| Grétar Magnússon

Hobbs hræðist ekki áskorunina

Jack Hobbs á vissulega ekki auðvelt verk fyrir höndum með að komast í byrjunarlið Rafa Benítez miðað við þá miðverði sem fyrir eru hjá félaginu.  Hann hræðist þó ekki þessa áskorun.

Hobbs var mestan part síðasta tímabils á láni hjá Scunthorpe United en nú er hann kominn aftur á Melwood og æfir af kappi á undirbúningstímabilinu.  Hann kom við sögu í fimm leikjum aðalliðsins á síðasta tímabili og er hann æstur í að fá að spila meira á þessu tímabili þó svo að hann sé aðeins að verða tvítugur í ágúst.

,,Það er frábært að vera hluti af aðalliðinu aftur og ég reyni eins mikið og ég get til að sýna stjóranum hvað ég get," sagði Hobbs í viðtali við opinbera heimasíðu félagsins.

,,Það er mjög gott að vera kominn til baka og það er svo vel hugsað um mann þegar við förum í þessar æfingaferðir.  Mér finnst ég hafa staðið mig ágætlega í þeim leikjum sem ég hef spilað til þessa.  Ég missti af leiknum við Luzerne vegna smávægilegra meiðsla, sem var svekkjandi; en það hefur reynst mér vel að taka þátt í þessum leikjum gegn Tranmere og Wisla Krakow."

,,Vonandi fæ ég að spila gegn Herthu Berlin, það væri frábært að spila á Ólympíuleikvanginum í Berlín.  Það er mikil samkeppni hér um stöðu í miðri vörninni en það er auðvitað alltaf þannig hjá félagi eins og Liverpool.  Maður verður alltaf að sýna það besta sem maður á þegar maður fær tækifæri til að spila með aðalliðinu.  Það er ekki hægt að slaka aðeins á."

,,Það var góð reynsla að fara til Scunthorpe og sjá hvernig lífið er í fyrstu deildinni.  Ég byrjaði vel en svo komst ég ekki í liðið undir restina sem var niðurdrepandi.  Nú reyni ég bara að gera mitt besta á hverjum degi á æfingum og sjá svo hvert það leiðir mig.  Þetta verður erfitt og ég er ekki að gera mér of miklar vonir en ég geri mitt besta til að sýna stjóranum að ég geti gert vel fyrir hann."

,,Rafa og Sammy Lee tala mikið við mann og þeir eru alltaf að hvetja mann.  Þeir gefa manni líka ráð og benda manni á hvar maður getur bætt sig.  Það er gott því maður vill alltaf bæta sig sem leikmaður og maður getur bara bætt sig ef maður hlustar á ráð frá stjóranum."

Hobbs, fyrrum fyrirliði varaliðsins undir stjórn Gary Ablett, sagði einnig að félagar hans í varaliðinu hafi ekki valdið sér vonbrigðum í æfingabúðunum í Sviss.  Fjórir byrjunarliðsmenn úr sigursælu varaliði félagsins fengu tækifæri til að sýna sig og sanna í æfingaferðinni.

,,Það er frábært að vera hér með strákum eins og Jay Spearing, Stephen Darby, Emiliano Insua og Damien Plessis," bætti Hobbs við.  ,,Þeir áttu frábært tímabil með varaliðinu og það sýnir sig bara hversu vel þeir stóðu sig þegar að stjórinn gefur þeim tækifæri á að sanna sig í svona leikjum.  Þeir hafa allir staðið sig mjög vel á undirbúningstímabilinu og við hvetjum allir hvern annan til að bæta okkur og sýna okkur og sanna."

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan