Get ekki beðið eftir því að skora
Robbie Keane hefur ekki enn komist á blað í markaskorun en þó hefur hann alls ekki verið að spila illa fyrir liðið. Hann hlakkar mikið til að skora sitt fyrsta mark fyrir félagið.
Keane segir að hann eigi mikið inni og að hann eigi eftir að sýna betur hvað í sér býr.
,,Ég hef ekki skorað ennþá en það er eitthvað sem ég vill gera, ég hef hinsvegar ekki áhyggjur af því," sagði Keane í viðtali við opinbera heimasíðu félagsins.
,,Ég held að ef ég væri yngri og kannski aðeins barnalegri í hugsun, þá væri ég sennilega farinn að hafa áhyggjur af þessu, en svo lengi sem að liðið er að vinna og ég legg hart að mér, þá er það það eina sem ég get gert. Ég veit að ég mun uppskera eins og ég sái. Mitt fyrsta mark er handan við hornið. Vonandi koma svo mörg fleiri í kjölfarið eftir að fyrsta markið er komið."
Það tók Keane líka tíma að skora sitt fyrsta mark fyrir Tottenham tímabilið 2002/2003 þegar Glenn Hoddle keypti hann frá Leeds á 7 milljónir punda. Hann skoraði ekki sitt fyrsta mark fyrir félagið fyrr en um miðjan október gegn Blackburn Rovers, en eftir það hætti hann varla að skora og skoraði alls 80 mörk fyrir félagið.
Þrátt fyrir að hafa aðeins verið leikmaður Liverpool í mánuð hrósar Keane stuðningsmönnunum á Anfield í hástert, segir hann að sér líði mjög vel hjá Liverpool og að tími hans hjá félaginu virðist hafa verið mun lengri en mánuður.
,,Stuðningsmennirnir hafa verið stórkostlegir síðan ég kom hingað," viðurkennir Keane. ,,Þetta hefur verið nákvæmlega eins og ég bjóst við þar sem ég er stuðningsmaður félagsins sjálfur. Þeir hafa ávallt verið okkar tólfti maður og þeir hvöttu okkur óspart áfram gegn United um síðustu helgi."
,,Mér hefur liðið mun betur með liðsfélögum mínum eftir því sem ég hef spilað fleiri leiki. Það er aðeins liðinn mánuður en mér líður eins og ég hafi ávallt verið hér vegna þess mikla stuðnings sem ég hef fengið."
Nú um helgina koma leikmenn Stoke City í heimsókn á Anfield og Keane veit sem er að allir búast við þremur fleiri stigum í sarpinn hjá Liverpool.
,,Ég horfði á þá spila gegn Everton um síðustu helgi og mér fannst þeir óheppnir að fá ekki neitt útúr leiknum," sagði Keane. ,,Þeir eru virkilega ógnandi með innköstunum frá Rory Delap. Það er eitthvað sem við verðum að passa vegna þess að bæði mörk þeirra um síðustu helgi komu eftir löng innköst frá honum."
,,Það er undir okkur leikmönnunum komið að einbeita okkur að hverjum einasta leik og vinna ekki bara vinnuna okkar í stóru leikjunum, heldur líka þeim sem eru svokallaðir minni leikir eins og þessi. Ef við viljum ná einhverjum árangri á leiktíðinni þá verðum við að vera klárir í alla leiki. Ég er viss um að við verðum á tánum fyrir þennan leik."
-
| Heimir Eyvindarson
Ofurhetja í uppbótartíma -
| Heimir Eyvindarson
Nunez tryggði mikilvægan sigur á Brentford -
| Heimir Eyvindarson
Brentford-Liverpool -
| Sf. Gutt
Áfram með smjörið! -
| Sf. Gutt
Jafnglími! -
| Heimir Eyvindarson
Af hverju er okkur illa við Nottingham Forest? -
| Sf. Gutt
Fyrsta tapið! -
| Sf. Gutt
Darwin í banni -
| Sf. Gutt
Dregið í FA bikarnum -
| Sf. Gutt
Auðvelt áframhald!