Reina vill ekki hvíla
Pepe Reina hefur biðlað til Rafa Benítez um að hvíla sig ekki gegn Birmingham. Reina hefur spilað hverja einustu mínútu það sem af er tímabilinu í Úrvalsdeildinni og hann vill ólmur ekki missa neitt úr nú þegar lítið er eftir.
Reina segist vita að Benítez muni hvíla einhverja leikmenn gegn Birmingham, þar sem stutt er í síðari leikinn gegn Chelsea í undanúrslitum Meistaradeildarinnar. Hann segist hinsvegar ekki þurfa á neinni hvíld að halda og stefnir á að verða fyrsti leikmaður félagsins til að spila allar mínúturnar í Úrvalsdeildinni síðan Jamie Carragher afrekaði það tímabilið 2004-2005.
,,Ég vil spila í hverjum einasta leik og hverja einustu mínútu af hverjum leik, það er það eina sem skiptir máli," segir Reina. ,,Þegar maður spilar fyrir stórt félag eins og Liverpool þá veit maður að það verður ekki alltaf auðvelt að spila alla leiki en ég hef getað spilað alla leiki okkar í Úrvalsdeildinni og ég vil halda því áfram."
,,Sem leikmaður vill maður alltaf spila. Ég veit að stjórinn mun örugglega gera breytingar gegn Birmingham líkt og hann gerði gegn Fulham í síðustu viku en ég vona að ég verði ekki hluti af þeim breytingum. Ég get hvílt mig í sumar. Núna vil ég bara spila."
Sigur gegn Birmingham þýðir að fjórða sæti deildarinnar er gulltryggt og segir Reina að sama hvaða lið Benítez sendir út á völlinn, það lið verði alltaf nógu gott til að leggja Birmingham að velli.
,,Birmingham eru í fallbaráttu þannig að þetta verður mikilvægur leikur fyrir þá," segir Reina. ,,En þetta er einnig lykilleikur fyrir okkur vegna þess að nú er tækifærið fyrir okkur til að gulltryggja fjórða sætið í deildinni. Okkar lið verður breytt vegna þess að við erum að spila við Chelsea fljótlega aftur en við vitum að leikmennirnir sem spila leikinn eru nógu góðir. Þeir leikmenn sem spila leikinn eru réttu mennirnir fyrir liðið."
Aðeins fjórum dögum eftir leikinn við Birmingham er komið að mikilvægasta leik tímabilsins til þessa. Reina er vonsvikinn yfir því að hafa fengið á sig mark svo seint í þeim leik en hann er bjartsýnn á að liðið geti enn komist til Moskvu í maí.
,,Það var mjög svekkjandi að fá á sig markið á þann hátt sem það gerðist vegna þess að við áttum þetta ekki skilið," segir Reina. ,,Við spiluðum mjög vel þetta kvöld og leikurinn var þægilegur fyrir okkur. Við vorum betra liðið en það sem skiptir máli í lokin eru úrslitin og nú þegar bæði lið hafa skorað eitt mark eru Chelsea sigurstranglegra liðið. En það eru enn 90 mínútur eftir og við höldum svo sannarlega ekki að þetta sé búið."
Fyrir suma gæti leikurinn á morgun verið truflun fyrir komandi átök við Chelsea en ekki hjá Reina. Hann sér leikinn við Birmingham vera góða leið til að ná sér eftir vonbrigðin á þriðjudaginn og hann vill að liðsfélagar sínir nái aftur einbeitingu sinni og læri af reynslunni.
,,Maður vill ekki hugsa of mikið um það sem gerðist vegna þess að stundin er liðin og ekkert sem maður getur gert í því núna," segir hann. ,,Það er hægt að læra af þessu og reyna að koma í veg fyrir að þetta gerist ekki aftur vegna þess að það er það sem þarf að gera þegar maður lendir í mótlæti. Það besta sem hægt er að gera er að spila fleiri leiki og koma þessu út úr huganum."
,,Þess vegna er gott að við spilum núna við Birmingham í deildinni og við getum notað þennan leik til að gleyma því sem gerðist á þriðjudaginn."
-
| Sf. Gutt
Hlýrra uppi í stúku! -
| Sf. Gutt
Dregið í Deildarbikarnum -
| Sf. Gutt
Áfram í Deildarbikarnum -
| Mummi
Miðasala á Liverpool – Ipswich og Liverpool – West Ham -
| Mummi
Seinkun á jólagjöf -
| Sf. Gutt
Af samningamálum Trent Alexander-Arnold -
| Sf. Gutt
Jafntefli manni færri! -
| Sf. Gutt
Enn nær Mohamed Salah merkum áfanga! -
| Sf. Gutt
Sögulegur sigur! -
| Sf. Gutt
Sigur á Spáni