Staðan styrkt með góðum sigri!
Liverpool styrkti stöðu sína í fjórða sæti deildarinnar með góðum sigri á Blackburn Rovers á Anfield Road. Liverpool vann 3:1 og sigurinn var aldrei í hættu eftir að fyrsta markið leit dagsins ljós. Fernando Torres skoraði 30. mark sitt á leiktíðinni.
Fyrir leikinn var einnar mínútu þögn til minningar um 96 stuðningsmenn Liverpool sem létust í harmleiknum á HIllsborough þann 15. apríl 1989. Venjan er að heiðra minningu þeirra á Anfield Road í þeim leik sem næstur er 15. apríl. Það vakti nokkra athygli að Peter Crouch var hvorki í byrjunarliðinu eða á bekknum en ástæðan fyrir því var sú að hann var meiddur.
Strax í upphafi leiks gerðist umdeilt atvik og ekki það síðasta. Jason Robers skoraði þá af stuttu færi en var dæmdur rangstæður. Gestirnir mótmæltu og höfðu nokkuð til síns máls. Þetta var þó aðeins fyrsta umdeilda atvikið í leiknum. á 9. mínútu skallaði Fernando Torres rétt framhjá eftir hornspyrnu. Ekki löngu síðar tók Steven Gerrard mikla rispu inn á vítateiginn. Brad Friedel renndi sér að honum. Steven féll en dómarinn dæmdi ekkert. Brad snerti þó Steven. Um miðjan hálfleikinn vildi Steven aftur fá eitthvað fyrir sinn snúð. Hann slapp þá inn fyrir vörn Blackburn. Einn varnarmaður stjakaði við honum þannig að Steven datt. Sem fyrr dæmdi dómarinn ekkert. Liverpool hefði átt að fá aukaspyrnu og hugsanlega hefði átt að reka varnarmanninn út af. Litlu síðar náði Liverpool góðri sókn. Dirk Kuyt lagði boltann út á Steven en hann hitti boltann ekki almennilega í góðu færi. Á 35. mínútu ógnuðu gestirnir loksins. Paragvæinn snjalli Roque Santa Cruz átti þá fast skot úr teignum en Jose varði. Fimm mínútum seinna sendi Steven fyrir markið. Dirk náði að skalla en boltinn fór framhjá. Ekkert mark hafi verið skorað þegar flautað var til leikhlés.
Það gerðist lengi vel ekkert markvert í síðari hálfleik. Liverpool herti tökin jafnt og þétt en gekk lítið að skapa góð færi. Á 59. mínútu kom Yossi Benayoun inn sem varamaður fyrir Ryan Babel sem ekki hafi náð sér á strik. Yossi átti eftir að koma mikið við sögu. Mínútu síðar braut Liverpool ísinn og Ísraelinn átti stóran þátt í markinu. Liverpool sótti en gestirnir virtust hafa brotið sóknina á bak aftur. Yossi komst þó inn í sendingu rétt utan við vítateiginn. Í kjölfarið fékk Steven Gerrard boltann. Hann spilaði laglegan þríhyrning við Lucas Leiva og komst upp að vítateignum. Þar lék hann meistaralega á einn varnarmann og var skyndilega kominn einn í gegn á móti Brad Friedel. Skot fyrirliðans var hnitmiðað og ísinn var brotinn! Stórglæsilegt mark hjá fyrirliðanum og vel við hafi að hann skyldi skora en þetta var 300. deildarleikur hans. Nú var það eiginlega bara spurning um hversu stór sigur Liverpool yrði. Á 72. mínútu fékk Martin Skrtel gult spjald. Leikmenn Blackburn vildu annan lit á spjladið þar sem Martin hafði brotið á leikmanni sem var við að sleppa í gegn. Þetta var áþekkt atvikinu með Steven í fyrri hálfleik nema hvað þetta var lengra úti á vellinum. Þremur mínútum seinna átti Xabi Alonso skot rétt yfir eftir gott spil. David Bentley, sem hefur verið orðaður við Liverpool að undanförnu, átti litlu síðar skot beint úr aukaspyrnu. Skot hans var fast en boltinn fór rétt framhjá. Á 80. mínútu vildi