Jafnglími í Madríd
Liverpool sótti gott stig til Madrídar í vindgusti í kvöld. Liverpool og Atletico Madrid skildu jöfn 1:1 og voru þau úrslit sanngjörn þegar allt var skoðað. Liðin leiða nú riðilinn.
Rafael Benítez tefldi fram fjórum löndum sínum þar af þremur úr Evrópumeistarahópi Spánar frá því í sumar. Tveir fyrrum leikmenn Liverpool, Luis Garcia og Florent Sinama Pongolle, voru í liði heimamanna. Liverpool hóf leikinn af krafti og náði forystu á 14. mínútu. Steven Gerrard laumaði þá boltanum inn á vítateiginn. Þar kom Robbie Keane og renndi boltanum af miklu öryggi framhjá Leo Franco. Tæpt var á rangstöðu en Robbie var réttstæður þótt litlu hefði mátt muna. Um tíu mínútum seinna hefði Robbie átt að gera út um leikinn. Steven sendi fyrir frá hægri en Robbie hitti ekki boltann í dauðafæri fyrir miðju marki. Á 38. mínútu hefði Liverpool átt að fá vítaspyrnu. Varnarmaður slengdi þá fæti fyrir Albert Reira sem féll. Dómarinn bókaði Albert fyrir leikaraskap en hefði átt að dæma víti! Það var ekki fyrr en fjórum mínútum fyrir lok hálfleiksins sem heimamenn ógnuðu marki Liverpool fyrst. Diego Forlan átti þá þrumuskot utan teigs en boltinn fór rétt framhjá. Liverpool var sterkari aðilinn í hálfleiknum og hafði verðskuldaða forystu í leikhléi.
Heimamenn hófu síðari hálfleikinn af krafti en Liverpool hefði átt að gera út um leikinn á 49. mínútu. Steven sendi þá inn á teiginn þar sem Yossi Benayoun afgreiddi boltann laglega neðst í markhornið. Línuvörðuinn veifaði á rangstöðu og markið var dæmt af en það var ekki réttur dómur! Það sama gerðist hinu megin á vellinum átta mínútum seinna. Giourkas Seitaridis slapp þá inn á teig og skoraði með góðu skoti út í hornið. Línuvörðuinn veifaði og markið var dæmt af. Aftur var rangt dæmt en stuðningsmenn Liverpool hrósuðu happi í þetta sinnið. Strax í næstu sókn komst Portúgalinn Simao Sabrosa, sem oft hefur verið orðaður við Liverpool, inn í teiginn og náði góðu skoti. Jose Reina, sem fann sig vel á slóðum föður síns, var vel á verði og náði að slæma hendi í boltann sem fór í stöng. Jose náði svo frákastinu. Það dró smá saman úr krafti heimamanna eftir því sem leið á hálfleikinn. Rafael skipti þremur, Robbie, Steven og Xabi, af sínum lykilmönnum af velli og líklega hefur hann verið farinn að hugsa til stórslagsins við Chelsea á sunnudaginn. Allt virtist stefna í sigur Liverpool þangað til að 83. mínútu en þá jafnaði Atletico óvænt eftir að vörn Liverpool hafði opnast illilega. Diego fékk þá boltann hægra megin rétt utan teigs. Hann sendi boltann út til vinstri á Simao Sabrosa sem var þar óvaldaður og hann skoraði með öruggu skoti út við stöng. Bæði lið hefðu getað tryggt sér sigur undir lokin. Fyrst varði Jose í horn frá Miguel. Mínútu fyrir leikslok skallaði svo Ryan Babel framhjá af stuttu færi eftir fyrirgjöf frá Dirk Kuyt. Þar hefði Hollendingurinn átt að skora. Leikar skildu jafnir og var það sanngjörn niðurstaða.
Atletico Madrid: Franco, Seitaridis, Perea, Dominguez, Antonio Lopez, Camacho (R. Garcia 72. mín.), Maniche, L. Garcia (Aguero 46. mín.), Simao, Forlan og Pongolle (Miguel 75. mín.). Ónotaðir varamenn: Bernabe, Pernia, Heitinga og Paulo Assuncao.
Mark Atletico Madrid: Simao Sambrosa (83. mín.).
Gult spjald: Maniche.
Liverpool: Reina, Arbeloa, Carragher, Agger, Dossena, Mascherano, Alonso (Leiva 75. mín.), Benayoun, Gerrard (Babel 61. mín.), Riera og Keane (Kuyt 53. mín.). Ónotaðir varamenn: Cavalieri, Aurelio, Pennant og Darby.
Mark Liverpool: Robbie Keane (14. mín.).
Gul spjöld: Albert Riera og Alvaro Arbeloa.
Áhorfendur á Vincente Calderón: 44.500.
Maður leiksins: Xabi Alonso. Spánverjinn hefur leikið æ betur á leiktíðinni og hann gerði það það svikalaust í heimalandi sínu í kvöld. Hann var duglegur á miðjunni og gaf ekki tommu eftir.
Rafael Benítez: Við stjórnuðum gangi mála í fyrri hálfleik og hluta til í þeim seinni. Ef mér hefði verið sagt, fyrir leikinn, að við myndum vera með sjö stig í riðlinum að leik loknum þá hefði ég verið sáttur en eftir að hafa verið með forystu fram á 83. mínútu og hafa átt góð færi þá finnst mér að við höfum tapað tveimur stigum.
Fróðleiksmolar: - Þetta var fyrsti leikur þessara liða í keppni. - Enskt lið hefur aldrei unnið á Vicente Calderón leikvanginum. - Fjórir Spánverjar voru í byrjunarliði Liverpool. - Robbie Keane skoraði sitt annað mark fyrir Liverpool og hafa þau bæði komið í Meistaradeildinni.
Í hinum leiknum í D riðli vann PSV 2:0 sigur á Marseille í Eindhoven.
Staðan í D riðli er nú svona:
Atletico Madrid 3. 2. 1. 0. 6:2. 7
Liverpool 3. 2. 1. 0. 6: 3. 7
PSV Eindhoven 3. 1. 0. 2. 3:6. 3
Marseille 3. 0. 0. 3. 2:6. 0
Hér eru myndir af Liverpoolfc.tv
Hér eru myndir úr leiknum af vefsíðu BBC
Hér eru myndir úr leiknum af vefsíðu Teamtalk
Hér eru myndir úr leiknum af vefsíðu Telegraph
-
| Sf. Gutt
Áramótakveðjur! -
| Sf. Gutt
Verðum að skrifa okkar eigin sögu! -
| Sf. Gutt
Í minningu -
| Sf. Gutt
Jólahugleiðing Arne Slot -
| Sf. Gutt
Gleðileg jól! -
| Sf. Gutt
Af samningamálum Virgil van Dijk -
| Sf. Gutt
Úr leik! -
| Sf. Gutt
Hlýrra uppi í stúku! -
| Sf. Gutt
Dregið í Deildarbikarnum -
| Sf. Gutt
Áfram í Deildarbikarnum