| Grétar Magnússon

Hef ekkert að sanna

Stephen Warnock segist ekkert þurfa að sanna en hann undirbýr sig nú fyrir sinn fyrsta leik gegn Liverpool á Anfield síðan hann gekk til liðs við Blackburn árið 2007.  Warnock spilaði alls 67 leiki fyrir Liverpool.

Hann segir að það verði örugglega skrýtið að hlaupa út á völlinn sem leikmaður andstæðinganna en hann er ánægður að hafa gengið til liðs við Blackburn.

,,Þetta er í fyrsta sinn sem ég kem aftur á Anfield eftir að ég var seldur þannig að þetta verður örugglega svolítið skrýtið," sagði Warnock.  ,,En ég hef verið hjá Blackburn í rúmt ár og ég hef ekki litið til baka.  Ég hef notið þess að vera hér."

,,Ég óska þess ekki að ég væri ennþá hjá Liverpool.  Ég er að spila reglulega hjá Blackburn og það er eitthvað sem ég náði aldrei að gera á Anfield."

Warnock býst við góðum móttökum frá stuðningsmönnum Liverpool en hann mun þó einblína á það að hjálpa sínu liði að ná góðum úrslitum.

,,Kop stúkan býður gamla leikmenn ávallt velkomna og um það snýst þetta ekki frá mínum bæjardyrum séð því ég vil bara spila vel fyrir stjórann minn hjá Blackburn.  Ef ég þarf að sanna eitthvað fyrir einhverjum þá er það fyrir Mark Hughes, til að sýna honum að það var rétt ákvörðun hjá honum að kaupa mig.  Ég reyni að gera þetta í hverjum leik og það verður ekkert öðruvísi á sunnudaginn."

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan