Góður sigur í Hollandi tryggði sigur í riðlinum
Liverpool sneri tapstöðu í sigur í Hollandi. Liverpool lagði hollensku meistarana PSV Eindhoven að velli 3:1. Sigurinn færði Rauða hernum sigur í riðlinum. Þrír uppaldir leikmenn Liverpool komu inn á sem varamenn og lögðu sitt af mörkum til sigurs.
Rafael Benítez breytti liðinu sínu nokkuð eins og við var búist. Breytingarnar voru í sjálfur sér ekki óvæntar nema hvað David Ngog fékk sæti í byrjunarliðinu. Leikurinn hófst mjög rólega og fátt bar til tíðinda fyrr en á 16. mínútu. Timmy Simons átti þá fast skot utan teigs en boltinn fór beint á Diego Cavalieri sem varði en hann hélt þó ekki boltanum en meiri hætta skapaðist ekki. Heimamenn náði svo forystu upp úr þurru á 36. mínútu. Dómarinn dæmdi þá ranglega hornspyrnu á Andrea Dossena. Boltinn var sendur fyrir frá hægri. Javier Mascherano ætlaði að skalla frá en heppnin var ekki með honum því boltinn hrökk að markinu við vítateigshornið hægra megin. Þar fékk Danko Lazovic boltann og skoraði úr þröngu færi án þess að Diego kæmi vörnum við.
Liverpool hafði ekki leikið vel og fátt benti til að liðið næði að jafna fyrir leikhlé. Á 42. mínútu átti Andrea góða fyrirgjöf á David en skalli franska stráksins var laflaus og fór beint á Andreas Isaksson í markinu. Dómarinn bætti aðeins einn mínútu við venjulegan leiktíma í lok hálfleiksins. Sú mínúta leið í sömu mund og Liverpool fékk aukaspyrnu úti á hægri kanti. Lucas Leiva fékk þó tíma til að taka aukaspyrnuna. Hann sendi góða sendingu inn á teiginn þar sem Ryan Babel stökk hæst og skallaði í jörðina og í vinstra markhornið. Heimamenn voru fjúkandi reiðir enda uppsettur tími liðinn en leikmenn Liverpool fögnuðu innilega! Staðan var því jöfn þegar loksins var flautað til leikhlés og þar slapp Liverpool vel!
Liverpool lék miklu betur eftir leikhlé enda hafði markið sem Ryan Babel fært liðinu byr í seglin. Hann sjálfur hafði líka fengið mikið sjálfstraust og ógnaði vörn PSV hvað eftir annað. Það sköpuðust þó fá færi fyrr en Liverpool skoraði á 69. mínútu. Alvaro vann þá boltann og Lucas fékk hann og kom honum út til vinstri á Albert Riera sem var um 25 metra frá markinu. Spánverjinn hugsaði sig ekki tvisvar um og þrumaði boltanum upp í vinstra hornið án þess að sænski landsliðsmarkmaðurinn ætti möguleika á að verja. Frábært mark hjá Albert sem átti mjög góðan leik. Nú átti Liverpool leikinn en heimamenn voru þó nærri því að jafna eftir hornspyrnu stuttu eftir markið sem kom Liverpool yfir. PSV fékk horn frá vinstri. Boltinn fór yfir á fjærstöng á Dirk Marcellis sem var stutt frá markinu. Hann náði föstu skoti úr þröngu færi en boltinn fór í stöng. Liverpool gulltryggði sigurinn á 77. mínútu. Robbie Keane sendi þá háa og langa sendingu fram völlinn. Sendingin var alveg fullkomin því boltinn fór beint á David Ngog. Frakkinn fékk boltann á miðjum vallarhelmingi PSV og tók á rás. Hann stakk varnarmann af og skoraði svo með skoti undir Andreas frá vítateignum. Mjög vel gert hjá þessum unga strák og gaman fyrir hann að skora sitt fyrsta mark fyrir Liverpool í svona leik. Þegar flautað var til leiksloka voru þrír heimaaldir strákar Stephen Darby, Jay Spearing og Martin Kelly komnir inn á. Þeir Jay og Martin voru að spila í fyrsta sinn með aðalliðinu. Það var magnað að sjá þessa stráka fá að spreyta sig og Stephen virðist vera mjög efnilegur. Vonandi verða þeir nógu góðir til að láta að sér kveða með aðalliðinu á komandi árum. Það hefur örugglega verið sérlega gaman fyrir þremenningana að vera inni á vellinum þegar flautað var til leiksloka og fagna sigri með linu sínu og það mikilvægum sigri!
