| Sf. Gutt

Alan Hansen spáir í Englandsrimmuna

Fyrri hluti þriðju Englandsorrustu milli Liverpool og Chelsea er beðið með mikilli eftirvæntingu um allt England. Alan Hansen, fyrrum leikmaður Liverpool, er búinn að velta rimmunni fyrir sér.

"Chelsea mun vonast eftir að allt verði þegar þrennt er eftir að hafa áður tapað tveimur undanúrslitarimmum. Fyrirfram er eitt og annað með öðrum hætti en í fyrri rimmunum. Nú er síðari leikur liðanna á Stamford Bridge en áður hafa þeir báðir verið á Anfield og þar hefur Liverpool fengið hvatningu til sigurs af ótrúlegu andrúmslofti. Mín kenning er að þetta hafi ekki endilega áhrif á útiliðið heldur ætti heimaliðið að fá hvatningu. Ég trúi því eiginlega ekki að andrúmloftið á Anfield hafi skotið mönnum eins og John Terry og Frank Lampard skelk í bringu. Ég lék í svipuðum leikjum með Liverpool á útivöllum þar sem áhorfendur sköpuðu ógnvekjandi stemmningu en það hafði aldrei áhrif á mig. Hvatning áhorfenda á heimavelli í mikilvægum Evrópuleikjum hefur miklu frekar áhrif á leikmenn heimaliðsins. Það hefur glögglega mátt sjá hvernig leikmenn Liverpool hafa eflst við kraftmikinn stuðning áhorfenda á heimavelli og leikmenn Chelsea munu vonast til að svona stuðningur skipti sköpum í seinni leiknum á heimavelli þeirra.

Það er búið að gagnrýna Avram Grant mikið á leiktíðinni en hann á samt möguleika á að leiða liðið sitt til sigurs í Úrvalsdeildinni og koma því í úrslit Meistaradeildarinnar. Hann vonast til þess að afreka nokkuð sem Jose Mourinho, hinum fræga forvera sínum, tókst ekki og það er að leiða Chelsea áfram gegn Liverpool og í úrslit.

Hvað leikina sjálfa varðar þá á ég von á svipuðum leikjum og í fyrri tvö skiptin. Bæði lið spila gjarnan af varkárni og ég á ekki von á nema tveimur eða þremur mörkum í leikjunum tveimur. Það er mjög erfitt að spá til um hvort liðið fer áfram og það má alveg eins kasta peningi upp um úrslitin. En ef ég verð að spá öðru hvoru liðinu áfram þá myndi ég velja Liverpool en það verður mjótt á munum."

Þetta er brot úr grein sem birtist á vefsíðu BBC. 


 

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan