Fyrsta tapið staðreynd
Liverpool tapaði sínum fyrsta leik á tímabilinu á White Hart Lane og missti þar með toppsætið í deildinni. Það má segja að tapið hafi verið óverðskuldað en leikmenn geta sjálfum sér um kennt.
Þeir rauðu réðu lögum og lofum frá fyrsta flauti og eftir aðeins þrjár mínútur lá boltinn í markinu hjá Tottenham. Robbie Keane sneri þá laglega inní vítateig og lagði boltann á Dirk Kuyt sem skoraði með hnitmiðuðu skoti í markhornið úr þröngu færi. Glæsilegt mark hjá Kuyt og var því vel fagnað.
Tottenham sóttu aðeins í sig veðrið eftir því sem leið á fyrri hálfleikinn en náðu varla að skapa sér umtalsverð marktækifæri. Þeir komust þó í gott færi á 22. mínútu þegar góð fyrirgjöf frá Vedran Corluka sveif framhjá leikmönnum á markteig. Luka Modric átti svo ágætt skot sem Reina varði vel.
Leikmenn Liverpool áttu sín færi og lentu varnarmenn Tottenham í tvígang í vandræðum, fyrst eftir aukaspyrnu Steven Gerrard hægra megin við vítateig en Gomes sló boltann í horn. Uppúr hornspyrnunni mistókst Darren Bent svo að hreinsa frá og hafnaði boltinn í stönginni.
Liverpool byrjuðu síðari hálfleikinn af krafti og hefðu, með smá heppni, átt að gera útum leikinn strax. Fyrst átti Steven Gerrard skot í stöng á 50. mínútu eftir klafs í vítateig Tottenham. Gerrard náði skoti úr teignum en Gomes náði að slæma fingrum í knöttinn sem skaust í stöngina. Örskömmu síðar voru varnarmenn Tottenham værukærir og Robbie Keane stal boltanum, lagði hann út til hægri á Gerrard sem vippaði boltanum yfir Gomes í markinu en því miður skoppaði boltinn ofaná markslánni. Þarna má segja að lukkudísirnar hafi svo sannarlega gengið í lið með Tottenham.
Xabi Alonso fékk einnig gott færi á fjærstöng eftir aukaspyrnu frá vinstri en náði ekki að stýra boltanum í markið. Hann átti svo gott skot rétt framhjá markinu og allt leit út fyrir að annað mark Liverpool væri ekki langt undan.
Leikmenn Tottenham bitu hinsvegar í skjaldarrendur og enn og aftur gekk heppnin í lið með þeim þegar Jamie Carragher varð fyrir því ólani að skalla boltann í eigið mark eftir hornspyrnu frá hægri. Pepe Reina kom engum vörnum við og nú var jafnt á komið með liðunum.
Bæði lið reyndu svo hvað þau gátu til að ná sigri í lokin og því miður þá náðu leikmenn Tottenham að skora markið sem til þurfti. David Bentley átti þá gott skot frá vítateigsjaðrinu vinstra megin, Pepe Reina gerði vel í að slá boltann til hægri en þar náði Didier Zokora boltanum, sendi hann fyrir markið á Roman Pavlyuchenko sem varð á undan Daniel Agger í boltann og skoraði.
Fyrsta tap leiktíðarinnar staðreynd og óhætt að segja að það var frekar sárt fyrir leik- og stuðningsmenn félagsins.
Tottenham Hotspur: Gomes, Assou-Ekotto (Pavlyuchenko 46. mín), King, Woodgate, Corluka, O'Hara (Hutton 46. mín), Huddlestone, Zokora, Bentley, Bent, Modric (Lennon 75. mín). Ónotaðir varamenn: Bale, Campbell, Gunter og Sanchez.
Mörk Tottenham: Jamie Carragher (sjálfsmark 69. mín) og Roman Pavlyuchenko (90. mín).
Gult spjald: Ledley King.
Liverpool: Reina, Dossena, Agger, Carragher, Arbeloa, Riera (Benayoun 78. mín), Alonso, Mascherano, Kuyt, Gerrard, Keane (Babel 61. mín). Ónotaðir varamenn: Cavalieri, Aurelio, El Zhar, Hyypia og Lucas Leiva.
Mark Liverpool: Dirk Kuyt (3. mín).
Gul spjöld: Steven Gerrard og Jamie Carragher.
Maður leiksins: Steven Gerrard. Fyrirliðinn fór fyrir sínum mönnum og barðist vel. Hann var óheppin að skora ekki a.m.k. eitt mark en marksúlurnar komu í veg fyrir það. Reyndist það afdrifaríkt þegar upp var staðið !
Áhorfendur á White Hart Lane: 36.183.
Rafel Benítez: ,,Ég trúi því ekki að við höfum tapað þessum leik. Eftir að hafa spilað vel í fyrri hálfleik byrjuðum við þann síðari með því að eiga fjögur mjög góð færi. Við áttum skot í slá og Kuyt og Alonso fengu góð færi sem þeir nýttu ekki. Það er alltaf mikilvægt að skapa sér færi en maður verður að nýta þau. Við sóttum og sóttum, stjórnuðum leiknum og höfðum yfirhöndina. Ég er mjög vonsvikinn en þetta var mikil óheppni því allir sáu að við vorum betri en þeir."
Fróðleiksmolar: - Þetta var fyrsta tap Liverpool á leiktíðinni. - Dirk Kuyt er nú orðinn markahæstur leikmanna Liverpool á tímabilinu en þetta var hans sjötta mark á tímabilinu. - Hefur hann skorað fjögur mörk í deildinni og tvö í Meistaradeildinni.
Hér eru myndir úr leiknum af Liverpoolfc.tv.
-
| Sf. Gutt
Áramótakveðjur! -
| Sf. Gutt
Verðum að skrifa okkar eigin sögu! -
| Sf. Gutt
Í minningu -
| Sf. Gutt
Jólahugleiðing Arne Slot -
| Sf. Gutt
Gleðileg jól! -
| Sf. Gutt
Af samningamálum Virgil van Dijk -
| Sf. Gutt
Úr leik! -
| Sf. Gutt
Hlýrra uppi í stúku! -
| Sf. Gutt
Dregið í Deildarbikarnum -
| Sf. Gutt
Áfram í Deildarbikarnum