Frægðarför til Miðjarðarhafsstranda!
Liverpool hóf leik í riðlakeppni Meistaradeildarinnar í kvöld með frægðarför til Frakklands. Liverpool lagði Marseille að velli á útivelli aðra leiktíðina í röð. Steven Gerrard skoraði tvívegis í 2:1 sigri og riðlakeppnin gat ekki byrjað mikið betur.
Það lá fyrir að leikurinn í Marseille yrði erfiður. Ekki bara að leikurinn væri á útivelli heldur áttu heimamenn harma að hefna þegar Liverpool sló þá út úr Meistaradeildinni eftir 4:0 sigur. Það var líka augljóst frá upphafi að leikmenn Marseille í hefndarhug. Liðið beitti hröðum sóknum sem vörn Liverpool átti í erfiðleikum með. Á 14. mínútu kom fyrsta færið en Mamadou Niang skaut yfir í góðu færi. Nú var komið að Liverpool og strax á mínútu seinna komst Ryan Babel í færi eftir lagleg tilþrif en hann skaut yfir. Nokkrum andartökum seinna fékk Steven Gerrard boltann við hægra vítateigshornið eftir gott samspil við Dirk Kuyt en Steve Mandanda varði fast skot hans í horn. Upp úr hornspyrnunni átti svo Fernando Torres skalla rétt yfir. Eftir þessa góðu rispu Liverpool kom nokkuð á óvart þegar heimamenn komust yfir á 23. mínútu. Benoit Cheyrou, bróðir Bruno fyrrum leikmanns Liverpool, sendi þá frábæra stungusendingu inn fyrir vörnina. Albaninn Lorik Cana stakk sér inn fyrir vörnina sem ætlaði að leika hann rangstæðan og komst einn í gegn. Hann renndi svo boltanum í markið af miklu öryggi án þess að Jose Reina kæmi nokkrum vörnum við. Nú tóku stuðningsmenn Marseille aldeilis við sér.
Líkt og í sigrinum góða gegn Manchester United á laugardaginn þá gáfust leikmenn Liverpool ekki upp. Þremur mínútum seinna náði Fernando Torres boltanum af einum heimamanna á miðjum vellinum. Hann lék upp að vítateignum og sendi boltann svo út til hægri á Dirk Kuyt sem var við vinstra vítateigshornið. Hann renndi boltanum aftur til baka á Steven Gerrard sem þrumaði boltanum viðstöðulaust að marki af um 25 metra færi. Augnabliki síðar þandi boltinn netmöskvana efst í horninu fjær! Steve Mandanda hreyfði hvorki legg né lið í markinu enda hefði enginn markvörður í heiminum varið þetta ótrúlega skot. Steven Gerrard hefur skorað mörg falleg mörk á ferli sínum en þetta fer í flokk með þeim allra glæsilegustu og er þá mikið sagt! Liverpool lét nú kné fylgja kviði. Á 32. mínútu sendi Jamie Carragher langa sendingu fram vinstri kantinn á Ryan Babel. Hann tók á rás inn í teiginn þar sem Ronald Zubar felldi hann. Dómarinn dæmi auðvitað vítaspyrnu. Steven Gerrard tók hana og skoraði með nákvæmu skoti neðst í hægra hornið en Steve henti sé í vitlaust horn. Leikmenn Liverpool ætluðu að fagna en það gafst ekki færi á því. Dómarinn vildi að spyrnan yrði endurtekin þar sem menn hefðu verið komnir inn í vítateiginn þegar Steven spyrnti. Steven lét þetta ekki setja sig út af laginu og sparkaði boltanum aftur á sama stað og Steven skutlaði sér aftur í vitlaust horn. Sem sagt endurtekið efni og nú gátu leikmenn og stuðningsmenn Liverpool fagnað endurkomu liðsins. Steven var þar með kominn með 27 Evrópumörk og bætti félagsmet sitt enn frekar. Fleira markvert gerðist eiginlega ekki í fyrri hálfleik.
