Öruggur sigur og toppsætið tekið!
Liverpool vann öruggan 3:0 sigur á W.B.A. nú undir kvöldið á Anfield Road. Liðið lék vel og sigurinn hefði getað verið stærri en mestu skipti að hann kom Liverpool í efsta sæti deildarinnar. Robbie Keane skoraði sín fyrstu deildarmörk fyrir uppáhaldsliðið sitt.
Fyrir leik var mínútu þögn til að minnast þeirra sem hafa látist í styrjöldum en 11. nóvember er svokallaður Minningardagur á Bretlandi. Þann dag lauk Fyrri heimsstyrjöldinni. Leikurinn byrjaði rólega og gestirnir voru hinir bröttustu og spiluðu oft vel. Fyrsta færið kom ekki fyrr en á 13. mínútu. Javier Mascherano laumaði þá boltanum inn á vítateiginn þar sem Robbie Keane kom og skaut viðstöðulaust en boltinn fór beint á Scott Carson fyrrum leikmann Liverpool. Enn gerðist fátt fyrr en á 29. mínútu en þá komst Yossi Benayoun í gott færi. Scott varði frá honum en hélt ekki boltanum sem hrökk í höndina á Jonas Olsson. Dómarinn dæmdi þó ekki vítaspyrnu eins og leikmenn Liverpool vildu fá.
Það var svo á 34. mínútu sem Liverpool skoraði fyrsta markið. Liverpool sótti þá upp vinstra megin. Fabio Aurelio sendi á Steven Gerrard sem sendi frábæra sendingu inn á vítateiginn. Þar kom Robbie og lyfti boltanum laglega yfir Scott sem kom út á móti honum. Frábærlega afgreitt hjá Íranum sem þarna skoraði sitt fyrsta deildarmark fyrir uppáhaldsliðið sitt. Hann þagnaði líka niður í stuðningsmönnum W.B.A. sem voru búnir að baula á hann allan leikinn. Ástæðan fyrir því er sú að Robbie lék áður fyrr með Úlfunum sem eru helstu óvinir W.B.A.! Baulið minnkaði mikið eftir þetta! Á 39. mínútu átti Javier, sem lék mjög vel, gott skot utan teigs en boltinn fór beint á Scott. Tveimur mínútum fyrir leikhlé gerði Liverpool út um leikinn eftir frábæra skyndisókn. W.B.A. átti þá hornspyrnu. Javier náði boltanum eftir hana og renndi honum fram á Fabio Aurelio. Hann sendi svo frábæra sendingu fram á Robbie sem geystist upp að teignum vinstra megin. Scott kom út úr markinu en Robbie lék hann hann, við vítateiginn, og renndi svo boltanum í autt markið. Frábært mark! Staðan var því hin besta þegar flautað var til hálfleiks í rigningunni.
Síðari hálfleikurinn var lengst af tíðindalítill. Snemma í hálfleiknum átti Borja Valero langskot sem Jose Reina varði af öryggi og var þetta í síðasta sinn sem gestirnir ógnuðu marki Liverpool af einhverju gagni. Liverpool fékk svo sem ekki mörg færi en mikill fögnuður braust út á 72. mínútu. Robbie var þá skipt út af og Fernando Torres kom til leiks eftir meiðsli. Robbie var fagnað vel fyrir gott dagsverk og hann mátti sannarlega vera sáttur. Segja mætti að allt gengi af göflunum þegar Fernando kom inn á. Hann ógnaði markinu tíu mínútum fyrir leikslok en Scott varði skot hans. Allt leit út fyrir að mörkin yrðu ekki fleiri en það var eitt eftir og það kom á lokamínútunni. Alvaro Arbeloa braust þá inn á teiginn. Dirk sendi boltann á hann og Spánverjinn smellti boltanum upp í vinkilinn fjær fyrir framan The Kop og það með vinstri færi. Glæsilega gert hjá Alvaro sem hefur leikið vel á leiktíðinni. Markið mátti ekki koma seinna því dómarinn flautað til leiksloka rétt eftir að boltinn hafnaði í markinu. Góður endir á góðum degi! Það er alltaf gaman að vera í efsta sætinu!
Liverpool: Reina, Arbeloa, Agger, Carragher, Aurelio, Benayoun, Mascherano, Gerrard (Alonso 80. mín.), Riera (Babel 65. mín.), Keane (Torres 72. mín.) og Kuyt. Ónotaðir varamenn: Cavalieri, Hyypia, Insua og El Zhar.
Mörk Liverpool: Robbie Keane (34. og 43. mín.) og Alvaro Arbeloa (90. mín.).
Gul spjöld: Alvaro Arbeloa og Javier Mascherano.
West Bromwich Albion: Carson, Zuiverloon, Olsson, Donk, Robinson, Koren, Borja Valero, Greening, Kim (Teixeira 56. mín.), Bednar (Moore 56. mín.) og Miller (Brunt 71. mín.). Ónotaðir varamenn: Kiely, Hoefkens, Dorrans og Pele.
Gult spjald: Jonas Olsson.
Áhorfendur á Anfield Road: 43.451.
Maður leiksins: Robbie Keane. Írinn skoraði sín fyrstu deildarmörk fyrir uppáhaldsliðið sitt. Robbie lék alveg jafn vel og hann hefur gert frá því hann kom til Liverpool. Hann hljóp og barðist út um allan völl en nú skoraði hann líka!
Rafael Benítez: Það voru allir að tala um að við yrðum að sýna hvað í okkur býr eftir leikinn við Tottenham. Við áttum ekki skilið að tapa þeim leik því við spiluðum vel og það gerðum við aftur í dag. Nú skoruðum við þrjú mörk og hefðum getað skorað fleiri. Við erum í efsta sæti deildarinnar og við ætlum að reyna að vera þar sem lengst.
Fróðleiksmolar: - Liverpool komst með sigrinum í efsta sæti deildarinnar. - Robbie Keane hefur nú skorað fjögur mörk á leiktíðinni.
Hér eru myndir úr leiknum af Liverpoolfc.tv.
-
| Sf. Gutt
Alisson farinn að æfa -
| Sf. Gutt
Landsleikjafréttir -
| Sf. Gutt
Harvey farinn að æfa -
| Sf. Gutt
Ungliðar lánaðir -
| Sf. Gutt
Virgil fékk frí -
| Sf. Gutt
Landsleikjafréttir -
| Sf. Gutt
Georginio Wijnaldum fer víða -
| Sf. Gutt
Tveir uppaldir í enska landsliðinu -
| Sf. Gutt
Trent meiddur -
| Sf. Gutt
Heilsteypt lið!