Sigurmark á lang, lang, lang síðustu stundu!
Liverpool herjaði fram 2:1 sigur gegn Middlesborough á lang, lang, lang síðustu stundu! Steven Gerrard skoraði sigurmarkið upp úr skrjáfþurru.
Liverpool hóf leikinn af krafti og á 3. mínútu varði markmaðurinn ungi Ross Turnbull vel frá Dirk Kuyt. Ross átti ekki að spila þennan leik en Brad Jones, sem átti að standa í markinu, meiddist í upphitun. Jose Reina varð fyrst að taka á þegar hann sló skot frá Matthew Taylor yfir á 13. mínútu. Eftir þetta gerðist fátt og lítið lengi fram eftir hálfleik. Deyfð færðist yfir leikmenn Liverpool og Boro lék vel. Litlu munaði þó á 39. mínútu þegar Fernando Torres komst í færi inn á teig eftir laglegt spil við Robbie Keane. Skot hans fór í varnarmann og rétt framhjá.
Leikmenn Liverpool voru ekkert hressari í síðari hálfleik og ef eitthvað var þá lék liðið verr en fyrir leikhlé og þá er mikið sagt! Á 62. mínútu sneri Tuncay Sanli Jamie Carragher af sér með snilldarlegri gabbhreyfingu og komst í upplagt færi í teignum en skot hans var laflaust og fór beint á Jose. Gestirnir komust hins vegar yfir á 70. mínútu. Varamaðurinn Ahmed Mido fékk þá boltann um 25 metra frá marki. Egyptinn hitti boltann mjög vel og Jose átti ekki möguleika að verja skotið þar sem boltinn hafnaði alveg úti við stöng. Leikmenn Liverpool fóru nú að aðeins að ranka við sér og Martin Skrtel skallaði rétt framhjá eftir hornspyrnu. Á 78. mínútu átti Liverpool að fá vítaspyrnu þegar Steven Gerrard skaut í útrétta hendina á Robert Huth. Það var ótrúlegt að dómarinn skyldi ekki dæma víti því hann hafði góða sýn á atvikið.
Það leit fátt út fyrir að Liverpool ætlaði að jafna. En það dró skyndilega til tíðinda á 85. mínútu. Liverpool sótti þá upp hægra megin. Xabi Alonso reyndi að senda fyrir markið. Boltinn fór í hendi á einum leikmanna Boro en dómarinn dæmdi ekkert. Leikmenn Liverpool brugðust ókvæða við en Jamie Carragher skeytti ekki um eitt eða neitt. Hann tók boltann og lék framhjá varnarmanni áður en hann þrumaði að marki utan við hægra vítateigshornið. Boltinn virtist stefna á markmann Boro en sem betur fer rakst hann í hendina á Emanuel Pogatetz og af henni sveif hann í mitt markið. Jamie fagnaði ógurlega enda skorar kappinn ekki á hverjum degi. Reyndar telja margir markið sem sjálfsmark en enginn tengdur Liverpool er sammála því áliti! Þremur mínútum seinna var allt í voða inni í vítateig Liverpool. Það kom sending inn á vítateiginn hægra megin. Jose Reina kom út á móti Jeremie Aliadiere en missti algerlega af boltanum. Frakkinn náði að koma honum fyrir markið og allt leit út fyrir að Ahmed kæmi boltanum í autt markið en Jamie náði að trufla hann þannig að skot hans fór framhjá. Á lokamínútunni fékk Liverpool aukaspyrnu rétt utan vítateigs. Steven tók hana en Ross varði vel í horn. Búið var að gefa til kynna að þremur mínútum yrði bætt við venjulegan leiktíma. Dómarinn stöðvaði þó klukkuna þegar komið var fram í viðbótartíma vegna þess að huga þurfti að einum leikmanni Boro. Þetta átti eftir að koma sér vel. Mínúturnar þrjár voru liðnar þegar Xabi sendi háa sendingu inn að vítateig gestanna. Varnarmaður skallaði frá en ekki langt. Boltinn hrökk út fyrir teiginn til Steven Gerrard. Leiðtoginn hikaði hvergi og hamraði boltann í markið efst í markið úti við stöng! Boltinn þandi netmöskvana, á markinu fyrir framan The Kop, og allt gekk af göflunum innan vallar sem utan! Stórkostlegt mark og það færði Liverpool sigur og efsta sætið í deildinni. Þetta var algjörlega ævintýralegur endir á leik sem virtist ætla að enda illa! En heimastrákarnir Jamie og Steven sættu sig ekki við neitt annað en sigur! Liverpool þarf þó að leika miklu betur en það velti enginn stuðningsmaður Liverpool því fyrir sér þegar dómarinn flautaði til leiksloka!
Liverpool: Reina, Arbeloa (El Zhar 83. mín.), Carragher, Skrtel, Dossena (Aurelio 75. mín.), Kuyt, Gerrard, Alonso, Benayoun (Babel 65. mín.), Keane og Torres. Ónotaðir varamenn: Cavalieri, Agger, Ngog og Plessis.
Mörk Liverpool: Jamie Carragher (86. mín.) og Steven Gerrard (90. mín.).
Middlesbrough: Turnbull, Wheater, Huth, Pogatetz, Taylor (Hoyte 75. mín.), Aliadiere, O´Neil, Shawky, Downing, Alves (Mido 60. mín.) og Sanli (Digard 87. mín.). Ónotaðir varamenn: Emnes, A. Johnson og Williams.
Mark Middlesborough: Ahmed Mido (70. mín.).
Gult spjald: Ahmed Mido.
Áhorfendur á Anfield Road: 43.168.
Maður leiksins: Steven Gerrard. Steven lék ekki vel frekar en hinir félagar hans í liðinu. Það er þó ekki annað hægt en að velja hann fyrir þetta ævintýralega sigurmark! Það eru ekki margir leikmenn í heiminum sem hefðu afgreitt boltann svona í markið af þessu færi en Steven Gerrard er enginn venjulegur leikmaður!
Maður leiksins samkvæmt Liverpoolfc.tv: Fernando Torres.
Rafael Benítez: Liðið sýndi sigurvilja sinn. Þetta er líka sú ákveðni sem við viljum sjá það sem eftir er af leiktíðinni. Á síðustu leiktíð gerðum við jafntefli eða töpuðum svona leikjum á heimavelli og þess vegna var svo mikilvægt að vinna þennan leik. Sigurinn sendir líka jákvæð skilaboð til stuðningsmannanna sem voru kannski farnir að hugsa til síðustu leiktíðar. En við fórum grýttustu leiðina að þessum sigri.
Fróðleiksmoli: Þetta var 25. heimsókn Middlesborough í röð til Anfield Road án þess að liðið vinni sigur þar.
Hér eru myndir úr leiknum af Liverpoolfc.tv.
Sigurmarkinu fagnað!!!!!
-
| Sf. Gutt
Vopnahlésdagurinn -
| Sf. Gutt
Mikil jákvæðni hjá félaginu -
| Sf. Gutt
Alisson farinn að æfa -
| Sf. Gutt
Landsleikjafréttir -
| Sf. Gutt
Harvey farinn að æfa -
| Sf. Gutt
Ungliðar lánaðir -
| Sf. Gutt
Virgil fékk frí -
| Sf. Gutt
Landsleikjafréttir -
| Sf. Gutt
Georginio Wijnaldum fer víða -
| Sf. Gutt
Tveir uppaldir í enska landsliðinu