Evrópuvegferðinni lauk á Brúnni
Liverpool mátti þola naumt tap á Brúnni í ótrúlegum leik í kvöld. Chelsea vann 3:2 eftir framlengingu. Leikmenn Liverpool börðust hetjulega en það dugði ekki og lánið lék við Chelsea í þriðju undanúrslitarimmu liðanna. Chelsea fer því til Moskvu en Evrópuvegferð Liverpool er lokið að þessu sinni.
Það fór ekkert á milli mála hvernig leikurinn var lagður upp í herbúðum Chelsea. Það átti að beita öllum ráðum til að gera út um leikinn með því að komast yfir. Didier Drogba gaf tóninn á 5. mínútu en Jose Reina varði fast skot hans utan teigs í horn. Liverpool svaraði fimm mínútum seinna þegar Steven Gerrard stakk boltanum inn á vítateig. Fernando Torres fékk boltann vinstra megin í teignum en Petr Cech varði skot hans hans með góðu úthlaupi. Þetta reyndist eina færi Liverpool í fyrri hálfleik því nú náðu heimamenn undirtökunum. Á 13. mínútu mátti engu muna að Didier kæmist í gegn en Jose var vel á verði og bægði hættunni frá. Á 19. mínútu komst Didier inn á teiginn en skot hans fór rétt framhjá. Litlu síðar þrumaði Michael Essien að marki utan teigs en Jose varði. Litlu síðar varð Martin Skrtel varð að fara af velli og Sami Hyypia leysti hann af hólmi. Enn ógnuðu heimamenn og Jose gerði vel að slá fast langskot Michael Ballack frá. Það kom því ekki svo mjög á óvart að Chelsea skyldi komast yfir á 33. mínútu. Alvaro Arbeloa svaf á verðinum og Salomon Kalou komst upp vinstra megin. Hann lék á Sami og skaut föstu skoti sem Jose varði. Boltinn hrökk út í teig til vinstri. Didier Drogba var snöggur á staðinn og þrumaði í markið úr þröngu færi. Jose kom engum vörnum við enda skotið fast. Báðir bakverðir Liverpool brugðust því John Arne Riise valdaði ekki Didier. Rétt fyrir leikhlé skaut Michael Ballack rétt framhjá úr aukaspyrnu. Staðan hefði því í raun getað verið verri þegar kom að leikhléi.
Rigningin jókst en leikmenn Liverpool komu ákveðnir til leiks eftir leikhléið og það var allt annað að sjá til liðsins. Strax í upphafi hálfleiksins munaði litlu að Liverpool jafnaði. Sending kom inn á vítateiginn. Steven skallaði boltann fyrir markið. Dirk Kuyt náði skoti rétt við markteiginn en Petr náði að verja naumlega með vinstri fæti. Boltinn hrökk frá og engu máttu muna að Sami næði frákastinu. Eftir þetta má segja að leikmenn Liverpool hafi náð yfirhöndinni og heimamenn virtust vera orðnir þreyttir. Þessi þróun skilaði sér í jöfnunarmarki Liverpool á 64. mínútu. Yossi Benayoun tók frábæra rispu utan af hægri kanti og inn að vítateignum. Fyrir framan miðjan teig laumaði hann boltanum inn á Fernando Torres. Spánverjinn lagði boltann fyrir sig og skoraði með nákvæmu skoti neðst í hægra hornið. Nú var staðan jöfn og allt gat gerst á nýjan leik. Eftir því sem leið að leikslokum hægði á leiknum og við tók ótti við afdrifarík mistök. Það vantaði þó ekkert upp á baráttuna hjá báðum liðum og menn fórnuðu sér út um allan völl í bleytunni. Framlenging var ekki umflúin og sú niðurstaða kom kannski ekki á óvart.
Liverpool byrjaði framlenginguna vel og fékk fyrsta færið en Sami skallaði framhjá úr góðu færi. Þá var komið að heimamönnum. Á 95. mínútu skoraði Michael Essien með þrumuskoti eftir harða sókn. Markið var réttilega dæmt af vegna þess að ekki færri en þrír leikmenn Chelsea voru rangstæðir. Þremur mínútum seinna slapp Liverpool ekki. Michael Ballack fékk boltann inni í teig eftir að Sami Hyypia missti hann frá sér. Hann stefndi frá markinu en Sami tók þá örlagaríku ákvörðun að renna sér fyrir hann. Víti var réttilega dæmt. Það var hins vegar mjög misráðið hjá hinum reynda Finna að renna sér fyrir Þjóðverjann. Frank Lampard tók vítaspyrnuna og honum brást ekki bogalistin frekar en venjulega. Þetta var algert kjaftshögg fyrir Liverpool og annað fylgdi á 105. mínútu. Áður varð Fernando að fara af velli vegna meiðsla. Þriðja mark Chelsea kom eftir að varamaðurinn Nicolas Anelka komst upp hægra megin. John Arne hikaði þar sem hann taldi að Nicolas væri rangstæður. Frakkinn hikaði ekki og sendi fyrir markið. Þar kom Didier og smellti boltanum í markið rétt utan markteigsins. Þetta mark gat ekki komið á verri tíma því rétt á eftir var flautað til hálfleiks.
