Hugsum ekki um tapið
Þegar Steven Gerrard kom inní búningsherbergið eftir leikinn við Tottenham varð hann vitni að því sem hann hafði vonast til að sjá. Í staðinn fyrir vonsvikin andlit og algera þögn voru allir leikmenn, þjálfarar og annað starfslið að ræða um það hversu mikilvægt væri að bregðast við tapinu á réttan hátt.
,,Ég hef komið inní búningsherbergið eftir tapleiki þar sem enginn segir orð og allir eru virkilega niðurdregnir," sagði Gerrard. ,,En svo var ekki á laugardaginn. Það fyrsta sem stjórinn sagði okkur var að við hefðum gert allt rétt fyrir utan að vinna leikinn og við þyrftum að koma þessum úrslitum út úr hausnum á okkur."
,,Viðbrögð hans endurspegluðust í okkur hinum líka. Við vissum að við hefðum spilað vel og að þetta hefði hreinlega ekki verið okkar dagur og við vildum bara bregðast við á réttan hátt."
Eftir að hafa verið taplausir lengi veit Gerrard sem er að viðbrögð leikmanna við tapinu munu fara langt með að ákveða örlög tímabilsins sem hingað til hefur lofað góðu. Atletico Madrid eru fyrsta liðið sem gefur tækifæri til þess að bregðast við tapinu og Gerrard býst við því að allir geri sitt í því.
,,Við erum að leitast við því að bregðast rétt við. Ég horfði á leikinn aftur og ég held að við getum ekki verið mjög vonsviknir með hann. Ef við hefðum spilað mjög illa eða gert hrikaleg mistök þá hefði þetta verið öðruvísi en ef maður horfir til baka þá réðum við leiknum, sköpuðum okkur færi og spiluðum mjög vel. Það eina sem vantaði var að við værum beittari fyrir framan markið og smá heppni. Ef það er eitthvað sem við höfum lært af þessu þá er það að við megum ekki slaka örlítið á þegar við erum 1-0 yfir og við verðum að klára leikina þegar við höfum tækifæri til þess."
Þegar Liverpool og Atletico mættust fyrir tveim vikum síðan náði Liverpool einmitt forystu með marki frá Robbie Keane í fyrri hálfleik en þegar sjö mínútur voru eftir jafnaði Simao metin. Gerrard fannst mikið til endurkomunnar hjá Atletico koma en hann telur að gæðin í sínu liði séu meiri og því ætti liðið að ná sigri í kvöld og komast nær 16-liða úrslitunum.
,,Þegar maður spilar gegn toppliðunum á Spáni þá veit maður að það verður erfiður leikur. En mér fannst við líklegri sigurvegarar í leiknum og við sýndum það að við vorum betra liðið bróðurpartinn úr leiknum. Þeir náðu marki undir lokin eftir að hafa sett pressu á okkur og þeir hefðu kannski getað stolið sigri undir blálokin. Jafntefli var engu að síður ágæt úrslit fyrir okkur og við reynum að byggja á þeim á heimavelli, sérstaklega eftir vonbrigðin um helgina."
,,Atletico koma á Anfield og leitast eftir því að ná góðum úrslitum en við erum á heimavelli og erum að spila vel þannig að það er engin ástæða fyrir því af hverju við ættum ekki að ná sigri og komast í 10 stig."
Öll umræðan fyrir leikinn á Spáni snerist um Fernando Torres og þá staðreynd að hann myndi missa af leiknum vegna meiðsla. Gerrard hlakkar hinsvegar til þess að hitta tvo fyrrverandi leikmenn Liverpool á Anfield í kvöld. Luis Garcia og Florent Sinama Pongolle voru mikils metnir á Anfield eftir það sem þeir gerðu fyrir liðið á leiðinni til sigurs í Meistaradeildinni árið 2005 og báðir vonast þeir eftir því að vera í byrjunarliði Atletico í kvöld. Gerrard er ekki í vafa um að þeir fái góðar móttökur stuðningsmannana á Anfield en hann vonast þó til þess að það verði það eina góða við leikinn fyrir þá.
,,Stuðningsmennirnir sýndu það þegar Peter Crouch kom aftur að þeir gleyma ekki leikmönnum sem hafa þjónað félaginu vel og ég er viss um að það sama gildir um Luis og Flo. Luis skoraði mikilvæg mörk fyrir okkur og ég held að enginn gleymi því, sérstaklega þau sem hann skoraði gegn Chelsea og Juventus. En það má ekki gleyma framlagi Pongolle heldur vegna þess að hann kom inná gegn Olympiakos og gerði gæfumuninn."
,,Hann skoraði mark og var hluti af því að við komum til baka þegar allt leit út fyrir að við værum á leiðinni í Evrópukeppni félagsliða. Ég er því viss um að þeir fái góðar móttökur en vonandi verður það það eina sem þeir taka með sér heim úr leiknum."
Vinni Liverpool leikinn má búast við því að stemmningin í búningsherberginu verði aðeins betri en á laugardaginn en það er þó líklegt að sigurviljinn verði áfram sá sami.
,,Svona hefur þetta alltaf verið hjá stóru félagi eins og Liverpool. Pressan um að ná góðum úrslitum er alltaf til staðar en við myndum ekki vilja hafa þetta öðruvísi."
-
| Sf. Gutt
Hlýrra uppi í stúku! -
| Sf. Gutt
Dregið í Deildarbikarnum -
| Sf. Gutt
Áfram í Deildarbikarnum -
| Mummi
Miðasala á Liverpool – Ipswich og Liverpool – West Ham -
| Mummi
Seinkun á jólagjöf -
| Sf. Gutt
Af samningamálum Trent Alexander-Arnold -
| Sf. Gutt
Jafntefli manni færri! -
| Sf. Gutt
Enn nær Mohamed Salah merkum áfanga! -
| Sf. Gutt
Sögulegur sigur! -
| Sf. Gutt
Sigur á Spáni