Leikmenn Liverpool drógu sig aftur á völlinn í síðari hálfleik og heimamenn reyndu allt hvað þeir gátu til að jafna. Lengi vel var þeim lítt ágengt og vörn Liverpool gaf ekki færi á sér. Fernando og Steven var skipt af velli enda orðnir þreyttir. Þegar um tuttugu mínútur fékk Lorik Cana gott skotfæri en hann skaut yfir. Á 75. mínútu hefði Liverpool átt að gera út um leikinn. Albert Reira átti góðan sprett upp vinstri kantinn og sendi fyrir. Boltinn barst á Ryan sem þrumaði að marki af stuttu færi en Steve varði ótrúlega. Rétt á eftir braust Ryan, sem átti mjög góðan leik. inn á teig vinstra megin en skot hans strauk stöngina og fór framhjá. Heimamenn voru mjög grimmir á lokakaflanum. Tveimur mínútum fyrir leikslok Mamadou Niang skalla rétt framhjá. Hann hefði átt að geta náð betri skalla en Alvaro Arbeloa þrengdi að honum. Rétt á eftir henti Jose sér út í teig og náði fyrirgjöf á frábæran hátt með annarri hendi. Á lokamínútunni opnaðist vörnin illa og Mamadou fékk boltann í upplögðu færi. Hann þrumaði að marki en Jose varði með öðrum fæti án þess að henda sér niður. Hann var þarna eins og besti handboltamarkmaður. Frábær markvarsla og hún tryggði endanlega sigur Liverpool við Miðjarðarhafið.
Marseille: Mandanda, Bonnart, Zubar, Hilton, Taiwo, Cana, Cheyrou, Kone (Samassa 75. mín.), M´Bami (Valbuena 41. mín.), Ben Arfa (Ziani 57. mín.) og Niang. Ónotaðir varamenn: Riou, Zenden, Kabore og Erbate.
Mark Marseille: Lorik Cana (23. mín.).
Gult spjald: Ronald Zubar.
Liverpool: Reina, Arbeloa, Skrtel, Carragher, Dossena, Gerrard (Benayoun 69), Mascherano, Leiva Lucas, Kuyt (Keane 86), Torres (Riera 64. mín.) og Babel. Ónotaðir varamenn: Cavalieri, Agger, Alonso og Degen.
Mörk Liverpool: Steven Gerrard (26. mín. og 32. mín., víti.)
Gul spjöld: Martin Skrtel og Leiva Lucas.
Áhorfendur á Velodrome leikvanginum: 45.000.
Maður leiksins: Steven Gerrard. Enn sýndi fyrirliðinn hvað í honum býr. Hann skoraði bæði mörk Liverpool. Það fyrra skoraði hann með frábæru langskoti sem lengi verður í minnum haft og svo sýndi hann mikið öryggi þegar hann þurfti að tvítaka vítaspyrnu. Frábærlega gert hjá meistaranum!
Rafael Benítez: Liðið lék vel. Menn lögðu hart virkilega hart að sér í vörninni og skyndisóknirnar voru vel útfærðar. Við fengum opin færi en það gerðu þeir líka. Það voru þreyttir menn í liði okkar en við breyttum liðinu til að fríska upp á það. Lánið var svo með okkur undir lokin. Sú staðreynd að við skyldum snúa leiknum við eftir að hafa lent undir sýnir enn og aftur þann skapstyrk sem býr í liðinu. Við getum bjargað okkur úr erfiðum aðstæðum.
Fróðleiksmoli: Fyrir síðustu leiktíð hafði ekkert enskt lið unnið á Velodrome leikvanginum en Liverpool hefur nú unnið þar tvær leiktíðir í röð!
Í hinum leiknum í D riðli vann Atletico Madrid frækinn 3:0 útisigur á PSV Eindhoven.
Staðan í D riðli er nú svona:
Atletico Madrid 1. 1. 0. 0. 3:0. 3
Liverpool 1. 1. 0. 0. 2: 1. 3
Marseille 1. 0. 0. 1. 1:2. 0
PSV Eindhoven 1. 0. 0. 1. 0:3. 0
Hérna eru myndir úr leiknum af Liverpoolfc.tv.
Hérna eru myndir úr leiknum af vefsíðu BBC.
Hérna eru myndir úr leikjum kvöldsins af vefsíðu UEFA.
27. Evrópumarkinu fagnað!
-
| Heimir Eyvindarson
Ofurhetja í uppbótartíma -
| Heimir Eyvindarson
Nunez tryggði mikilvægan sigur á Brentford -
| Heimir Eyvindarson
Brentford-Liverpool -
| Sf. Gutt
Áfram með smjörið! -
| Sf. Gutt
Jafnglími! -
| Heimir Eyvindarson
Af hverju er okkur illa við Nottingham Forest? -
| Sf. Gutt
Fyrsta tapið! -
| Sf. Gutt
Darwin í banni -
| Sf. Gutt
Dregið í FA bikarnum -
| Sf. Gutt
Auðvelt áframhald!