| Grétar Magnússon

Crouch í læknisskoðun hjá Portsmouth

Dagar Peter Crouch hjá Liverpool eru taldir en í dag fékk hann leyfi til að fara í læknisskoðun hjá Portsmouth eftir að tilboði þeirra í leikmanninn var tekið.  Talið er að kaupverðið sé í kringum 11 milljónir punda.

Portsmouth borga 8 milljónir punda strax og eftirstöðvarnar snúast um frammistöðu Crouch hjá Portsmouth á samningstíma hans þar.  Talið er líklegt að þar sé um að ræða nokkuð feita bita Liverpool til handa þegar fram í sækir, og eins og áður sagði, er talið að heildarkaupverðið verði um 11 milljónir punda.  Verður það að teljast nokkuð ásættanlegt fyrir Liverpool þar sem Crouch á aðeins 1 ár eftir af samningi sínum.  Crouch var keyptur á 7 milljónir punda frá Southampton árið 2005, en þá var Harry Redknapp einmitt stjóri þar.

Aston Villa, Tottenham og Newcastle höfðu öll áhuga á að kaupa Crouch en ekkert þessara liða gat boðið jafn vel og Portsmouth.  Crouch hefur lýst því yfir að hann hafi áhyggjur af stöðu sinni hjá Liverpool enda fékk hann lítið að spila á síðasta tímabili.  Brottför hans frá félaginu hefur því komið fáum á óvart enda er líklegt að hann verði oftar en ekki í byrjunarliði Portsmouth á komandi tímabili.

Þegar læknisskoðuninni er lokið er fátt í vegi fyrir því að Crouch verði kynntur sem dýrasti leikmaður í sögu Portsmouth.  Rafa Benítez er vongóður um að með sölunni á Crouch komist smá skriður á mál Gareth Barry en Aston Villa og Liverpool hafa enn ekki komist að samkomulagi um kaupverðið.  Martin O´Neill hefur samþykkt að fá Steve Finnan uppí kaupverðið á Barry en Liverpool vilja ekki borga of mikið fyrir Barry og láta Finnan fara líka.

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan