Nígeríumanninum. Boltinn hrökk til Dirk Kuyt sem kom boltanum framhjá varnarmanni og inn í vítateiginn. Hann ætlaði svo sjálfur að ná boltanum en Fernando Torres var mættur á svæðið á undan honum. Hann var á undan varnarmanni Everton og renndi sér á boltann og spyrnti honum af öryggi neðst í hornið fjær. Allt gekk af göflunum af fögnuði hjá Rauðliðum innan vallar sem utan! Enn einu sinni var Fernando Torres búinn að sýna snerpu sína og hittni!
Liverpool tók nú öll völd á vellinum og Everton átti í vök að verjast á köflum. Á 16. mínútu fékk Dirk Kuyt, sem átti mjög góðan leik, boltann inni í vítateignum. Hann átti skot að marki sem varnarmaður komst fyrir. Dirk náði boltanum aftur en Tim Howard varði skot hans í horn. Á 28. mínútu sendi John Arne Riise fyrir frá vinstri og aðeins munaði hársbreidd að Ryan Babel næði til boltans fyrir miðju marki. Fjórum mínútum seinna sendi Steven, sem átti stórleik, aukaspyrnu fyrir markið en varnarmaður náði að bjarga í horn á síðustu stundu. Fimm mínútum fyrir lok hálfleiksins sparkaði Jose Reina langt fram að vítateig Everton. Varnarmaður stökk upp með Fernando og boltinn hrökk út. Steven var fyrstur að átta sig og þrumaði að marki af um tuttugu metra færi en boltinn hafnaði í stönginni. Bláliðar sluppu þar með skrekkinn og þeir gátu sannarlega talið sig lánsama að vera aðeins einu marki undir þegar flautað var til hálfleiks. Rauðliðar gátu verið ánægðir með leik sinn en óánægðir með að vera ekki búnir að gera út um leikinn!
Síðari hálfleikur var ekki jafn hraður og sá fyrri. Liverpool hafði lengst af öll tök á leiknum en gestirnir fóru smá saman að reyna að færa sig upp á skaftið. Á 59. mínútu sendi Mikel Arteta aukaspyrnu fyrir markið frá hægri. Á markteignum náði Leon Osman að skalla að marki en boltinn fór framhjá. Rétt á eftir komst Aiyegbeni Yakubu inn á vítateig Liverpool en Sami Hyypia renndi sér fyrir hann og sparkaði boltanum frá. Glæsilega gert hjá Finnanum sem átti algeran stórleik. Eftir þetta sköpuðust lengi vel engin færi. Leikmenn Liverpool höfðu undirtökin og Everton varð lítt ágengt gegn sterkri vörn þeirra Rauðu. Undir lokin munaði tvívegis litlu að Liverpool næði að bæta við mörkum. Þegar tvær mínútur voru eftir skaut Dirk föstu skoti sem fór í varnarmann og af honum fór boltinn rétt framhjá. Rétt á eftir fékk Steven boltann við vítateiginn hægra megin. Hann þrumaði að marki og Tim mátti hafa sig allan við þegar hann varði í horn. Liverpool innbyrti sigurinn í 207. Merseybakkaslagnum og náði um leið fimm stiga forystu á granna sína. Stoltið og gleðin sem fylgir sigri í Merseybakkaslag tilheyrði Rauðliðum í dag. Á The Kop mátti sjá borða með áletruninni. ,,Þetta er borgin okkar!" Sú fullyrðing skrifuð rauðum stöfum átti sannarlega vel við í Liverpool í dag!
Liverpool: Reina, Carragher, Hyypia, Skrtel, Riise, Leiva, Gerrard (Crouch 90. mín.), Alonso, Babel (Benayoun 82. mín.), Torres (Pennant 89. mín.) og Kuyt. Ónotaðir varamenn: Itandje og Finnan.
Mark Liverpool: Fernando Torres (7. mín.).
Gult spjald: Fernando Torres.
Everton: Howard, Hibbert, Yobo, Jagielka, Lescott, Arteta, Neville (Baines 72. mín.), Carsley, Pienaar (Fernandes 61. mín.), Osman og Yakubu. Ónotaðir varamenn: Wessels, Gravesen og Valente.
Gul spjöld: Lee Carsley, Phil Neville, Steven Pienaar og Phil Jagielka.
Áhorfendur á Anfield Road: 44.295.
Maður leiksins: Steven Gerrard lék frábærlega í leiknum og í fyrri hálfleik var hann algerlega óstöðvandi. Hann barðist úti um allan völl og átti margar frábærar rispur. Þá var hann óheppinn að skora ekki þegar gott langskot hans fór í stöng. Frábær leikur hjá fyrirliðanum.
Álit Rafael Benítez: Við erum mjög ánægðir fyrir hönd stuðningsmanna okkar með sigurinn og eins með að hafa unnið tvöfaldan sigur á Everton á þessari leiktíð. Sigurinn var mjög mikilvægur fyrir liðið og félagið. Við fengum fullt af færum í fyrri hálfleik en við náðum ekki að bæta við marki. Við vitum að þegar staðan er 1:0 þá þarf ekki annað en hornspyrnu eða aukaspyrnu til að fá mark á sig. Mér fannst liðið sýna mikinn skapstyrk eftir vonbrigðin í síðustu viku. Liðið lék mjög vel og þá sérstaklega í fyrri hálfleik. Við vitum að við getum þetta en það er mikilvægt að reyna að sýna okkar rétta andlit í hverjum leik.
Hér eru myndir úr leiknum af Liverpoolfc.tv...
Hér eru myndir úr leiknum af vefsíðu BBC...
Hér eru myndir úr leiknum af vefsíðu Sky sport...
Rauður dagur í Liverpool!!!!
-
| Sf. Gutt
Hlýrra uppi í stúku! -
| Sf. Gutt
Dregið í Deildarbikarnum -
| Sf. Gutt
Áfram í Deildarbikarnum -
| Mummi
Miðasala á Liverpool – Ipswich og Liverpool – West Ham -
| Mummi
Seinkun á jólagjöf -
| Sf. Gutt
Af samningamálum Trent Alexander-Arnold -
| Sf. Gutt
Jafntefli manni færri! -
| Sf. Gutt
Enn nær Mohamed Salah merkum áfanga! -
| Sf. Gutt
Sögulegur sigur! -
| Sf. Gutt
Sigur á Spáni