Deildarbikarmeistararnir slógu Liverpool út
Deildarbikarmeistarar Tottenham Hotspur halda vörn sinni á bikarnum áfram eftir að hafa slegið Liverpool út úr keppninni 4:2 á White Hart Lane. Þetta er annað tap Liverpool fyrir Spurs á skömmum tíma núna í nóvember.
Rafael Benítez tefldi fram nokkuð sterku liði en aðeins Daniel Agger var í liðinu af þeim sem hófu leikinn gegn West Bromwich Albion um helgina. Fernando Torres var í byrjunarliðinu en Rafa hafði sagt fyrir leikinn að hann þyrfti að liðka sig eftir meiðslin. Deildarbikarmeistararnir ætluðu sér greinilega ekki að tapa bikarnum í kvöld og lið þeirra var að mestu skipað sterkustu mönnum sem völ var á. Það var strax hraði í leiknum en fátt gerðist uppi við mörkin. Eftir tæplega tuttugu mínútur kom fyrsta færið þegar Aaron Lennon fékk boltann í upplögðu færi en Daniel Agger bjargaði frábærlega með henda sér fyrir boltann. Það leit nú eiginlega ekki út fyrir að neitt yrði skorað í fyrri hálfleik þangað til allt varð vitlaust undir lok hálfleiksins. Á 38. mínútu svaf Sami Hyypia aðeins á verðinum þannig að Fraizer Campbell náði að koma boltanum fyrir markið frá endamörkum vinstra megin. Boltinn fór til Roman Pavlyuchenoko og Rússinn skoraði af öryggi enda óvaldaður fyrir miðju marki. Fjórum mínútum seinna versnaði ástandið þegar Jamie O´Hara sendi langa sendingu fram. Diego Cavalieri kom út úr markinu og ætlaði að hirða boltann en Andrea Dossena hljóp hann um koll og Fraizer skoraði í autt markið. Hroðalegur varnarleikur svo ekki sé meira sagt. Enn versnaði ástandið á lokamínútu hálfleiksins. Aaron sendi þá fyrir og Fraizer skallaði í markið. Andrea, sem átti hroðalegan leik, var aftur í sök. Reyndar léku báðir bakverðirnir mjög illa þannig að vængmenn Spurs gátu vaðið upp kantana að vild. En stuðningsmenn Spurs trúðu vart sínum eigin augum og fögnuðu gríðarlega þegar flautað var til leikhlés.
Liverpool hóf síðari hálfleikinn af krafti og á 49. mínútu vannst hornspyrna. Ryan Babel sendi fyrir markið og Damien Plessis náði að skalla í mark úr erfiðri aðstöðu rétt við markteiginn. Þetta var fyrsta mark Frakkans fyrir Liverpool. Markið færði Liverpool svolitla von en hún lifði stutt. Þremur mínútum síðar skoraði Roman sitt annað mark og enn og aftur var vörn Liverpool grátt leikin. Stuðningsmönnum Liverpool leist skiljanlega ekki á því heimamenn virtust geta skorað enn fleiri mörk. Á 56. mínútu fannst Rafael Benítez að Fernando Torres væri búinn að liðka sig nóg og skipti honum af velli fyrir Emiliano Insua. Liverpool náði að laga stöðuna á 63. mínútu og aftur var skorað eftir horn frá Ryan Babel. Sami Hyypia skallaði í mark af stuttu færi eftir glórulaust úthlaup Heurelho Gomes í markinu. Markmaðurinn meiddist svo illa á höfði eftir samstuð við Phillipp Degen og var borinn af velli. Á 79. mínútu komst Roman í gott færi en Diego varði vel. Liverpool hefði svo átt að fá vítaspyrnu átta mínútum fyrir leikslok. Gareth Bale felldi þá Philipp inni í vítateig en dómarinn dæmdi ekkert! Stephen Darby skipti við Philipp rétt á eftir og lék þar með sinn fyrsta leik með Liverpool. Níu mínútum var bætt við en ekkert var skorað á þeim tíma og Deildarbikarmeistararnir halda vörn sinni áfram. Leikmenn Liverpool geta einbeitt sér að öðrum verkefnum en það er ekki víst að ýmsir, sem léku í kvöld, taki mikinn þátt í þeim verkefnum!
Tottenham Hotspur: Gomes (Cesar 74. mín.), Hutton, Dawson, Corluka, Bale, Lennon, Zokora, Huddlestone, O´Hara, Pavlyuchenko (Boateng 90. mín.) og Campbell (Bent 90. mín.). Ónotaðir varamenn: Bentley, Modric, Gunter og Rocha.
Mörk Tottenham: Roman Pavlyuchenko (38. og 52. mín.) og Fraizer Campbell (42. og 45. mín.)
Gul spjöld: Roman Pavlyuchenko og Fraizer Campbell.
Liverpool: Cavalieri, Dossena, Hyypia, Agger, Degen (Darby 84. mín.), Babel, Leiva Lucas, Ngog, Plessis (Alonso 66. mín.), Torres (Insua 56. mín.) og El Zhar. Ónotaðir varamenn: Gulacsi, Riera, Benayoun og Carragher.
Mörk Liverpool: Damien Plessis (49. mín.) og Sami Hyypia (63. mín.).
Gul spjöld: Damien Plessis, Fernando Torres, Ryan Babel og Lucas Leiva.
Áhorfendur á White Hart Lane: 33.242.
Maður leiksins: Sami Hyypia. Finninn átti sök á fyrsta marki Tottenham en hann bjargaði nokkrum sinnum vel og var besti maðurinn í vörninni sem var reyndar alveg hroðaleg. En Sami skoraði mark og barðist allan tímann og það er meira en hægt er að segja um marga af félögum hans!
Rafael Benítez: Við spiluðum ekki vel og varnarleikurinn var ekki góður. Við einfaldlega verðskulduðum að tapa þessum leik. Við vorum ákveðnari og lékum aðeins betur í síðari hálfleik en við vorum búnir að tapa leiknum í fyrri hálfleik.
Fróðleikspunktar: - Aðra leiktíðina í röð féll Liverpool úr úr Deildarbikarnum í London fyrir ríkjandi Deildarbikarmeisturum. Á síðustu leiktíð tapaði Liverpool 2:0 fyrir Chelsea. - Damien Plessis skoraði sitt fyrsta mark fyrir Liverpool. - Sami Hyypia skoraði sitt fyrsta mark á leiktíðinni. - Stephen Darby lék sinn fyrsta leik með Liverpool.
Hér eru myndir úr leiknum af Liverpoolfc.tv
-
| Heimir Eyvindarson
Ofurhetja í uppbótartíma -
| Heimir Eyvindarson
Nunez tryggði mikilvægan sigur á Brentford -
| Heimir Eyvindarson
Brentford-Liverpool -
| Sf. Gutt
Áfram með smjörið! -
| Sf. Gutt
Jafnglími! -
| Heimir Eyvindarson
Af hverju er okkur illa við Nottingham Forest? -
| Sf. Gutt
Fyrsta tapið! -
| Sf. Gutt
Darwin í banni -
| Sf. Gutt
Dregið í FA bikarnum -
| Sf. Gutt
Auðvelt áframhald!