Jafnt í fyrsta kafla þríleiksins
Liverpool og Arsenal skildu jöfn í fyrsta kafla þríleiks liðanna. Hvort lið skoraði eitt mark og því stendur Liverpool vel að vígi eftir fyrri leik liðanna í átta liða úrslitum Meistaradeildarinnar. Það er þó mikið eftir enn í þessari miklu Englandsorrustu.
Upphafskafli leiksins var mjög rólegur. Jose Reina lenti reyndar í kröggum fyrir utan eigin vítateig úti við hliðarlínu. En hann náði að bjarga málum með því að koma í veg fyrir að Emmanuel Adebayor næði að koma boltanum í átt að markinu. Robin Van Persie skaut svo yfir úr góðu færi eftir langa sendingu inn á teig frá Mathieu Flamini. Á 23. mínútu fékk Robin boltann rétt utan vítateigs eftir góða sókn. Hann náði föstu skoti að marki en Jose Reina henti sér niður og varði í horn. Hornspyrnan var frá hægri. Hún var tekin stutt á Robin sem sendi fyrir. Fyrir miðju marki stökk Emmanuel Adebayor allra hæst og skallaði boltann auðveldlega í markið. Heimamenn voru komnir yfir og því var fagnað innilega á Emirates leikvanginum. Leikmenn Liverpool voru þó snöggir að þagga niður fögnuð Lundúnabúa. Steven Gerrard stöðvaði sókn Arsenal í fæðingu við vinstra vítateigshornið. Hann skiptist á sendingum við Fernando Torres og þegar hann fékk boltann aftur braust hann inn á vítateiginn framhjá tveimur leikmönnum Arsenal og sendi fyrir markið. Dirk Kuyt var grimmur í markteignum og náði að koma boltanum í markið. Frábært svar hjá Liverpool og leikmenn Arsenal voru slegnir út af laginu það sem eftir var hálfleiksins. Liverpool hafði betur til hálfleiks án þess að nokkur færi sköpuðust.
Dirk var aftur ágengur strax í upphafi síðari hálfleiks. Aukaspyrna var send fyrir markið. Martin Skrtel skallaði boltann fyrir fætur Hollendingsins en Manuel Almunia varði vel. Eftir þessa góðu byrjun tóku Skytturnar völdin og héldu þeim til leiksloka. Theo Walcott kom inn sem varamaður í leikhléi og hann átti bylmingsskot utan teigs sem fór rétt framhjá. Sókn Arsenal þyngdist en vörn Liverpool stóð vaktina vel í vörninni. Á 65. mínútu gerði Arsenal harða atlögu. Martin hreinsaði á síðustu stundu uppi við markið og í framhaldinu braust Alexander Hleb í gegn um vörn Liverpool og inn á teig. Dirk elti hann og togaði í hann. Alexander féll og heimamenn heimtuðu vítaspyrnu. Dómarinn dæmdi ekki neitt og þó hafði hann eins góða sýn á atvikið eins og mögulegt var. Hann hefði átt að dæma víti en Liverpool slapp með skrekkinn. Litlu síðar kom Daninn Nicklas Bendtner inn sem varamaður. Hann var ekki búinn að vera lengi inni á þegar hann bjargaði hugsanlega marki. Cesc Fabregas kom þá skoti að marki Liverpool. Boltinn stefndi í markið en Nicklas þvældist fyrir boltanum. Hann virtist ætlaði að stýra boltanum í markið en í stað þess bjargaði hann málunum fyrir Liverpool. Sami Hyypia var svo sem til taks á marklínunni en reyndar var Daninn dæmdur rangstæður en það virtist ekki vera réttur dómur. Undir lokin skallaði Cesc að marki en boltinn fór beint á Jose. Jamie Carragher bjargaði svo á síðustu stundu þegar fyrirgjöf kom frá hægri. Liðin skildu því jöfn og geta leikmenn Liverpool vel við unað. Þeir héldu jöfnu og náðu útimarki. Það má þó öllum ljóst vera að það er mikið eftir enn í þessum mikla þríleik.
Arsenal: Almunia, Toure, Gallas, Senderos, Clichy, Eboue (Bendtner 67. mín.), Flamini, Fabregas, Hleb, Van Persie (Walcott 46. mín.) og Adebayor. Ónotaðir varamenn: Lehmann, Diaby, Song, Silva og Justin Hoyte.
Mark Arsenal: Emmanuel Adebayor (23. mín.).
Liverpool: Reina, Carragher, Skrtel, Hyypia, Aurelio, Mascherano, Alonso (Leiva 76. mín.), Kuyt, Gerrard, Babel (Benayoun 57. mín.) og Torres (Voronin 85. mín.). Ónotaðir varamenn: Itandje, Riise, Crouch og Arbeloa.
Mark Liverpool: Dirk Kuyt (26. mín.).
Áhorfendur á Emirates leikvanginum: 60.041.
Maður leiksins: Dirk Kuyt. Hollendingurinn var alveg frábær í þessum leik. Hann skoraði markið sem færði Liverpool jafntefli. En það var nú bara hluti af því sem hann lagði til í þessum leik. Hann var á ferðinni allan leikinn frá upphafi til enda. Bæði studdi hann við sóknarleikinn og ekki var hann síðri við að hjálpa til í vörninni.
Álit Rafael Benítez: Leikmenn liðsins lögðu mjög hart að sér gegn mjög góðu liði. Við vissum fyrir leikinn að þeir myndu hafa boltann mikið og þess vegna reyndum við að skipuleggja liðið vel og beita svo skyndisóknum. Þetta var ráðagerð okkar og hún var góð. Það er lykilatriði að skora útimark í Evrópuleikjum. Arsenal er lið sem getur vel skorað útimark en við höfum að minnsta útimark í nesti fyrir seinni leikinn.
Hér eru myndir úr leiknum af Liverpoolfc.tv...
Hér eru myndir úr leiknum af vefsíðu BBC...
Hér eru myndir úr leiknum af vefsíðu Sky sports...
-
| Heimir Eyvindarson
Ofurhetja í uppbótartíma -
| Heimir Eyvindarson
Nunez tryggði mikilvægan sigur á Brentford -
| Heimir Eyvindarson
Brentford-Liverpool -
| Sf. Gutt
Áfram með smjörið! -
| Sf. Gutt
Jafnglími! -
| Heimir Eyvindarson
Af hverju er okkur illa við Nottingham Forest? -
| Sf. Gutt
Fyrsta tapið! -
| Sf. Gutt
Darwin í banni -
| Sf. Gutt
Dregið í FA bikarnum -
| Sf. Gutt
Auðvelt áframhald!