Síðari hálfleikur framlengingarinnar var lengi tíðindalítill. Liverpool reyndi að komast á blað á nýjan leik en leikmenn Chelsea léku af öryggi. Liverpool hefði átt að fá tækifæri til að komast aftur inn í leikinn á 108. mínútu þegar Sami Hyppia var felldur inni í vítateig. Dómarinn dæmdi ekkert og þar við sat þar til á 117. mínútu. Varamaðurinn Ryan Babel þrumaði þá óvænt að marki af rúmlega 30 metra færi. Skotið virtist koma Petr Cech í opna skjöldu. Hann hafði hendur á boltanum en það dugði ekki til og boltinn lá í markinu. Allt í einu þurfti Liverpool aðeins eitt mark til að komast áfram en það mark kom ekki og heimamenn fögnuðu tilvonandi ferðalagi til Moskvu. Leikmenn Liverpool geta borið höfuðið hátt eftir magnaða Evrópuvegferð en tapið svíður samt sárt!
Það er ekki sanngjarnt að nefna einn mann til ábyrgðar þegar illa. Eftir stendur þó að hið óskiljanlega sjálfsmark John Arne Riise á Anfield Road í fyrri leik liðanna varð banabiti Liverpool! Það er einfaldlega næsta víst og rúmlega það að Chelsea hefði aldrei slegið Liverpool úr leik ef Liverpool hefði unnið 1:0 á Anfied Road!
Chelsea: Cech, Essien, Carvalho, Terry, A. Cole, J. Cole (Anelka 91. mín.), Ballack, Makelele, Lampard (Shevchenko 119. mín.), Kalou (Malouda 70. mín.) og Drogba. Ónotaðir varamenn: Cudicini, Obi, Alex og Belletti.
Mörk Chelsea: Didier Drogba (33. og 105. mín.) og Frank Lampard, víti, (98. mín.).
Liverpool: Reina, Arbeloa, Carragher, Skrtel (Hyypia 22. mín.), Riise, Kuyt, Alonso, Mascherano, Benayoun (Pennant 78. mín.), Gerrard og Torres (Babel 99. mín.). Ónotaðir varamenn: Itandje, Finnan, Crouch og Leiva.
Mörk Liverpool: Fernando Torres (64. mín.) og Ryan Babel (117. mín.).
Gul spjöld: Xabi Alonso og Alvaro Arbeloa.
Áhorfendur á Stamford Bridge: 38.900.
Maður leiksins: Jamie Carragher. Líkt og í fyrri tveimur undanúrslitarimmunum við Chelsea þá lék Jamie eins og herforingi. Hann fórnaði sér í allt sem þurfti og var félögum sínum góð fyrirmynd.
Álit Rafael Benítez: Mér fannst varla í milli sjá. Þeir léku vel og það gerðum við líka og þá sérstaklega í síðari hálfleik. Við vorum miklu sterkari aðilinn í framlengingunni en svo fengum við annað markið á okkur og þriðja markið gerði út um leikinn. Mér fannst við ná tökum á leiknum eftir að við skoruðum og við áttum tvö færi í upphafi framlengingarinnar. En í svona leikjum þá eru það alltaf smáatriði sem ráða úrslitum. Ég er þó stoltur af liðinu mínu en Chelsea lék vel og ég óska þeim góðs gengis.
Hér eru myndir úr leiknum af Liverpoolfc.tv...
Hér eru myndir úr leiknum af vefsíðu BBC...
-
| Sf. Gutt
Hlýrra uppi í stúku! -
| Sf. Gutt
Dregið í Deildarbikarnum -
| Sf. Gutt
Áfram í Deildarbikarnum -
| Mummi
Miðasala á Liverpool – Ipswich og Liverpool – West Ham -
| Mummi
Seinkun á jólagjöf -
| Sf. Gutt
Af samningamálum Trent Alexander-Arnold -
| Sf. Gutt
Jafntefli manni færri! -
| Sf. Gutt
Enn nær Mohamed Salah merkum áfanga! -
| Sf. Gutt
Sögulegur sigur! -
| Sf. Gutt
Sigur á Spáni