| Sf. Gutt

Liverpool herjaði fram sigur á Crewe

Liverpool herjaði fram sigur á Crewe Alexandra í Deildarbikarnum á Anfield Road í kvöld og komst þar með áfram í 3. umferð. Það var ekki neinn glæsibragur á sigrinum. Tveir leikmenn Liverpool skoruðu fyrstu mörk sín á leiktíðinni.

Þrátt fyrir að breyta liðinu algerlega frá því um helgina þá stillti Rafael Benítez upp sterku liði. Daniel Cavalieri og Philipp Degen spiluðu í fyrsta sinn með Liverpool. Ungverski markmaðurinn Peter Gulacsi var í fyrsta sinn á meðal leikmanna aðalliðsins en hann var varamaður. Þeir Emiliano Insua og Jermaine Pennant léku svo í fyrsta sinn á leiktíðinni.

Liverpool byrjaði leikinn vel og náði forystu á 15. mínútu. David Ngog var þá felldur rétt utan vítateigs. Daniel Agger tók aukaspyrnuna og hamraði boltann í markið án þess að Steve Collis ætti neina möguleika á að verja. Glæsilegt mark hjá Dananum sem átti stórleik var greinilega ákveðinn í að minna á sig! Crewe, sem spilar í þriðju deild af atvinnumannadeildunum fjórum, svaraði óvænt fyrir sig á 25. mínútu. Michael O´Connor kom þá boltanum í markið af stuttu færi eftir hornspyrnu. Rétt á eftir skapaðist aftur hætta við mark Liverpool eftir hornspyrnu en allt fór vel. Á 32. mínútu átti Daniel hörkuskot rétt yfir mark Crewe. Liverpool sótti mjög undir lok hálfleiksins og á 38. mínútu bjargaði Danny O´Donnell, uppeldissonur Liverpool, á síðustu stundu þegar David Ngog var við að komast í færi. Rétt á eftir átti Sami Hyypia skalla rétt framhjá eftir fyrirgjöf frá Jermaine Pennant sem átti góðan leik. Emiliano Insua átti svo hættulegt skot sem markmaður Crewe mátti hafa sig allan við að verja í horn. Eftir hornið náðu varnarmenn Crewe að bjarga eftir mikinn atgang. En neðrideildarliðið gat vel við unað í hálfleik.

Leikmenn Liverpool komu ákveðnir til leiks í síðari hálfleik og tóku öll völd. Strax í upphafi sendi Jermine fyrir á Ryan Babel sem fékk boltann í góðu færi en varnarmaður komst fyrir skot hans. Jermaine náði enn einu sinni góðri fyrirgjöf á 58. mínútu og þessi bar árangur því Lucas Leiva stökk manna hæst og skallaði í markið. Ekki minnkaði sóknarþungi Liverpool þegar Fernando Torres kom til leiks á 66. mínútu. Önnur skipting var svo gerð á 73. mínútu þegar Jamie Carragher kom inn fyrir Philipp Degen sem síðubrotnaði. Fernando var mjög grimmur í sókninni og hann var greinilega ákveðinn í að reyna að skora. Steve varði skalla hans átta mínútum fyrir leikslok á ótrúlegan hátt. Tveimur mínútum seinna komst Fernando einn í gegn en Steve sá aftur við honum. Fernando tókst ekki að skora í kvöld frekar en Robbie Keane sem kom inn sem varamaður undir lokin. Leikmenn Crewe reyndu að jafna undir lokin að það munaði litlu að það tækist á 88. mínútu. Byron Moore sendi þá fyrir markið á Tom Pope en hann náði ekki að stýra boltanum í markið af stuttu færi. Liverpool hafði því sigur en hann var naumari en flestir reiknuðu með.

Liverpool: Cavalieri, Degen (Carragher 73. mín.), Hyypia, Agger, Insua, Pennant, Leiva, Plessis, El Zhar (Keane 87. mín.), Babel og Ngog (Torres 66. mín.). Ónotaðir varamenn: Gulacsi, Dossena, Alonso og Skrtel.

Mörk Liverpool: Daniel Agger (15. mín.) og Lucas Leiva (58. mín.).

Crewe Alexandra: Collis, Woodards, Baudet, O´Donnell, Jones, Moore, Bailey, O´Connor, Carrington (Grant 81. mín.), Zola (Miller 78. mín.) og Pope (Elding 87. mín.). Ónotaðir varamenn: Tomlinson, Abbey, Rix og Schumacher.

Mark Crewe: Michael O´Connor (25. mín.).

Áhorfendur á Anfield Road: 28.591.

Maður leiksins samkvæmt Liverpoolfc.tv: Daniel Agger.

Maður leiksins samkvæmt Ian Pennell, sjónarvotts á The Kop: Jermaine Pennant.

Rafael Benítez: Eins og venjulega í svona leikjum þá gerir svolítil taugaspenna við sig þegar þriðja markið, sem hefði gert út um leikinn, skilaði sér ekki. Mér fannst við skapa okkur nóg af færum til að skora þriðja markið en við skoruðum tvö mjög góð mörk. Ég tel að Daniel Agger hafi átt frábæran leik. Lucas Leiva er sókndjarfur og hann á því að geta skorað fleiri mörk eins og það sem hann skoraði. Mér fannst þetta mjög góð úrslit og ég var mjög ánægður með viðbrögð leikmanna þegar þeir jöfnuðu metin.

Fróðleiksmoli: Þetta var 100. Deildarbikarleikur Liverpool á Anfield Road.

Hér eru myndir úr leiknum af vefsíðu Mirror.co.uk.

Hér má sjá svipmyndir úr leiknum...

 

 

 

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan