Mikilvægt stig náðist
Liverpool náði mikilvægu stigi í Birmingham í dag. Liðið lenti tveimur mörkum undir en vann upp forskotið af harðfylgi. Stigið færði Liverpool svo gott sem fjórða sætið í deildinni.
Eins og við var búist þá breytti Rafael Benítez liði sínu töluvert frá rimmunni gegn Chelsea. Það kom svo sem fátt á óvart þótt liðinu væri breytt nema þá það að John Arne Riise var í byrjunarliðinu. Líklega hafa margir haldið að hann myndi ekki byrja eftir martröðina gegn Chelsea en Rafael og ráðgjafar hans hafa líklega talið það betra fyrir að hann að byrja strax að leika á nýjan leik. Líkt og um síðustu helgi þá var Liverpool að leika á útivelli gegn liði sem er að berjast fyrir lífi sínu í deildinni. Það var því eðlilegt að heimamenn byrjuðu af krafti. Leikurinn var tíðindalítill framan af og fá færi sköpuðust. Það voru heimamenn sem skoruðu fyrsta markið. James McFadden lék upp hægri kantinn og gaf fyrir. Boltinn fór yfir á fjærstöng og þar fékk Mikael Forssell boltann, einn og óvaldaður, í dauðafæri. Finninn átti auðvelt með að skora en hann gat varla annað því vörn Liverpool var víðs fjarri. Sérstaklega var Steve Finnan illa á verði. Liverpool færðist í aukana undir lok hálfleiksins og á 40. mínútu átti Peter Crouch gott langskot sem Maik Taylor varði vel. Ekki var meira skorað í hálfleiknum.
Leikmenn Liverpool hertu sig enn í upphafi síðari hálfleiks en það voru þó heimamenn sem bættu við marki á 55. mínútu. Martin Skrtel felldi þá James McFadden utan vítateigs. Svíinn Sebastian Larsson tók aukaspyrnuna og skoraði með glæsilegu skoti sem Jose Reina átti ekki möguleika á að verja. Svíinn mun vera sparkvissasti aukaspyrnusérfræðingur deildarinnar og þetta skot var enn eitt dæmið um það. Útlitið var nú sannarlega ekki gott fyrir Liverpool en leikmenn liðsins lögðu ekki árar í bát. Á 63. mínútu náði Jermaine Pennant boltanum inni á sínum vallarhelmingi. Hann tók mikinn sprett fram völlinn, spilaði þríhyrning við Yossi Benayoun og lék á tvo, þrjá mótherja. áður en hann renndi boltanum inn á teignn á Andriy Voronin. Andriy kom boltanum við illan leik á Peter Crouch. Risinn sýndi mikla yfirvegun og skoraði með nákvæmu skoti neðst í hornið. Strax á eftir skipti Rafael Argentínumanninum Emiliano Insua inn fyrir John Arne Riise sem hafði átt daufan leik. Þetta var fyrsti leikur Emiliano á leiktíðinni en hann hefur leikið vel með varaliðinu í vetur. Markið færði Liverpool aukinn kraft og Andriy komst litlu seinna inn á teig en skot hans fór rétt framhjá. Á 76. mínútu lá boltinn aftur í marki heimamanna. Lucas Leiva fékk boltann hægra megin og fékk góðan tíma til að gefa fyrir. Í miðjum teig stökk Yossi upp og skallaði að marki. Skallinn hans fór í bakið á Radhi Jaidi og fór þaðan í markið. Heppnin var þarna með Ísraelsmanninum en Liverpool verðskuldaði af jafna. Liverpool var sterkari aðilinn til leiksloka en fleiri mörk litu ekki dagsins ljós í sólinni í Birmingham.
Birmingham City: Maik Taylor, Kelly, Jaidi, Ridgewell (Queudrue 77. mín.), Murphy, Larsson, Muamba, Nafti, Kapo (McSheffrey 77. mín.), Forssell (Zarate 87. mín.) og McFadden. Ónotaðir varamenn: Doyle og Jerome.
Mörk Birmingham City: Mikael Forssell (34. mín.) og Sebastian Larsson (55. mín.).
Gul spjöld: David Murphy og Mehdi Nafti.
Liverpool: Reina, Finnan, Hyypia, Skrtel, Riise (Insua 64. mín.), Pennant, Plessis, Lucas, Benayoun, Crouch og Voronin. Ónotaðir varamenn: Itandje, Gerrard, Kuyt og Carragher.
Mörk Liverpool: Peter Crouch (63. mín.) og Yossi Benayoun (76. mín.).
Gult spjald: Andriy Voronin.
Áhorfendur á St. Andrews: 29.252.
Maður leiksins: Jermaine Pennant var mjög líflegur á kantinum og kunni grenilega vel við sig á gamla heimavellinum sínum. Rispan sem hann tók í aðdraganda marksins sem Peter skoraði var alveg frábær. Hann átti margar góðar rispur á kantinum.
Álit Rafael Benítez: Hugmyndin var að sigra og tryggja fjórða sætið. Við náðum ekki að sigra en jafntefli var annar möguleiki og það setur okkur í mjög sterka stöðu. Núna getum við hugsað um næsta leik gegn Chelsea og vonandi getum við komist áfram og verið tilbúnir í úrslitaleikinn ef að því kemur. Ég er mjög sáttur með seinni hálfleikinn því liðið spilaði mun betur þá. Það var mjög jákvætt að skapa fullt af færum og skora tvö mörk.
Hér eru myndir úr leiknum af Liverpoolfc.tv...
-
| Heimir Eyvindarson
Ofurhetja í uppbótartíma -
| Heimir Eyvindarson
Nunez tryggði mikilvægan sigur á Brentford -
| Heimir Eyvindarson
Brentford-Liverpool -
| Sf. Gutt
Áfram með smjörið! -
| Sf. Gutt
Jafnglími! -
| Heimir Eyvindarson
Af hverju er okkur illa við Nottingham Forest? -
| Sf. Gutt
Fyrsta tapið! -
| Sf. Gutt
Darwin í banni -
| Sf. Gutt
Dregið í FA bikarnum -
| Sf. Gutt
Auðvelt áframhald!