Fyrirliðinn tryggði nauman sigur
Liverpool hélt toppsætinu í deildinni eftir að Liverpool vann nauman 1:0 sigur á bikarmeisturum Portsmouth á Anfield Road. Steven Gerrard tryggði sigurinn dýrmæta með marki úr vítaspyrnu. Sigurinn var naumur þrátt fyrir mikla sókn Liverpool á köflum en stigin þrjú voru fyrir öllu.
Það var vitað mál að toppliðið ætti erfitt verkefni fyrir höndum í kvöld. Það kom líka í ljós í rigningunni í Liverpool að gestirnir ætluðu að verjast eins vel og lengi og nokkur kostur væri. Varnarmeistarinn Tony Adams stillti liði Pompey upp með það í huga og Peter Crouch, sem sneri heim á fornar slóðir, var einn í sókninni hjá Pompey. Rafael Benítez vissi að risinn yrði með og tefldi Sami Hyypia honum til höfuðs. Leikmenn Liverpool byrjuðu af miklum krafti og það var greinilegt að það átti að reyna að skora snemma. Strax á fyrstu mínútunni fékk Dirk Kuyt gott færi eftir horn en hann skaut hátt yfir. Tíu mínútum seinna fékk Dirk boltann frá Jermaine Pennant hægra megin utan teigs og þrumaði að marki en David James varði mjög vel með því að slá boltann í stöng. Mínútu síðar fékk Liverpool hornspyrnu. Lucas Leiva var óvaldaður á teignum en skallaði yfir úr upplögðu færi.
Bikarmeistararnir komust varla fram fyrir miðju fyrstu tuttugu mínúturnar en um miðjan hálfleikinn fékk Papa Bouba Diop upplagt skallafæri í miðjum teig eftir fyrirgjöf frá Sean Davis en hann skallaði sem betur fer laust beint á Jose Reina. Liverpool herti róðurinn á ný síðari hluta hálfleiksins. Eftir hálftíma þrumaði Jamie Carragher utan teigs en skot hans fór beint á David. Tíu mínútum seinna komst Dirk inn á teig hægra megin eftir góða sendingu frá Steven Gerrard. Fast skot Hollendingsins fór í hliðarnetið. Á lokamínútum hálfleiksins fékk Liverpool tvö færi. Fyrst átti Steven fast skot sem David varði. Hann hélt ekki boltanum en málinu var bjargað. Svo fékk Alvaro Arbeloa boltann utarlega rétt utan teigs. Hann skaut fallegu bogaskoti en boltinn fór rétt framhjá fjærstönginni. Ekkert hafði því verið skorað eftir fyrri hálfleikinn.
Það var sama uppi á teningnum í síðari hálfleik nema hvað Liverpool fékk færri færi. Það var ekki fyrr en eftir klukkutíma sem mark Portsmouth komst í hættu. Finnska goðsögnin Sami Hyypia, sem átti frábæran leik, skallaði þá hárfínt framhjá eftir hornspyrnu. Stuðningsmenn Liverpool hvöttu sína menn áfram til dáða og sú hvatning skilaði góðum sóknarþunga þegar um tuttugu mínútur voru eftir. Xabi Alonso átti langskot á 70. mínútu sem fór framhjá. Þremur mínútum síðar sendi Steven frábæra stungusendingu fram á Yossi Benayoun sem var kominn til leiks sem varamaður. Ísraelsmaðurinn lék inn á teiginn og var kominn í gott færi en varnarmaður komst fyrir skot hans á síðustu stundu. Mínútu síðar þrumaði Fabio Aurelio að marki utan vítateigs en David varði í horn. Fabio tók hornspyrnuna og sendi fyrir. Sami stökk upp við nærstöngina með Papa Bouba Diop sem af einhverjum óskiljanlegum ástæðum sló boltann með hendi aftur fyrir endamörk. Dómarinn dæmdi auðvitað vítaspyrnu. Steven tók hana og skoraði með öruggu skoti neðst í vinstra hornið. David henti sér í rétt horn en boltinn lá í netinu og loksins gátu stuðningsmenn Liverpool fagnað marki. Það sem eftir lifði leiks gerðist fátt títt. Gestirnir reyndu að sækja en vörn Liverpool var örugg. Það mátti þó litlu muna fimm mínútum fyrir leikslok þegar sending kom fyrir en Sami var vel á verði og bjargaði í horn. Robbie Keane kom inn fyrir Steven á lokamínútunni og litlu munaði að hann skoraði í síðustu sókninni þegar hann komst inn á teig en skot hans fór framhjá. Dómarinn flautaði svo af, Liverpool vann og hélt toppsætinu. Það var fyrir öllu!
Liverpool: Reina, Arbeloa, Hyypia, Carragher, Aurelio, Pennant (Benayoun 63. mín.), Alonso, Leiva, Babel (Riera 71. mín.), Gerrard (Keane 90. mín.) og Kuyt. Ónotaðir varamenn: Cavalieri, Dossena, Agger og Mascherano.
Mark Liverpool: Steven Gerrard, víti, (76. mín.).
Portsmouth: James, Pamarot, Kaboul, Distin, Belhadj, Utaka (Defoe 85. mín.), Davis, Diop, Diarra (Hughes 80. mín.), Armand Traore (Kranjcar 64. mín.) og Crouch. Ónotaðir varamenn: Ashdown, Kanu, Mvuemba og Hreiðarsson.
Gul spjöld: Lassana Diarra og Papa Bouba Diop.
Áhorfendur á Anfield Road: 43.378.
Maður leiksins: Steven Gerrard. Fyrirliðinn var mjög duglegur og fór fyrir sínum mönnum með góðu fordæmi. Hann var maðurinn á bak við allar bestu sóknir Liverpool og var alltaf ógnandi. Steven tók svo ábyrgðina þegar vítaspyrnan kom og skilaði henni í markið eins og þurfti.
Rafael Benítez: Við vissum að þetta yrði erfiður leikur og það var lykilatriði að sýna þolinmæði. Við fengum færi en það þarf að nýta þau. Það má þó ljóst vera að sigurinn var mikilvægri en að spila vel. Það er gott sjálfstraust í liðinu en það er mikið eftir af leiktíðinni. Við ætlum okkur að halda toppsætinu eins lengi og við getum.
Fróðleiksmolar: - Liverpool hefur enn ekki tapað á leiktíðinni og hélt toppsætinu. - Steven Gerrard skoraði sitt fimmta mark á leiktíðinni. - Þetta var þriðja sigurmark hans á leiktíðinni. - Yossi Benayoun lék sinn 60. leik með Liverpool. - Alvaro Arbeloa lék sinn 70. leik með Liverpool.
Hér er myndir úr leiknum af Liverpoolfc.tv.
-
| Heimir Eyvindarson
Ofurhetja í uppbótartíma -
| Heimir Eyvindarson
Nunez tryggði mikilvægan sigur á Brentford -
| Heimir Eyvindarson
Brentford-Liverpool -
| Sf. Gutt
Áfram með smjörið! -
| Sf. Gutt
Jafnglími! -
| Heimir Eyvindarson
Af hverju er okkur illa við Nottingham Forest? -
| Sf. Gutt
Fyrsta tapið! -
| Sf. Gutt
Darwin í banni -
| Sf. Gutt
Dregið í FA bikarnum -
| Sf. Gutt
Auðvelt áframhald!