| Sf. Gutt

"Strákurinn" tryggði sigur á Bláliðum

Liverpool vann góðan sigur á Goodison Park um hádegisbilið í dag í 208. Mersey bakka rimmunni. Fernando Torres skoraði bæði mörk Liverpool í 2:0 sigri. Mörkin komu á þremur mínútum. Þeir Rauðu höfðu tögl og hagldir eftir leikhlé og sigurinn var sanngjarn.

Rafael Benítez stillti upp sama liði og í síðasta deildarleik. Það þýddi að þeir Fernando Torres og Robbie Keane leiddu sóknina þrátt fyrir að hafa aðeins skorað eitt mark á leiktíðinni. Þær hafa oftast verið tíðindameiri rimmurnar milli þessara fornu keppinauta og það var ekki fyrr en eftir stundarfjórðung sem fyrsta færið kom. Everton fékk þá hornspyrnu sem Mikel Arteta tók. Boltinn barst þvert fyrir markteiginn og fyrir miðju marki kom hann til Tim Cahill en hann hitti ekki boltann í dauðafæri. Þar fór allt vel! Liverpool var heldur sterkari aðilinn í hálfleiknum en það gekk illa að skapa opin færi. Albert Riera var hættulegur á vinstri kantinum og varnarmenn Everton áttu í vandræðum með hann. Um miðjan hálfleikinn leit allt út fyrir mark hjá Everton. Há sending kom inn á vítateiginn og Jose Reina missti af boltanum sem féll fyrir fætur Marouane Fellaini. Hann skaut að marki en Jamie Carragher bjargaði á marklínu með mjöðminni. Dómarinn hafði þó flautað aukaspyrnu á Marouane,  fyrir að stjaka við Jose, þannig að öllu var óhætt en Jamie gerði vel í bjarga og sýndi að hann var fullkomlega einbeittur. Reyndar var nú ekki að sjá að um neitt brot hefði verið að ræða. Ekkert hafði verið skorað í leikhléi og aldrei þessu vant þá var um fátt að ræða eftir hálfleik milli þessara liða. Það sagði sína sögu að hvorugur markmaðurinn hafði þurft að verja skot!

Það færðist strax fjör í leikinn í síðari hálfleik. Ayegbeni Yakubu var bókaður snemma í hálfleiknum eftir að hafa látið sig detta inni í teig eftir að Martin Skrtel hafði sótt að honum. Það var réttur dómur! Fernando Torres fékk svo að líta gula spjaldið eftir hafa kvartað við dómarann yfir hörku varnarmanna heimamanna. Fernando virtist herða sig við þetta og átti á 50. mínútu langskot sem fór reyndar beint á Tom Howard. Þetta var fyrsta skotið á rammann í öllum leiknum! Rétt á eftir átti Steven Gerrard skot utan teigs sem fór rétt framhjá.

Liverpool náði nú yfirhöndinni og boltinn lá í marki heimamanna á 59. mínútu. Xabi Alonso sendi upp að endamörkum vinstra megin. Boltinn virtist ætla að fara aftur fyrir endamörk en Robbie Keane elti boltann og náði að gefa fyrir markið. Fernando Torres hafði tekið hlaup inn í teiginn og fékk boltann óvaldaður við markteiginn þaðan sem hann skoraði með föstu innanfótarskoti fyrir framan hörðustu stuðningsmenn Everton sem sáu Rautt! Frábært mark sem að Robbie skapaði af harðfylgi sínu. Stuðningsmenn Liverpool voru varla hættir að fagna og þeir sem fylgdu Everton að málum voru enn bölvandi þegar boltinn lá aftur í sama markinu. Á 62. mínútu fékk  Robbie boltann rétt utan vítateigs. Hann stakk boltanum laglega inn á teiginn á Dirk Kuyt. Varnarmaður Everton renndi sér fyrir hann og kom boltanum frá en boltinn fór beint á Fernando sem smellti boltanum upp undir þaknetið úr miðjum teignum. Glæsilegt mark hjá "Stráknum" sem fagnaði innilega með félögum sínum og stuðningsmenn Liverpool héldu áfram að fagna! Á næstu tveimur mínútum lá boltinn aftur og aftur í marki Everton! Fyrst skoraði Dirk af stuttu færi en boltinn hafði farið aftur fyrir endamörk áður en hann kom til Hollendingsins. Dæmd var hornspyrna og eftir hana skoraði Fernando af stuttu færi. Það mark var dæmt af vegna bakhrindingar hjá Dirk en sá dómur var strangur og að margra áliti rangur! Fernando hefði með réttu átt að hafa unnið sér inn bolta fyrir þrennu en svo gott var það ekki. Eftir þetta var bara eitt lið á vellinum og það lék í rauðu! Everton átti engin svör. Reyndar kom hættuleg fyrirgjöf fyrir mark Liverpool á 77. mínútu en enginn náði boltanum. Tveimur mínútum síðar var svo endalega allur vindur úr Bláliðum. Tim Cahill var þá rekinn af velli eftir að hafa sparkað Xabi Alonso niður. Mörgum þótti sá dómur í strangara lagi en Rauðliðar kvörtuðu ekki! Á 84. mínútu átti Steven Gerrard fast skot utan teigs sem Tim varði í horn. Þegar dró að leikslokum fóru stuðningsmenn Liverpool að kyrja þjóðsönginn og svo braust mikill fögnuður út þegar flautað var til leiksloka! Öruggur og sanngjarn sigur Liverpool var í höfn. Það segir sína sögu um gang leiksins að Jose Reina þurfti ekki að verja eitt einasta skot í leiknum. Með sigrinum skaust Liverpool upp í efsta sæti deildarinnar. Ekki amalegt að gera það með sigri á Everton!

Everton: Howard, Hibbert (Saha 63. mín.), Yobo, Jagielka, Lescott, Arteta, Neville, Fellaini, Osman, Cahill og Yakubu. Ónotaðir varamenn: Nash, Baines, Castillo, Vaughan, Nuno Valente og Rodwell.

Gul spjöld: Marouane Fellaini, Ayegbeni Yakubu og Phil Neville.

Rautt spjald: Tim Cahill.

Liverpool: Reina, Arbeloa, Carragher, Skrtel, Dossena, Kuyt, Alonso (Leiva 86. mín.), Gerrard, Riera (Aurelio 67. mín.), Torres og Keane (Pennant 86. mín.). Ónotaðir varamenn: Cavalieri, Hyypia, Agger og Babel.

Mörk Liverpool: Fernando Torres (59. og 62. mín.)

Gul spjöld: Xabi Alonso, Fernando Torres og Alvaro Arbeloa.

Áhorfendur á Goodison Park: 39.574.

Maður leiksins: Fernando Torres. "Strákurinn" hafði ekki skorað frá því á fyrsta leikdegi og svo virtist sem markaleysi frá því þá væri farið að setja hann út af laginu. Hann fékk gult spjald fyrir mótmæli og það leit út fyrir að hann myndi ekki setja mark sitt á leikinn. En Fernando gerði svo út um leikinn með tveimur mörkum á þremur mínútum of með réttu hefði hann átt að skora þrjú mörk en þriðja markið hans var dæmt af. Glæsilegt svar við öllum gagnrýnisröddum!

Rafael Benítez: Liðið lék vel og Fernando var virkilega góður. Menn eins og Robbie Keane, Steven Gerrard og Dirk Kuyt léku vel fyrir liðið og það sama má segja um varnarmennina. Ég vil þó frekar tala um liðið í heild og hversu vel það lék í dag. Í svona leikjum verður að spila af eldmóði en það þarf líka að halda ró sinni. Það þarf bæði að nota vit og kraft. Það gerðum við hvoru tveggja vel. Mér fannst við spila virkilega vel gegn United og líka í dag. Þetta var mjög góð framganga, liðið var vel skipulagt og við vissum hvað við þurftum að gera.

Fróðleiksmoli: Liverpool hefur unnið í sjö af síðustu níu heimsóknum sínum á Goodison Park!

Mark númer 1...

Mark númer 2...

 

TORRES!!!

Hér eru myndir úr leiknum af Liverpoolfc.tv.

 

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan