| Grétar Magnússon

Keane ánægður með fyrsta markið

Robbie Keane var mikið létt eftir að hafa loksins náð að skora gegn PSV í Meistaradeildinni á miðvikudagskvöldið.  Það tók Keane 11 leiki að skora sitt fyrsta mark fyrir félagið og vonast hann nú til þess að flóðgáttirnar opnist.

,,Ég er ánægður að þetta er loksins frá ef ég á að vera hreinskilinn," sagði Keane í viðtali við opinbera heimasíðu félagsins.  ,,Þetta var góður bolti frá Fernando og ég náði að komast aðeins frá varnarmanninum og náði góðri snertingu við boltann.  Sem betur fer fór boltinn inn og vonandi get ég nú skorað fleiri mörk.  Kvöldið í kvöld snerist samt ekki um að Robbie Keane skyldi skora, þetta snerist um að fá 3 stig og halda áfram okkar góðu spilamennsku."

Keane tók sitt fræga fagn eftir markið fyrir framan Anfield Road stúkuna en þetta er eitthvað sem hann sagðist ætla að gera þegar hann myndi skora sitt fyrsta mark.  Hinsvegar ættu stuðningsmennirnir ekki að búast við því að sjá þetta mikið oftar.

,,Á síðasta ári hef ég bara fagnað undir sérstökum kringumstæðum og þetta var auðvitað eitt svoleiðis skipti," útskýrði Keane.  ,,Ég hef gert þetta undanfarin ár og mig hefur alltaf dreymt um að gera þetta hér hjá Liverpool.  Nú er þetta frá, þannig að ég get aðeins hvílt fagnið góða."

Það var Fernando Torres sem lagði markið upp fyrir Keane og má eiginlega segja að Torres hafi verið að endurgjalda honum greiðann eftir nágrannaslaginn þar sem Keane lagði upp fyrra mark Spánverjans.  Fyrir Keane sýna þessir leikir hversu vel samstarfið milli þeirra gengur.

,,Þetta er eins og með allt annað - það tekur tíma.  Hlutirnir ganga ekki upp frá fyrstu mínútu en við Fernando erum að ná vel saman.  Ég átti þátt í tveimur mörkum á laugardaginn og hann lagði upp fyrir mig í kvöld.  Það er frábært, en ég einbeiti mér bara að því að leggja mig fram fyrir liðið og vonandi getum við báðir skorað fleiri mörk."

Það voru fleiri söguleg mörk í leiknum en Steven Gerrard skoraði sitt 100. mark fyrir félagið í 3-1 sigri.  Keane, sem náði því að skora yfir 100 mörk fyrir Tottenham sagði:  ,,Þetta var frábært.  Ég og Stevie spjölluðum saman eftir leikinn og við sögðum að það væri alltaf gaman að koma þessum hlutum frá vegna þess að fólk talar um þetta meira en við.  Sem leikmenn erum við ekki að hugsa mikið um þetta.  Það sama gerðist hjá Tottenham á síðasta ári þegar ég var að ná mínu 100. marki og það tók nokkra leiki."

Sigurinn gegn PSV þýðir að liðið er með fullt hús stiga í D-riðli Meistardeildarinnar eins og Atletico Madrid.  Staðan er því góð fyrir þessi lið því PSV og Marseille eru án stiga.  Keane segir þó réttilega að ekkert sé öruggt í riðlinum og að hann láti góða stöðu ekki blekkja sig.

,,Við getum ekki orðið of sjálfumglaðir," sagði hann.  ,,Það eru enn fjórir leikir eftir en við erum í góðri stöðu sem gefur okkur mikið sjálfstraust.  Við förum nú til Manchester City á sunnudaginn, okkur hlakkar til og vonandi getum við haldið áfram okkar góða gengi."

 

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan