| Grétar Magnússon

Markið er mitt

Xabi Alonso er hæstánægður með að vera sá maður sem átti hvað mestan þátt í því að endir var bundinn á 86 taplausa leiki Chelsea á Stamford Bridge.  Hann segir að ekkert annað komi til greina en að hann verði skráður fyrir markinu.

Alonso skoraði eftir aðeins 10 mínútur, liðið hélt svo út það sem eftir lifði leiks og náði aðeins sínum öðrum sigri gegn Chelsea á útivelli síðan 1990.  Þetta var fyrsta mark hans á tímabilinu og þó svo að skotið hafi farið í Jose Bosingwa og þaðan í markið vill hann alls ekki að markið verði skráð sem sjálfsmark.

,,Þetta var mitt mark," sagði Alonso við blaðamenn á Stamford Bridge.  ,,Skotið var á leiðinni á markið þegar það fór varnarmanninn en svona getur gerst, þetta er hluti af knattspyrnunni.  Maður verður að lifa við svona hluti þegar þeir gerast hjá manni sjálfum og líka þegar maður fær svona mark á sig sjálfur."

,,Ég hefði líka getað skorað annað mark þegar boltinn fór í stöngina en það mikilvægasta var að ná í þrjú stig.  Það var mikilvægt fyrir okkur vegna þess að undanfarin tímabil í deildinni höfum við komið hingað og ekki náð góðum úrslitum.  Við erum því hæstánægðir með að hafa náð góðum úrslitum og þremur stigum."

Þetta var líklega besta frammistaða liðsins á tímabilinu og það þurfti ekki neitt minna til ef það ætti að rjúfa sigurgöngu Chelsea á sínum eigin heimavelli.  Þetta var fyrsti sigur á Chelsea síðan 2004 og Alonso segir að leikmennirnir hafi alltaf haft trú á því að þeir gætu náð góðum úrslitum á Brúnni.

,,Við höfðum ávallt trú á því að við gætum sigrað hér en við vissum að þyrftum að leggja mjög hart að okkur og að þetta yrði mjög erfitt.  Í fyrri hálfleik var þetta sérstaklega erfitt vegna þess að þeir spiluðu mjög góðan bolta og við áttum í smávægilegum vandræðum það hversu hreyfanlegir þeir voru."

,,En í seinni hálfleik vorum við mun betri og náðum að stjórna leiknum betur jafnvel þó að við náðum ekki að nýta okkur nokkur færi sem við fengum til að skora mark númer tvö til að klára leikinn.  Þetta var frábær sigur en þetta eru bara þrjú stig.  Þessi þrjú stig eru jafn mikilvæg og stigin þrjú gegn Wigan og stigin þrjú sem eru í boði gegn Portsmouth á miðvikudaginn - þetta gidlir allt jafn mikið."

Þetta var fyrsta tap Felipe Scolari og hans manna í deildinni.  Alonso er að sjálfsögðu ánægður með að vera á toppi deildarinnar en hann segir að menn verði þó að halda einbeitingunni þegar þeir mæta stjóralausu liði Pompey.

,,Liðið lagði hart að sér, maður verður að leggja hart að sér sem lið til að ná úrslitum á stöðum sem þessum og þetta er ein af okkar sterku hliðum.  Þegar allir eru vinnusamir þá á maður möguleika á því að vinna alla.  Það var mikilvægt að skora fyrst vegna þess að við vissum að það yrði erfitt að koma til baka í svona leik.  Núna hugsum við um miðvikudaginn og höldum ró okkar.  Við erum atvinnumenn og vitum sem er að það er mikið eftir."

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan