| Sf. Gutt

John Arne Riise er farinn til Roma

riiseutd041101.jpg

 

Liverpool og Roma náðu í gær samkomulagi um vistaskipti John Arne Riise. Norðmaðurinn gerði fjögra ára samning við Rómverja og Liverpool fær fjórar milljónir sterlingspunda í sinn hlut ef öll ákvæði samningsins uppfyllast á samningstímanum. Samningurinn tekur gildi þann 1. júlí næst komandi.

Liverpool keypti John Arne Riise frá franska liðinu Monaco sumarið 2001. Lengst af alla tíð síðan, á sjö leiktíðum, hefur John Arne verið fastamaður í liði Liverpool. Oftast lék hann sem vinstri bakvörður en hann spilaði líka á vinstri kantinum. Norðmaðurinn vann sér inn verðlaunapening í sínum fyrsta leik þegar Liverpool vann 2:1 sigur á Manchester United í leiknum um Góðgerðarskjöldinn. Í næsta leik vann hann sinn annan titil þegar Liverpool vann 3:2 sigur á Bayern Munchen í Stórbikar Evrópu. John Arne gerði gott betur í þeim leik því hann skoraði fyrsta mark sitt fyrir Liverpool! Ekki amaleg byrjun hjá norska stráknum! 

John Arne vann fimm aðra titla með Liverpool. Hann varð Deildarbikarmeistari árið 2003 og Evrópumeistari 2005. Stórbikar Evrópu bættist í safnið það ár. Hann vann svo F.A. bikarinn 2006 þegar Liverpool vann West Ham United eftir vítaspyrnukeppni. Norðmaðurinn skoraði í vítaspyrnukeppninni. Hann skoraði svo þegar Liverpool vann Góðgerðarskjöldinn síðar sama ár eftir 2:1 sigur á Chelsea. Lengst af ferils síns hjá Liverpool lék John Arne vel og hann ávann sér vinsældir hjá stuðningsmönnum liðsins sem kunnu vel að meta kraftmikinn leik hans og þrumuskot sem gjarnan urðu að glæsilegum mörkum. En síðustu tvær leiktíðir hallaði undan fæti. Þeir sem vel þekktu til mála John Arne vildu meina að fjárhagsörðugleikar og vandamál í einkalífi hefðu haft sitt að segja í því að honum gekk æ verr inni á vellinum. Sérstaklega átti hann erfitt uppdráttar á nýliðinni leiktíð og sjálfsmarkið dýrkeypta gegn Chelsea í undanúrslitum Meistaradeildarinnar í vor kom á versta tíma. Reyndar var vitað áður að það væri orðið stutt í dvöl hans hjá Liverpool. En þrátt fyrir að ferill John Arne hjá Liverpool endaði ekki vel þá verður ekki annað sagt en að hann hafi staðið sig vel lengst af þessara sjö leiktíða sem hann var þar. Sjö titlar segja sína sögu og fáir útlendingar hafa leikið fleiri leiki með Liverpool. John Arne Riise lék 348 leiki með Liverpool og skoraði 31 mark. Við óskum honum góðs gengis á Ítalíu!

 

 

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan