Sigur í síðasta heimaleiknum
Það rigndi og þrumur og eldingar gengu yfir þegar Liverpool kvaddi Anfield í síðasta sinn á þessari leiktíð. Stuðningsmenn Rauða hersins fengu sigur í sumargjöf þegar Liverpool lagði Manchester City að velli 1:0. Eftir leik hylltu stuðningsmenn Liverpool hetjurnar sínar eins og hefð kveður á um eftir síðasta heimaleik á leiktíðinni.
Leikmenn Liverpool skörtuðu nýjum búningum í síðasta heimaleiknum. Þeir verða notaðir næstu tvær leiktíðirnar og vonandi fagna leikmenn Liverpool Englandsmeistaratitlinum í honum! Fátt koma á óvart í uppstillingu Liverpool nema þá að Emiliano Insua tók stöðu vinstri bakvarðar. Reyndar kom val hans mörgum ekkert á óvart. Leikurinn fór rólega af stað. Fyrsta færið kom á 20. mínútu. Dirk Kuyt Kuyt sendi þá fyrir markið frá hægri en Ryan Babel skallaði yfir úr góðu færi fyrir miðju marki. Á 32. mínútu sendi Emiliano Insua inn á teiginn á Steven Gerrard. Fyrirliðinn stillti miðið og sendi svo gott bogaskot sem stefndi í hornið fjær. Stuðningsmenn Liverpool voru farnir að fagna þegar Joe Hart náði að slá boltann framhjá á síðustu stundu. Frábær markvarsla hjá þessum efnilega markverði. Liverpool hafði öll tök á leiknum en það ekkert mark hafði þó verið skorað þegar flautað var til hálfleiks.
Liverpool hóf síðari hálfleikinn af krafti og Steven sneri af sér mótherja, inni á sínum vallarhelmingi, áður en hann sendi stórkostlega utanfótarsendingu inn fyrir vörn City. Fernando fékk boltann og lék inn í teig vinstra megin. Skot hans, utarlega úr teignum, fór á hinn bóginn framhjá. Litlu síðar fengu gestirnir sitt fyrsta færi. Blumer Elano tók þá aukaspyrnu rétt utan vítateigs. Skot hans strauk stöngina og fór framhjá. Leikmenn Liverpool juku nú hraðann og það skilaði sér í marki á 58. mínútu. Varnarmaður City hugðist þá senda boltann fram völlinn. Það tókst ekki betur til en svo að Dirk komst inn í og skallaði boltann til baka. Boltinn fór til Fernando Torres og nú var hætta á ferðum! "Strákurinn" tók strikið að marki City. Richard Dunne kom á móti honum en hann var ekki nein hindrun. Fernando lék framhjá honum og stakk sér inn á vítateiginn. Þar renndi hann boltanum undir Joe og í horninu fjær endaði boltinn för sína. Fernando fagnaði 32. marki sínu á leiktíðinni og stuðningsmenn Liverpool glöddust með honum! Frábært mark hjá Fernando sem hefur átt stórkostlega leiktíð svo ekki sé fastar að orði kveðið! Næstu mínútur var skammt stórra högga á milli uppi við mark gestanna. Á 60. mínútu kom sending frá vinstri yfir á fjærstöng. Þar tók Dirk boltann á lofti og þrumaði viðstöðulaust að marki. Boltinn fór beint á Joe sem rétt náði að verja. Boltinn fór út í markteiginn og þar klippti Lucas Leiva boltann aftur fyrir sig en Joe varði aftur. Rétt á eftir sendi Sami Hyypia, sem átti mjög góðan leik, frábæra sendingu fyrir frá hægri kanti. Dirk náði að skalla en heppnin var ekki með honum því boltinn fór í þverslá. Á 67. mínútu braust Fernando, af miklu harðfylgi, upp hægra megin og inn á teiginn. Hann sendi fyrir markið en Ryan skaut yfir úr algeru dauðafæri. Liverpool hefði nú átt að vera komið með sigurinn í vasann en svo var ekki. Næst kom að einni mögnuðustu stund dagsins. Dietmar Hamann kom þá inn sem varamaður og í stuttu máli ætlaði allt um koll að keyra þegar Þjóðverjinn kom inn á. Stuðningsmenn Liverpool stóðu upp og hylltu þennan vinsæla leikmann. Reyndar hófst hyllingin þegar Didi fór að hita upp nokkru áður. Mögnuð stund! Liverpool hafði sem fyrr öll tök á leiknum en allt gat gerst síðustu mínúturnar. Þegar átta mínútur voru eftir átti Benjani þrumuskot beint úr aukaspyrnu. Boltinn fór sem betur fer beint á Jose Reina. Liverpool landaði sanngjörnum og öruggum sigri!
