Stig færði Liverpool toppsætið
Eitt stig færði Liverpool toppsætið eftir jafntefli gegn West Ham United en nú hafa sex stig farið í súginn á heimavelli í deildinni vegna markaleysis. Liverpool átti leikinn í kvöld með húð og hári en miklir yfirburðir dugðu ekki til að ná sigri. Það er auðvitað óþolandi en Liverpool er núna eitt í efsta sæti deildarinnar. Markaþurrðin þarf þó að lagast og það strax!
Það lá fyrir að eitt stig myndi nægja Liverpool til að ná toppsætinu í deildinni en það var greinilegt að leikmenn Liverpool ætluðu sér öll stigin þrjú. Leikmenn Liverpool byrjuðu af miklum krafti og það virtist aðeins spurning um hvort en ekki hvenær fyrsta markið kæmi. Strax í byrjun hefði Liverpool átt að fá vítaspyrnu þegar Yossi Benayoun, sem lék sinn besta leik á leiktíðinni, reyndi að koma boltanum fyrir markið en boltinn fór í höndina á Herita Ilunga. Sá átti eftir að handleika boltann oft áður en yfir lauk. Hugsanlega hefði hann átt að fá rautt fyrir allar hendurnar!
Á 14. mínútu kom fyrsta hættulega færið. Albert Riera fékk þá boltann eftir að Robert Green hafði átt mislukkað úthlaup. James Collins komst á hinn bóginn fyrir skot hans á markteignum þegar boltinn stefni í autt markið. Tveimur mínútum seinna tók Steven Gerrard horspyrnu frá hægri. Sami Hyypia stökk manna hæst en skalli hans fór rétt yfir. Finninn hefði reyndar átt að hitta markið. Á 22. mínútu tók Steven aftur hornspyrnu frá sama stað. Boltinn fór yfir á fjærstöng þar sem Dirk skallaði boltann til baka á Sami en Carlton Cole bjargaði skalla hans á marklínu. Enn slapp mark West Ham og leikmenn gestanna höfðu varla komist fram fyrir miðju þegar Craig Bellamy var allt í einu næstum búinn að skora á 37. mínútu. Veilsverjinn fékk þá boltann á vallarhelmingi Liverpool. Hann lék að marki og náði svo þrumuskoti af upp undir þrjátíu metra færi. Jose Reina náði ekki til boltans en sem betur fer fór boltinn í stöngina innanverða. Þar slapp Liverpool með skrekkinn. Rétt fyrir hálfleik fékk Liverpool horn frá vinstri. Eftir hornið náði Dirk að skalla við fjærstöngina en Robert varði vel. Ekkert mark hafði því verið skorað þegar flautað var til hálfleiks.
Liverpool hélt áfram sækja eftir leikhléið. Stuðningsmenn Liverpool voru margir farnir að fagna marki á 56. mínútu. Steven sendi þá fyrir markið. Boltinn barst af varnarmanni á Yossi sem náði föstu skoti á markið og boltinn stefndi í það en Robert náði að verja á ótrúlegan hátt með því að slá boltann yfir. Robbie Keane komst svo í þokkalega stöðu en skot hans var slakt og fór víðsfjarri. Íranum, sem náði sér alls ekki á strik frekar en undanfarið, var svo skipt út af fyrir Frakkann David Ngog. Hann setti heldur ekki mark sitt á leikinn. Rétt eftir að David kom til leiks skallaði Carlton rétt framhjá eftir horn. Liverpool sótti og sótti en án árangurs. Andrea Dossena, sem lék sinn besta leik hingað til með Liverpool, átti nokkrar fastar og góðar fyrirgjafir en leikmenn Liverpool voru ekki nógu grimmir í teignum. Ryan Bebel kom svo til leiks þegar tólf mínútur voru eftir. Á 81. mínútu átti Sami skalla sem fór framhjá. Dirk var aðeins of seinn að ná að stýra boltanum í markið. Þegar tvær mínútur voru eftir fékk Dirk gullið færi til að tryggja sigurinn. Hann fékk þá boltann við hægra marteigshornið. Hann drap boltann vel niður en Robert var enn einu sinni vel á verði og varði vel. Luis Boa Morte fékk gott færi hinu megin en skaut framhjá og þar slapp Liverpool. Leikmenn Liverpool máttu sætta sig við jafntefli þrátt fyrir að spila vel á köflum. Jafnteflið var ekki góð niðurstaða og olli miklum vonbrigðum en Liverpool er efst í deildinni. Það er það eina jákvæða eftir einungis tvö stig úr síðustu tveimur heimaleikjum í deildinni og vissulega er jákvætt að sjá Liverpool í efsta sæti deildarinnar!
Liverpool: Reina, Arbeloa, Carragher, Hyypia, Dossena, Benayoun, Gerrard, Alonso, Riera (Babel 78. mín.), Kuyt og Keane (Ngog 66. mín.). Ónotaðir varamenn: Cavalieri, Agger, Mascherano, Leiva og Insua.
Gult spjald: Xabi Alonso.
West Ham United: Green, Neill, Collins, Upson, Ilunga, Faubert (Boa Morte 86. mín.), Parker, Mullins, Behrami, Bellamy og Cole. Ónotaðir varamenn: Noble, Lastuvka, Tristan, Davenport, Collison og Di Michele.
Gult spjald: Hayden Mullins.
Áhorfendur á Anfield Road: 41.169.
Maður leiksins: Sami Hyypia. Finninn kom inn í liðið og sýndi að það er alltaf hægt að treysta á hann. Hann var öruggur í vörninni og ógnandi í sókninni. Hann hefði með smá heppni skorað sigurmarkið.
Rafael Benítez: Við áttum augljóslega skilið að vinna þennan leik. Við reyndum hvað við gátum, frá upphafi til enda, að ná sigri enda áttu þeir bara eina eða tvær skyndisóknir í síðari hálfleik. Liðið lék miklu betur en í síðustu leikjum og nokkrir leikmenn voru líka að spila betur. Fólk er auðvitað vonsvikið og það erum við líka en við erum þó í efsta sæti með eins stigs forystu. Áhorfendur eru gramir yfir því að sjá jafntefli hér á heimavelli en þegar þeir líta í blöðin á morgun sjá þeir að við erum á toppnum í deildinni.
Fróðleiksmolar: - Liverpool er í efsta sæti í deildinni með eins stigs forystu á Chelsea. - Liverpool hefur nú aðeins skorað eitt mark í síðustu þremur heimaleikjum. - West Ham United hefur ekki unnið á Anfield Road frá því árið 1963.
Hér eru myndir úr leiknum af Liverpoolfc.tv.
-
| Heimir Eyvindarson
Ofurhetja í uppbótartíma -
| Heimir Eyvindarson
Nunez tryggði mikilvægan sigur á Brentford -
| Heimir Eyvindarson
Brentford-Liverpool -
| Sf. Gutt
Áfram með smjörið! -
| Sf. Gutt
Jafnglími! -
| Heimir Eyvindarson
Af hverju er okkur illa við Nottingham Forest? -
| Sf. Gutt
Fyrsta tapið! -
| Sf. Gutt
Darwin í banni -
| Sf. Gutt
Dregið í FA bikarnum -
| Sf. Gutt
Auðvelt áframhald!