Bolton lagðir að velli
Liverpool vann góðan útisigur á Bolton um hádegisbilið í dag. Liðið hafði lengst af töluverða yfirburði og sigurinn tryggði toppsætið um stundarsakir.
Rafael Benítez valdi Sami Hyypia í liðið sem miðvörð og setti Jamie Carragher í stöðu hægri bakvarðar. Ástæðan fyrir þessari tilfærslu var sú að Alvaro Arbeloa var í leikbanni. Sami brást ekki og átti stórleik í vörninni. Það gerðist fátt markvert þar til á 22. mínútu en þá náði Liverpool frábærri skyndisókn upp allan völlinn. Hún endaði með góðum samleik þeirra Steven Gerrard og Dirk Kuyt. Steven lagði boltann út á Dirk en bylmingsskot hans hafnaði í þverslá. Eftir þetta réði Liverpool lögum og lofum fram að leikhléi. Yfirburðirnir skiluðu marki á 28. mínútu. Vel útfærð sókn endaði með því að Fabio Aurelio fékk boltann út til vinstri. Hann sendi hárnákvæma sendingu yfir á fjærstöng þar sem Dirk stökk upp og skallaði boltann af mikilli nákvæmni upp í gagnstætt horn. Þetta var geysilega góður skalli hjá Hollendingnum sem lék mjög vel. Tveimur mínútum síðar lagði hann upp algert dauðafæri fyrir Robbie Keane með góðri fyrirgjöf en Robbie hitti ekki boltann úr dauðafæri innan markteigs. Á lokamínútu hálfleiksins gerðist umdeild atvik. Bolton fékk þá hornspyrnu frá vinstri. Boltinn var sendur hátt fyrir markið og Gary Cahill skallaði í markið. Dómarinn dæmdi þó markið umsvifalaust af vegna þess að hann taldi að Jose Reina hefði verið hindraður. Heimamenn voru æfir og töldu markið hafa verið löglegt. Dóminum var auðvitað ekki haggað og sem betur fer í þetta skiptið.
Dómurinn rangláti, sem heimamönnum fannst, blés Bolton baráttuanda í brjóst og liðið hóf síðari hálfleikinn af miklum krafti. Liðið fékk þrjú færi á fyrstu mínútunum. Fyrst, á 48. mínútu, fékk Svíinn Johan Elmander boltann í þröngu færi hægra megin í teignum og þrumaði að marki en Jose Reina varði í horn. Rétt á eftir fékk Bolton aukaspyrnu fyrir utan teig en skot frá Kevin Nolan fór beint á Jose. Besta færið kom svo á 52. mínútu. Varamaðurinn Ricardo Gardner komst þá inn á vítateig og lék á Jose en sem betur fer datt Jamaíkumaðurinn þegar hann ætlaði að skjóta og boltann fór framhjá.
Eftir þessa góðu byrjun Bolton náði Liverpool aftur tökum á leiknum og innkoma Fernando Torres fyrir Robbie Keane gerði gott betra. Hann var aðeins búinn að vera inni á vellinum í þrjár mínútur, á 62. mínútu, þegar hann sendi fyrir markið frá hægri en Steven stýrði boltanum framhjá fyrir opnu marki. En Steven bætti fyrir þetta á 73. mínútu. Fernando náði þá boltanum af varnarmanninum Andy O´Brian við vítateiginn. Hann fór með boltann til hægri þar sem hann lék tvívegis á Andy áður en hann sendi hárnákvæma sendingu fyrir markið. Steven henti sér þar fram og skallaði fallega í mark af stuttu færi. Glæsileg samvinna hjá þeim félögum og nú var sigurinn svo til í höfn. Á 80. mínútu slapp Fernando inn á teig en Jussi Jaaskelainen varði með góðu úthlaupi. Mínútu síðar varð finnski markmaðurinn aftur að taka á honum stóra sínum þegar Xabi Alonso þrumaði að marki utan teigs. Sá finnski varði með tilþrifum. Fjórum mínútum síðar komst Ricardo inn á teig í svipaða stöðu og fyrr í hálfleiknum en hann lyfti nú boltanum yfir. Þremur mínútum fyrir leikslok lék Lucas Leiva, sem kom inn sem varamaður, boltann úti á hægri kantinum. Hann sendi góða sendingu fyrir á Fernando en skot hans fór i stöng og framhjá. Lucas hefði svo átt að skora sjálfur á lokamínútunni en hann skallaði framhjá af stuttu færi. Liverpool hafði því góðan sigur á erfiðum útivelli og skaust í efsta sætið.
Bolton Wanderes: Jaaskelainen, Steinsson, Cahill, Andrew O´Brien, Samuel, Taylor (Smolarek 84. mín.), Nolan, Muamba (Gardner 46. mín.), McCann, Elmander og Davies. Ónotaðir varamenn: Al Habsi, Helguson, Shittu, Basham og Obadeyi.
Gult spjald: Kevin Nolan.
Liverpool: Reina, Carragher, Hyypia, Agger, Aurelio, Alonso, Mascherano, Kuyt (Leiva 84. mín.), Gerrard, Riera (Benayoun 89. mín.) og Keane (Torres 59. mín.). Ónotaðir varamenn: Cavalieri, Dossena, Babel og Darby.
Mörk Liverpool: Dirk Kuyt (28. mín.) og Steven Gerrard (73. mín.).
Gult spjald: Jamie Carragher.
Áhorfendur á Reebok leikvanginum: 24.893.
Maður leiksins: Xabi Alonso. Eins og svo oft á þessari leiktíð þá lék Spánverjinn frábærlega á miðjunni. Hann dreifði boltanum um allar grundir og átti varla misheppnaða sendingu.
Rafael Benítez: Við lögðum hart að okkur og lékum sérlega vel í fyrri hálfleik. Það var hart sótt að okkur í síðari hálfleik og þeir létu finna meira og meira fyrir sér. Þetta snerist um að skora annað mark og gera þannig út um leikinn og það tókst. Það var gott að leggja Bolton, sem hefur verið að leika vel að undanförnu, með tveggja marka mun og við hefðum getað unnið stærri sigur.
Fróðleiksmolar: - Sigurinn færði Liverpool efsta sætið í deildinni. - Dirk Kuyt skoraði sitt sjöunda mark á leiktíðinni. - Steven Gerrard gerði það sömuleiðis. - Fernando Torres lék sinn 60 leik með Liverpool. - Robbie Keane lék sinn 20. leik með Liverpool.
Hér eru myndir úr leiknum af Liverpoolfc.tv.
-
| Sf. Gutt
Áramótakveðjur! -
| Sf. Gutt
Verðum að skrifa okkar eigin sögu! -
| Sf. Gutt
Í minningu -
| Sf. Gutt
Jólahugleiðing Arne Slot -
| Sf. Gutt
Gleðileg jól! -
| Sf. Gutt
Af samningamálum Virgil van Dijk -
| Sf. Gutt
Úr leik! -
| Sf. Gutt
Hlýrra uppi í stúku! -
| Sf. Gutt
Dregið í Deildarbikarnum -
| Sf. Gutt
Áfram í Deildarbikarnum