| Grétar Magnússon

Allra augu eru á okkur

Rafa Benítez veit að allra augu eru á Liverpool í næstu leikjum því fólk vill sjá hvernig liðið bregst við því að vera á toppi deildarinnar.

Eftir góðan sigur á Chelsea á sunnudaginn er Liverpool nú eitt á toppi deildarinnar en fram að því höfðu liðin tvö deilt efsta sætinu.  Benítez veit sem er að margir bíða eftir því að liðið misstígi sig, hann vill því fá hámarks einbeitingu frá sínum mönnum gegn Portsmouth í kvöld og gegn Tottenham um helgina.

,,Þetta er mikilvæg vika fyrir okkur vegna þess að við erum, í fyrsta sinn, á toppnum í deildinni.  Allir eru að bíða eftir því hvernig við bregðumst við," sagði stjórinn.  ,,Við erum að fara að spila við tvö erfið lið með góða leikmenn og við verðum að einbeita okkur bara að þessum leikjum og þremur stigum - engu öðru."

,,Að vinna Manchester United og Chelsea hefur sýnt þann karakter sem liðið býr yfir.  Ég get ekki dregið dul á það - við vitum hversu erfitt það er að vinna titla og við verðum að halda áfram.  Ef maður vill halda sér á toppnum þá verður maður að vinna næsta leik.  Liðið er að spila vel og hefur sjálfstraust, en eins og með allt annað, þá verðum við bara að undirbúa okkur undir næsta leik."

Benítez notaði einnig tækifærið og hrósaði Xabi Alonso sem hefur spilað mjög vel það sem af er tímabili þrátt fyrir að hafa verið þrálátlega orðaður við brottför frá félaginu í sumar.

,,Hann er að sýna þau gæði sem hann býr yfir.  Við höfum alltaf rætt um góðan leikmann og góðan atvinnumann.  Það sama gildir um Crouch.  Þetta eru leikmenn sem ég keypti vegna þess að þeir eru góðir.  Núna er Alonso að sýna karakter og góða spilamennsku, samkeppnin um stöður í liðinu er góð fyrir hópinn og liðið í heild."

,,Hann er að spila vel.  Þegar liðið spilar vel, er það venjulegt að leikmenn spili vel.  Það er líka hægt að tala um að Gerrard hafi bætt sig eða Riera eða Mascherano."

Varðandi þau mál sem hafa komið upp hjá Portsmouth undanfarna daga þar sem Tony Adams hefur verið ráðinn í stað Harry Redknapp sagði Benítez:  ,,Það hefur komið á óvart að við séum að mæta nýjum stjóra, en ég óska samt Tony Adams góðs gengis.  Ég vona að hann standi sig vel, eftir leikinn við okkur."

Benítez vottaði svo Juande Ramos, fyrrverandi stjóra Tottenham, samúð sína fyrir að hafa verið rekinn úr starfi sínu.

,,Það er alltaf sorglegt þegar menn eru að missa vinnuna.  Svona er fótboltinn en þegar maður er í þessari stöðu þá er það leiðinlegt því menn hafa verið að gera sitt allra besta og lagt hart að sér.

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan