Liverpool vann toppslaginn og fór á toppinn!
Liverpool vann toppslaginn við Chelsea og varð þar með fyrst liða í 86 heimsóknum til að vinna deildarsigur á Stamford Bridge. Sannarlega þýðingarmikill sigur og hann færði Liverpool toppsætið í deildinni. Liðið hefur þriggja stiga forystu á toppnum.
Það var mikil spenna í loftinu á Stamford Bridge þegar topplið deildarinnar, sem bæði voru taplaus, hófu leik eftir hádegið í dag. Leikurinn hófst af miklum krafti enda var mikið undir. Chelsea fékk fyrsta færið. Deco komst í gott skotfæri eftir mikla rispu frá Nicolas Anelka en Xabi Alonso henti sér fyrir skotið. Liverpool tók svo frumkvæðið í leiknum á 10. mínútu. Alvaro Arbeloa tók þá innkast til móts við vítateiginn hægra megin. Hann kastaði inn á teiginn þar sem Dirk Kuyt skallaði boltann áfram. John Terry skallaði út úr teiginum. Boltinn lenti við fætur Xabi Alsono sem skaut að marki með vinstri rétt utan teigs. Boltinn rakst örlítið í Jose Bosingwa og sú stefnubreyting dugði til þess að boltinn fór í markið án þess að Petr Cech kæmi vörnum við. Stuðningsmenn Liverpool fyrir aftan markið fögnuðu gríðarlega og leikmenn Liverpool gerðu slíkt hið sama. Ekki var mikill glæsibragur yfir fyrsta mark Xabi á leiktíðinni en það gat ekki komið á betri tíma! Óskabyrjun fyrir Liverpool! Chelsea reyndi að herja á mark Liverpool en ekkert að skapa sér færi. Fimm mínútum eða svo eftir markið náði Albert Riera að leika inn á vítateiginn vinstra megin en hann skaut í hliðarnetið. Á 23. mínútu átti Steven Gerrard hörkuskot með vinstri af um 25 metra færi en Petr var vel á verði og sló boltann yfir. Chelsea var mikið með boltann fram að leikhléi en náðu engu færi. Á 36. mínútu kom besta færi heimamanna þegar Steven missti boltann við miðjuna. Deco lék upp að vítateignum en skot hans fór framhjá. Liverpool hélt sínu fram að hálfleik án mikilla vandræða.
Chelsea var sem fyrr meira með boltann eftir leikhlé en vörn Liverpool var frábær og fyrir framan hana braut mikið á Javier Mascherano. Sóknir Liverpool voru í raun hættulegri og þær urðu enn beittari þegar Ryan Babel kom til leiks á 60. mínútu. Mínútu síðar á 61. mínútu fékk Liverpool aukaspyrnu um 30 metra frá markið. Xabi tók hana en heppnin var ekki með honum því skot hans hafnaði í stöng og Chelsea slapp með skrekkinn. Það var kannski til of mikils ætlast að Xabi næði að skora tvö mörk í sama leiknum! Chelsea fékk loks gott færi á 73. mínútu. Frank Lampard sendi inn á teiginn. Varamaðurinn Di Santo skallaði boltann niður fyrir fætur Ashley Cole sem fékk boltann óvaldaður í upplögðu færi en skot hans var mislukkað og fór framhjá. Ryan var mjög ógnandi og þrumuskot hans utan teigs, þegar rúmlega tíu mínútur voru, eftir fór rétt framhjá. Sókn Chelsea var þung undir lokin en vörn Liverpool var sem fyrr þétt fyrir. Sami Hyypia kom svo til leiks á lokamínútunni. Finninn lagði sitt af mörkum með því að skalla fjórum sinnum frá á áður en dómarinn flautaði til leiksloka. Magnaður sigur var staðreynd og það var ekki að undra þótt stuðningsmenn Liverpool fögnuðu innilega þegar flautað var til leiksloka. Þetta var jú bara annar sigur Liverpool á Brúnni frá því Liverpool varð síðast enskur meistari. Rafael Benítaz sagði fyrir leikinn að Liverpool þyrfti fullkominn leik til að vinna í dag. Það gekk eftir!
Chelsea: Cech, Bosingwa (Sinclair 84. mín.), Carvalho, Terry, Ashley Cole, Mikel, Kalou (Di Santo 58. mín.), Deco, Lampard, Malouda (Belletti 58. mín.) og Anelka. Ónotaðir varamenn: Cudicini, Ivanovic, Ferreira og Alex.
Gul spjöld: Florent Malouda, Ashley Cole og Deco.
Liverpool: Reina, Arbeloa, Carragher, Agger, Aurelio, Alonso, Mascherano, Kuyt (Leiva 88. mín.), Gerrard, Riera (Hyypia 90) og Keane (Babel 60. mín.). Ónotaðir varamenn: Cavalieri, Dossena, Benayoun og Pennant.
Gul spjöld: Alvaro Arbeloa, Steven Gerrard og Javier Mascherano.
Mark Liverpool: Xabi Alonso (10. mín.).
Áhorfendur á Stamford Bridge: 41.705.
Maður leiksins: Jamie Carragher. Jamie átti stórbrotinn leik í hjarta varnar Liverpool. Jamie hefur oft leikið vel gegn Chelsea á síðustu leiktíðum og þessi framganga hans var í ætt við margar þær sem hann hefur sýnt. Hann barðist einsog ljón og braut fjölmargar sóknir Chelsea á bak aftur. Frábær leikur hjá þessum magnaða leiðtoga.
Rafael Benítez: Við sýndum í dag að við búum yfir réttu hugarfari og miklum skapstyrk. Leikmenn mínir eiga hrós skilið því þeir léku virkilega vel. Lykill að sigursælu liði er að hafa góða leikmenn sem eru tilbúnir að leggja mikið á sig. Stuðningsmenn okkar stóðu þétt við bakið á okkur eins og þeir eru vanir. Þetta var frábær dagur fyrir þá og alla sem tengjast félaginu.
Fróðleiksmolar: - Liverpool er eina liðið sem er ósigrað í efstu deild á Englandi. - Xabi Alonso skoraði sitt fyrsta mark á leiktíðinni. - Liverpool varð fyrst liða til að vinna deildarsigur á Stamford Bridge í 86 leikjum. - Arsenal var síðasta liðið til að vinna deildarsigur á Stamford Bridge þegar liðið vann þar 2:1 í febrúar 2004.
Hér eru myndir úr leiknum af Liverpoolfc.tv.
-
| Heimir Eyvindarson
Ofurhetja í uppbótartíma -
| Heimir Eyvindarson
Nunez tryggði mikilvægan sigur á Brentford -
| Heimir Eyvindarson
Brentford-Liverpool -
| Sf. Gutt
Áfram með smjörið! -
| Sf. Gutt
Jafnglími! -
| Heimir Eyvindarson
Af hverju er okkur illa við Nottingham Forest? -
| Sf. Gutt
Fyrsta tapið! -
| Sf. Gutt
Darwin í banni -
| Sf. Gutt
Dregið í FA bikarnum -
| Sf. Gutt
Auðvelt áframhald!