Andlaust jafntefli
Leikmenn Liverpool voru andlausir gegn Fulham á Anfield Road í dag og sú deyfð skilaði aðeins 0:0 jafntefli. Liverpool fylgir enn Chelsea sem skugginn á toppnum.
Liverpool byrjaði leikinn vel og á fyrstu mínútunum fékk Alvaro Arbeloa frábæra sendingu frá Fabio Aurelio. Spánverjinn sendi inn á Dirk Kuyt en skot hans var ekki gott og fór framhjá. Það varð fljótlega ljóst að leikmenn Liverpool voru hálf kraftlausir og gestirnir færðu sig upp á skaftið jafnt og þétt. Á 20. mínútu fékk Andy Johnson boltann rétt utan teigs en skot hans fór beint á Jose Reina.
Tíu mínútum seinna kom besta færi Liverpool í leiknum. Sending kom inn á teig frá vinstri. Boltinn fór framhjá öllu og öllum og hafnaði hjá Robbie Keane sem var í upplögðu færi. Hann skaut umsvifalaust að marki en Mark Schwarzer gerði sig breiðan í markinu og náði að verða fyrir og bjarga í horn. Þarna fór Robbie illa að ráði sínu og þetta virtist fara illa með sjálfstraust hans en hann sást varla það sem eftir var leiks. Á 35. mínútu tók Bobby Zamore mikinn sprett upp hægri kantinn. Hann komst af harðfylgi framhjá Javier Mascherano við endamörkin og sendi boltann út á Jimmy Bullard. Hann hitti boltann vel en Jose varði meistaralega í horn. Rétt fyrir hálfleik lét Fernando Torres á sér kræla eftir góðan undirbúning Dirk Kuyt en skot hans rétt við teiginn fór beint á Mark í markinu.
Leikmenn Liverpool höfðu greinilega fengið orð í eyra í leikhléinu og það var heldur meiri kraftur í mönnum. Sérstaklega hóf Fernando Torres hálfleikinn vel. Strax á annarri mínútu hálfleiksins átti Fernando skot yfir rétt utan teigs. Á 51. mínútu reif Fernando sig í gegn vinstra megin í teignum en Mark varði skot hans í horn. Liverpool var mikið með boltann en það gekk ekkert að opna vörn gestanna sem var mjög sterk. Stuðningsmenn Liverpool fóru loks að ákalla Xabi Alonso og þeir voru bænheyrðir á 64. mínútu. Mörgum fannst reyndar að hann hefði átt að byrja leikinn. Á 70. mínútu komst Albert Riera inn á teig. Skot hans fór í varnarmann og hrökk út í teiginn. Dirk náði boltanum og þrumaði viðstöðulaust að marki en Mark varði frábærlega í horn. Margir sáu boltann í markinu en Ástralinn stóð vaktina vel. Rétt á eftir varði hann svo skot frá Fabio en sá brasilíski skaut utan teigs. Á 75. mínútu tók Jamie Carragher rispu fram og sendi svo frábæra sendingu út til vinstri á Dirk en Hollendingurinn skaut yfir. Rafel setti þá Ryan Babel og Nabil El Zhar inn á en allt kom fyrir ekki. Þrátt fyrir að vera með boltann mestan hluta lokakaflans náðu leikmenn Liverpool ekki að skapa sér nein færi alvöru færi. Lucas Leiva átti þó vænlegt skot á lokamínútunni sem fór í varnarmann og framhjá. Leiknum lauk því án marka. Slæm úrslit og þá ekki síst vegna þess að hin toppliðin unnu ekki heldur en líklega finnst mönnum í herbúðum allra toppliðanna þetta hafa verið dagur slæmra úrslita.
Liverpool: Reina, Arbeloa, Carragher, Agger, Aurelio, Kuyt (El Zhar 81. mín.), Leiva Lucas, Mascherano (Alonso 64. mín.), Riera (Babel 78. mín.), Keane og Torres. Ónotaðir varamenn: Cavalieri, Dossena, Hyypia og Benayoun.
Fulham: Schwarzer, Pantsil, Hughes, Hangeland, Konchesky, Dempsey (Gera 84. mín.), Bullard (Baird 90. mín.), Murphy, Davies, Johnson og Zamora. Ónotaðir varamenn: Zuberbuhler, Nevland, Gray, Stoor og Kallio.
Áhorfendur á Anfield Road: 43.589.
Maður leiksins: Jamie Carragher. Víst hefur Jamie oft leikið betur en það var helst hann sem sýndi baráttuanda í dag. Hann reyndi hvað hann gat að rífa menn upp úr deyfðinni. Hann stoppaði nokkrar hættulegar sóknir og tók rispur fram völlinn.
Rafael Benítez: Þetta var slæmur dagur. Það var ekki nógu mikill kraftur í liðinu og við spiluðum ekki nógu vel. Svo þegar við komum í búningsherbergið þá fréttum við að Chelsea hefði gert jafntefli og Arsenal hefði tapað. Þetta hefðu verið góð úrslit fyrir okkur ef við hefðum unnið. Ég hugsa þó að í herbúðum Chelsea sé það sama hugsað gegnvart úrslitum hjá okkur og Arsenal.
Fróðleikmolar: - Liverpool er í öðru sæti deildarinnar á markamun á eftir Chelsea. - Fulham hefur aldrei unnið leik á Anfield Road. Þetta var 28. heimsókn liðsins á Anfield.
Hér eru myndir úr leiknum af Liverpoolfc.tv.
-
| Heimir Eyvindarson
Ofurhetja í uppbótartíma -
| Heimir Eyvindarson
Nunez tryggði mikilvægan sigur á Brentford -
| Heimir Eyvindarson
Brentford-Liverpool -
| Sf. Gutt
Áfram með smjörið! -
| Sf. Gutt
Jafnglími! -
| Heimir Eyvindarson
Af hverju er okkur illa við Nottingham Forest? -
| Sf. Gutt
Fyrsta tapið! -
| Sf. Gutt
Darwin í banni -
| Sf. Gutt
Dregið í FA bikarnum -
| Sf. Gutt
Auðvelt áframhald!