PSV Eindhoven: Isaksson, Culina, Marcellis, Brechet, Salcido, Mendez (Manco 80. mín.), Simons, Dzsudzsak, Bakkal (Nijland 83. mín.), Lazovic og Amrabat (Koevermans 72. mín.). Ónotaðir varamenn: Cassio, Rodriguez, Pieters og Wuytens.
Mark PSV: Danko Lazovic (36. mín.).
Gul spjöld: Timmy Simons og Edison Mendez.
Liverpool: Cavalieri, Arbeloa (Darby 69. mín.), Carragher (Kelly 81. mín.), Agger, Dossena, Mascherano, Leiva, Babel, Ngog, Riera (Spearing 76. mín.) og Keane. Ónotaðir varamenn: Reina, Gerrard, Alonso og Benayoun.
Mörk Liverpool: Ryan Babel (45. mín.), Albert Riera (69. mín.) og David Ngog (77. mín.).
Gul spjöld: Albert Riera, Alvaro Arbeloa og Andrea Dossena.
Áhorfendur á Phillips leikvanginum: 35.000.
Maður leiksins: Lucas Leiva. Brasilíumaðurinn var mjög sterkur á miðjunni. Hann hefur gjarnan verið nokkuð gagnrýndur en þarna lék hann einn sinn besta leik með Liverpool frá því hann kom til félagsins. Hann lagði svo upp tvö fyrstu mörkin í leiknum. Hann getur sannarlega verið ánægður með sig eftir þennan leik.
Rafael Benítez: Við gátum breytt liðinu mikið fyrir leikinn og allir leikmennirnir sem komu inn í liðið stóðu sig vel. Ég var óánægður með markið sem við fengum á okkur því mér fannst að ekki hefði átt að dæma hornspyrnu. En við sýndum styrk og snerum leiknum okkur í hag. Við ógnuðum svo vel með skyndisóknum. Liðið spilaði vel og það var margt jákvætt í þessum sigri.
Fróðleiksmolar: - Liverpool tryggði sér sigur í D riðli Meistaradeildarinnar. - Rafael Benítez stýrði Liverpool til sigurs í 39. sinn í Evrópuleik. Það er nýtt félagsmet. - David Ngog skoraði sitt fyrsta mark fyrir Liverpool. - Þeir Jay Spearing og Martin Kelly spiluðu í fyrsta sinn með aðalliði Liverpool.
Í hinum leiknum í D riðli skildu Atletico Madrid og Marseille jöfn án marka í Frakklandi. Liverpool vann því riðilinn og Atletico Madrid fylgir með í 16 liða úrslitin. Marseille fer í Evrópukeppni félagslið en PSV Eindhoven hefur lokið keppni á Evrópumótunum á þessari leiktíð.
Lokastaðan í D varð þessi:
Liverpool 6. 4. 2. 0. 11:5. 14
Atletico Madrid 6. 3. 3. 0. 9:4. 12
Marseille 6. 1. 1. 4. 5:7. 4
PSV Eindhoven 6. 1. 0. 5. 5:14. 3
Hér eru myndir úr leiknum af Liverpoolfc.tv.
Hér eru myndir úr leiknum af vefsíðu BBC.
-
| Heimir Eyvindarson
Ofurhetja í uppbótartíma -
| Heimir Eyvindarson
Nunez tryggði mikilvægan sigur á Brentford -
| Heimir Eyvindarson
Brentford-Liverpool -
| Sf. Gutt
Áfram með smjörið! -
| Sf. Gutt
Jafnglími! -
| Heimir Eyvindarson
Af hverju er okkur illa við Nottingham Forest? -
| Sf. Gutt
Fyrsta tapið! -
| Sf. Gutt
Darwin í banni -
| Sf. Gutt
Dregið í FA bikarnum -
| Sf. Gutt
Auðvelt áframhald!