Fjarvera Gerrard engin afsökun
Fabio Aurelio telur að það þýði ekki að einblína á fjarveru Steven Gerrard þegar leitað er skýringa á því hvers vegna liðinu mistókst að innbyrða öll stigin þrjú í leiknum gegn Fulham á laugardaginn. Þó að meiðsl Gerrard hafi vissulega sett liðið í vanda vill Aurelio meina að það sé meira en nóg af hæfileikum til staðar í liðinu til að klára leiki sem þennan.
,,Við vorum að leika á heimavelli og það eru einmitt leikir á borð við þennan sem við verðum að vinna", segir Aurelio.
,,Við getum ekki notað fjarveru Gerrard sem afsökun, við spiluðum án Torres í rúman mánuð og héldum áfram að vinna leiki, þannig að við höfum sýnt að við getum náð árangri þó lykilmenn séu ekki til staðar. Við ættum líka að geta unnið þó að Gerrard sé ekki með."
,,Hann er auðvitað frábær leikmaður með mikla reynslu, búinn að leika með liðinu í 10 ár, og er algjör lykilmaður í liðinu. Ég hef aðeins spilað með honum í tvö ár, en mér er alveg fullkomlega ljóst hve mikilvægur hann er fyrir klúbbinn. Ég sé hann erfiða á æfingum á hverjum degi, sé hann leiða liðið út á völlinn, og oftar en ekki klára leikina fyrir okkur. Hann er algjörlega einstakur. Hvert einasta lið í heiminum myndi finna fyrir fjarveru slíks leikmanns, það er augljóst. Samt sem áður getum við ekki notað það sem afsökun fyrir því að hafa ekki klárað leikinn gegn Fulham. Það er of auðveld afsökun fyrir okkur hina."
,,Við höfum unnið leiki án Steven áður og hópurinn er fullur af hæfileikaríkum fótboltamönnum, þannig að þetta á ekki að vera vandamál."
Aurelio viðurkennir að það hafi verið ákveðinn léttir að allir helstu keppinautar liðsins töpuðu einnig stigum um helgina. Arsenal tapaði 3-0 á útivelli gegn Manchester City, Chelsea gerði jafntefli við Newcastle heima og Manchester United gerði jafntefli við Aston Villa. Þessi deyfð toppliðanna gerir það að verkum að Liverpool liðið deilir enn toppsætinu með Chelsea.
Aurelio bætir við: ,,Úrslitin í hinum leikjunum voru léttir fyrir okkur, en samt sem áður vorum við mjög svekktir að hafa þarna misst af gullnu tækifæri til að setjast einir í toppsætið. En við verðum að gera okkur það að góðu að deila toppsætinu eins og er."
,,Það er alltaf erfitt þegar lið koma á Anfield gagngert til að hanga á einu stigi. Í þeim tilfellum er mikilvægt fyrir okkur að ná að skora snemma. Okkur tókst það ekki að þessu sinni og það gerði okkur erfitt fyrir. Eftir því sem fór að líða á leikinn voru menn orðnir hálf örvæntingarfullir, því vonbrigðin voru auðvitað mikil. Samt sem áður vorum við að mínu mati betri í seinni hálfleik, þá stjórnuðum við leiknum betur. Í fyrri hálfleiknum gekk okkur illa að halda spilinu gangandi. Fulham varðist vel og lá mjög aftarlega og því miður hafðist það ekki hjá okkur að brjóta þá á bak aftur."
,,Það er alltaf erfitt að eiga leik eftir landsleikjahrinur. Það riðlar öllum undirbúningi liðsins. En við getum ekki notað það sem afsökun heldur því við erum ekki eina liðið sem missir mannskapinn burt í landsleiki."
Landi Aurelio, miðjumaðurinn Lucas Leiva, sem hóf leikinn gegn Fulham á laugardag á kostnað Xabi Alonso segir að nú sé það skylda liðsins að vinna Marseille í meistaradeildinni á miðvikudaginn. Liðið verði að sýna það og sanna að það geti komið sterkt til baka eftir smá hökt eins og á móti Fulham.
,,Við verðum einfaldlega að hætta að dvelja við Fulham leikinn og einbeita okkur að því að sigra Marseille. Það er ljóst að við verðum að spila betur en á laugardaginn, en við getum þó huggað okkur við það að við erum enn á toppnum. En það breytir því ekki að við verðum að gera miklu betur á miðvikudaginn. Við höfum hreinlega ekki efni á því að leika svona aftur."
-
| Heimir Eyvindarson
Ofurhetja í uppbótartíma -
| Heimir Eyvindarson
Nunez tryggði mikilvægan sigur á Brentford -
| Heimir Eyvindarson
Brentford-Liverpool -
| Sf. Gutt
Áfram með smjörið! -
| Sf. Gutt
Jafnglími! -
| Heimir Eyvindarson
Af hverju er okkur illa við Nottingham Forest? -
| Sf. Gutt
Fyrsta tapið! -
| Sf. Gutt
Darwin í banni -
| Sf. Gutt
Dregið í FA bikarnum -
| Sf. Gutt
Auðvelt áframhald!