Fernando Torres fá vítaspyrnu þegar varnarmaður virtist fella hann. Dómarinn dæmdi ekkert frekar en fyrr í hálfleiknum þegar Steven Gerrard vildi fá vítaspyrnu eftir svipað atvik. Tveimur mínútum síðar slapp Blackburn ekki lengur. Lucas komst inn í misheppnaða sendingu og gaf boltann út til hægri á Steven. Hann sendi strax fyrir markið. Sendinginn var hárnákvæm og Fernando Torres átti ekki í erfiðleikum með að skalla boltann í markið framhjá Brad sem átti ekki möguleika á að verja. "Strákurinn" fagnaði marki í 30. sinn á leiktíðinni! Andriy Voronin og John Arne Riise komu inn sem varamann á lokamínútunum. Á lokamínútunni gulltryggði Liverpool sigurinn og komu allir þrír varamenn Liverpool við sögu. Yossi hugðist senda boltann inn á teiginn til Andriy. Varnarmaður komst inn í sendinguna en það var skammgóður vermir. Boltinn hrökk til hægri og þar var John Arne kominn. Hann sendi inn á markteiginn þar sem Andriy kom boltanum í markið af stuttu færi. Andriy var aðeins búinn að vera fimm mínútur inni á vellinum og þetta var fimmta mark hans á leiktíðinni. Gestirnir náðu að rétta sinn hlut áður en yfir lauk. Blackburn fékk hornspyrnu. Vörn Liverpool náði ekki að koma boltanum frá og Roque Santa Cruz þrumaði boltanum í markið úr teignum. Fallegt mark en það voru stuðningsmenn Liverpool sem fögnuðu mikilvægum sigri nokkrum andartökum seinna! Meistaradeildarsætið er nú innan seilingar en verkinu er þó ekki lokið.
Liverpool: Reina, Arbeloa, Carragher, Skrtel, Aurelio, Leiva, Alonso (Riise 88. mín.), Kuyt, Gerrard, Babel (Benayoun 59. mín.) og Torres (Voronin 85. mín.). Ónotaðir varamenn: Itandje og Hyypia.
Mörk Liverpool: Steven Gerrard (60. mín.), Fernando Torres (82. mín.) og Andriy Voronin (90. mín.).
Gult spjald: Martin Skrtel.
Blackburn Rovers: Friedel, Emerton, Samba, Nelsen, Warnock, Bentley, Vogel (Dunn 73. mín.), Reid, Pedersen (McCarthy 73. mín.), Cruz og Roberts. Ónotaðir varamenn: Brown, Ooijer og Mokoena.
Mark Blackburn: Roque Santa Cruz (90. mín.).
Áhorfendur á Anfield Road: 43.283.
Maður leiksins: Steven Gerrard. Fyrirliðinn átt frábæran leik og fór fyrir sínum mönnum frá upphafi leiks til enda. Hann braut ísinn með glæsilegu marki og lagði svo upp annað mark leiksins. Þetta var 300. deildarleikur Steven Gerrard og hann lét sannarlega að sér kveða í honum.
Álit Rafael Benítez: Við verðum að vera ánægðir því við vissum að þetta yrði erfiður leikur gegn góðu liði. Við lékum vel í síðari hálfleik og skoruðum góð mörk. Yossi Benayoun kom mjög sterkur til leiks. Við erum ánægðir með að ná sigri eftir erfiðan leik gegn Arsenal. Við fengum mikið hrós eftir þann leik og það er erfitt að undirbúa menn eftir svoleiðis leik. Nú þurfum við að heimsækja Fulham og reyna að vinna sigur þar. Ef það tekst erum við komnir mjög nærri því að ná fjórða sætinu.
Hér eru myndir úr leiknum af Liverpoolfc.tv...
-
| Sf. Gutt
Hlýrra uppi í stúku! -
| Sf. Gutt
Dregið í Deildarbikarnum -
| Sf. Gutt
Áfram í Deildarbikarnum -
| Mummi
Miðasala á Liverpool – Ipswich og Liverpool – West Ham -
| Mummi
Seinkun á jólagjöf -
| Sf. Gutt
Af samningamálum Trent Alexander-Arnold -
| Sf. Gutt
Jafntefli manni færri! -
| Sf. Gutt
Enn nær Mohamed Salah merkum áfanga! -
| Sf. Gutt
Sögulegur sigur! -
| Sf. Gutt
Sigur á Spáni