Heiðurshringur leikmanna tók svo við í rigningunni! Stuðningsmenn Liverpool hylltu hetjurnar sínar og leikmenn þökkuðu fyrir stuðninginn á leiktíðinni. Það hellirigndi þegar leikmenn gengu um völlinn og voru sumir með regnhlífar til að verjast úrfellinu. Nokkrir leikmenn voru með börnin sín með sér. Áhorfendur klöppuðu vel og lengi fyrir leikmönnunum.
Liverpool: Reina, Finnan, Hyypia, Carragher, Insua, Mascherano, Leiva (Alonso 74. mín.), Kuyt, Gerrard (Voronin 78. mín.), Babel (Benayoun 68. mín.) og Torres. Ónotaðir varamenn: Itandje og Skrtel.
Mark Liverpool: Fernando Torres (58. mín.).
Manchester City: Hart, Corluka, Dunne, Ball, Jihai, Vassell (Garrido 81. mín.), Ireland, Johnson, Petrov (Castillo 67. mín.), Elano (Hamann 67. mín.) og Mwaruwari. Ónotaðir varamenn: Isaksson og Gelson.
Áhorfendur á Anfield Road: 43.074.
Maður leiksins: Fernando Torres. Þessi magnaði Spánverji tryggði sigurinn með frábæru marki. Þetta var 32. markið sem hann skorar fyrir Liverpool á leiktíðinni. Í dag skoraði hann svo í áttunda deildarleiknum í röð á Anfield Road sem er metbæting á félagsmeti hans sjálfs í efstu deild. Þvílíkur draumaleikmaður!
Álit Rafael Benítez: Maður verður að njóta sigurs með stuðningsmönnunum í síðasta heimaleiknum. Við vorum mjög vonsviknir eftir úrslitin á miðvikudaginn en það mátti litlu muna í þeim leik. Það er ekki hægt að breyta því sem orðið er. Það eina sem hægt er að gera að njóta dagsins og þakka fyrir sig. Stuðningsmennirnir voru alveg ótrúlegir á þessari leiktíð. Þeir studdu vel við bakið á liðinu og ekki síður mér. Það er því rétt og skylt að njóta nokkurra mínútna með þeim.
Hér eru myndir úr leiknum af Liverpoolfc.tv...
Hér eru myndir úr leiknum af vefsíðu BBC...
Takk fyrir okkur!
-
| Sf. Gutt
Hlýrra uppi í stúku! -
| Sf. Gutt
Dregið í Deildarbikarnum -
| Sf. Gutt
Áfram í Deildarbikarnum -
| Mummi
Miðasala á Liverpool – Ipswich og Liverpool – West Ham -
| Mummi
Seinkun á jólagjöf -
| Sf. Gutt
Af samningamálum Trent Alexander-Arnold -
| Sf. Gutt
Jafntefli manni færri! -
| Sf. Gutt
Enn nær Mohamed Salah merkum áfanga! -
| Sf. Gutt
Sögulegur sigur! -
| Sf. Gutt
Sigur á Spáni