Aftur jafnt á Emirates!
Öðrum þætti þríleiks Liverpool og Arsenal lauk eins og þeim fyrsta með jafntefli. Líkt og í fyrsta þætti fóru leikmenn Liverpool sáttari af leikvelli en mótherjar þeirra. Það sama var uppi á teningnum á miðvikudagskvöldið og lauk leiknum með 1:1 jafntefli. Liverpool náði aðeins að fjarlægjast Everton með þessum úrslitum en meistaravonir Arsenal eru nú að verða að engu.
Bæði Rafael Benítez og Arsene Wenger gerðu nokkrar breytingar á liðum sínum. Rafael gerði þó fleiri því alls gerði hann átta breytingar á byrjunarliði sínu. Þekktir leikmenn leystu þekkta leikmenn af hólmi í öllum tilfellum nema einu. Öllum að óvörum fékk Frakkinn ungi Damien Plessis sæti í byrjunarliðinu. Hann lék aftarlega á miðjunni og skilaði hlutverki sínu með sóma. Liverpool byrjaði leikinn vel og strax í upphafi leiks tók Peter Crouch, sem spilaði mjög vel, við boltanum og þrumaði af marki af hátt í þrjátíu metra færi. Manuel Almunia varð að hafa sig allan við að verja. Hann náði að slá boltann yfir. Á 18. mínútu komst John Arne Riise í góða skotstöðu við vítateiginn eftir góðan undirbúning hjá Peter en Norðmaðurinn skaut hátt yfir. Aðalástæðan fyrir geimskotinu var að John Arne notaði hægri fótinn. Eftir um hálftíma fékk Yossi gott færi en hann skaut framhjá. Heimamenn voru mjög daufir framan af og það var ekki fyrr en á 34. mínútu sem Cesc Fabregas átti loksins markskot. Skotið var þó hættulaust og fór framhjá. Strax í næstu sókn komst Nicklas Bendtner inn á vítateig en Dananum voru mislagðar fætur og laflaust skot hans, úr góðu færi, fór beint á Jose Reina. Heimamenn voru nú loks vaknaðir og Emmanuel Eboue komst litlu síðar upp hægra megin og sendi fyrir. Steve Finnan bjargaði þó málum og koma boltanum frá á markteignum. Þessi góða rispa Arsenal kom þó fyrir lítið því það var Liverpool sem náði forystu á 42. mínútu. Jose tók langt útspark. Peter Crouch stökk upp í skallaeinvígi Boltinn datt fyrir fætur Yossi sem kom honum á Peter sem var rétt utan vítateigsins. Risinn hikaði hvergi, lék á einn varnarmann og skoraði með nákvæmu skoti neðst í vinstra hornið. Hann fagnaði vel og innilega enda lítið komið við sögu síðustu vikurnar. Stuðningsmenn Liverpool voru því kátir þegar flautað var til leikhlés.
Arsenal hóf síðari hálfleikinn af krafti enda vissu menn þar á bæ að ef liðið ætti að eiga einhverja möguleika á enska meistaratitlinum varð það að vinna. Kolo Toure átti skalla rétt framhjá eftir hornspyrnu snemma í hálfleiknum. Skytturnar skoruðu svo á 54. mínútu. Jermaine Pennant braut þá klaufalega af sér út við hliðarlínu vinstra megin. Hann hefði aldrei átt að brjóta á leikmanninum sem reyndar var að sleppa frá honum því Steve Finnan var kominn til varnar. Aukaspyrna var dæmd og Jermaine var bókaður. Cesc Fabregas sendi fyrir markið úr aukaspyrnunni og í miðjum teignum kom Nicklas Bendtner og skallaði í mark óverjandi fyrir Jose Reina. Dananum var greinilega létt eftir að hafa bjargað marki fyrir Liverpool á miðvikudagskvöldið og eins misnotaði hann gott færi í fyrri hálfleik. Nú ætluðu Skytturnar að láta kné fylgja kviði og Emmanuel Adebayor markakóngur liðsins var kvaddur á vettvang. Arsenal reyndi að sækja en vörn Liverpool var föst fyrir. Jamie Carragher lék frábærlega og braut margar sóknir á bak aftur. Þegar tuttugu mínútu voru eftir náði Mathieu Flamini góðu skoti en Jose varði vel. Rafael sendi varamenn sína hvern af öðrum til leiks og einn þeirra hefði átt að færa Liverpool sigur undir lokin. Andriy Voronin fékk tvö góð færi. Fyrst skaut hann hátt yfir úr teignum og svo slapp hann inn á teig þar sem hann lék framhjá Manuel í markinu. En Úkraínumaðurinn hitti svo ekki boltann þegar hann var komið framhjá markverðinum upp við endamörkin. Undir lokin sótti Arsenal mikið án þess að skapa sér færi. Heimamenn vildu fá víti þegar Lucas greip í Cesc en ekkert var dæmt. Alexander Hleb, sem kom inn sem varamaður, komst svo í færi en hann náði sem betur fer ekki valdi á boltanum. Enn var því jafnt og leikmenn Liverpool voru sáttari við þau lok. Nú er að sjá hvað gerist í þriðja þætti þríleiksins. Leiksviðið fyrir hann heitir Anfield Road!
Arsenal: Almunia, Justin Hoyte (Adebayor 57. mín.), Gallas, Toure, Traore (Clichy 72. mín.), Eboue, Fabregas, Silva, Flamini (Hleb 81. mín.), Bendtner og Walcott. Ónotaðir varamenn: Lehmann og Song.
Mark Arsenal: Nicklas Bendtner (54. mín.).
Gult spjald: Emmanuel Eboue.
Liverpool: Reina, Finnan, Carragher, Skrtel, Arbeloa, Plessis, Pennant (Gerrard 66. mín.), Benayoun (Voronin 75. mín.), Leiva, Riise og Crouch (Torres 80. mín.). Ónotaðir varamenn: Itandje og Hyypia.
Mark Liverpool: Peter Crouch (42. mín.).
Gul spjöld: John Arne Riise og Jermaine Pennant.
Áhorfendur á Emirates leikvanginum: 60.111.
Maður leiksins: Peter Crouch. Risinn fékk nú loksins tækifæri í aðalliðinu eftir langt hlé. Risinn færði sér tækifærið vel í nyt. Hann lék mjög vel í sókninni og fyrir utan að skora þá lék hann mjög vel og var ógnandi allan þann tíma sem hann var inn á.
Álit Rafael Benítez: Maður sá að nokkrir leikmenn voru orðnir þreyttir en flestir þeirra spiluðu af miklum krafti. Þetta var opinn leikur undir lokin.Við vissum að við þyrftum að leggja hart að okkur og við gerðum það lengst af. Við spiluðum skipulega og skoruðum gott mark. Við hefðum getað tapað því þeir fengu færi en við áttum líka tvö eða þrjú færi þannig að við hefðum líka getað landað sigri.
Hér eru myndir af Liverpoolfc.tv...
-
| Sf. Gutt
Gleðileg jól! -
| Sf. Gutt
Úr leik! -
| Sf. Gutt
Hlýrra uppi í stúku! -
| Sf. Gutt
Dregið í Deildarbikarnum -
| Sf. Gutt
Áfram í Deildarbikarnum -
| Mummi
Miðasala á Liverpool – Ipswich og Liverpool – West Ham -
| Mummi
Seinkun á jólagjöf -
| Sf. Gutt
Af samningamálum Trent Alexander-Arnold -
| Sf. Gutt
Jafntefli manni færri! -
| Sf. Gutt
Enn nær Mohamed Salah merkum áfanga!