Tveggja stiga forysta á toppnum eftir jafntefli
Góð endurkoma bjargaði stigi fyrir Liverpool þegar liðið gerði 2:2 jafntefli við Hull City í fjörugum leik á Anfield Road. Liverpool jók forystu sína á toppnum en þriðja jafntefli liðsins í deildinni í röð á heimavelli gerði bara tveggja stiga forystu í stað fjögurra.
Leikurinn var frá upphafi fjörugur og boltinn gekk marka á milli og gríðarlegur hraði var í leiknum. Leikmenn Liverpool mættu ákveðnir til leiks en það voru gestirnir sem létu fyrst að sér kveða. Á 5. mínútu komst Nick Barmby, fyrrum leikmaður Liverpool, upp vinstra megin og sendi fyrir markið. Javier Mascherano renndi sér fyrir boltann sem fór í hönd hans en dómarinn dæmdi ekkert. Þar slapp Liverpool vel en það hefði átt að dæma víti. Tígrarnir fóru nú að sýna tennurnar og sjö mínútum seinna lá boltinn í marki Liverpool. Hull fékk aukaspyrnu úti til hægri. Boltinn var sendur fyrir markið þar sem hann barst yfir allt og alla til vinstri. Þar fékk einn leikmaður Hull boltann einn og yfirgefinn og gaf fyrir. Inni á teignum stökk Paul McShane manna hæst og skallaði í mark án þess að Jose kæmi nokkrum vörnum við. Enn liðu tíu mínútur og aftur skoraði Hull. Bernard Mendy stakk þá Andrea Dossena af og gaf fyrir frá hægri. Boltinn fór fyrir markið. Jose missti af honum og fyrir miðju marki ætlaði Jamie Carragher að stýra boltanum frá en þess í stað fór boltinn eigið net. Stuðningsmenn og leikmenn Hull trúðu ekki eigin augum!
Leikmenn Liverpool sögðu nú hingað og ekki lengra. Á 24. mínútu lék Dirk Kuyt upp hægra megin og sendi fyrir markið. Boltinn barst til Steven Gerrard og fyrirliðinn stýrði boltanum neðst í vinstra hornið frá markteignum. Leikmenn Liverpool settu nú allt á fullt og á 32. mínútu kom annað mark. Jamie Carragher, sem var oft framarlega á vellinum í leiknum, sendi þá há sendingu fyrir markið frá hægri. Dirk skallaði boltann niður til baka. Yossi Benayoun kom boltanum á Steven sem smellti honum upp í þaknetið af stuttu færi. Nú var komið að stuðningsmönnum Liverpool að taka gleði sína fyrir alvöru. Á 37. mínútu fékk Albert Riera fékk þá boltann vinstra og þrumaði að marki en skot hans fór rétt framhjá. Tveimur mínútum síðar náði Liverpool hraðri skyndisókn. Javier Mascherano lék upp vinstra megin og sendi fyrir á Yossi sem skaut en varnarmaður komst fyrir á síðustu stundu. Á 42. mínútu lagði Dirk boltann út á Xabi sem fékk boltann rétt utan teigs en skot hans fór hárfínt framhjá. Á lokamínútunni skall hurð enn nærri hælum við mark Hull. Eftir horn náði Albert að skalla að marki en varnarmaður bjargaði við markið. Frábærum fyrri hálfleik lauk með þessu.
Síðari hálfleikur var ekki eins hraður og sá fyrri enda drógu Tígrarnir sig aftur á völlinn og vörðust. Á 54. mínútu tók Steven aukaspyrnu frá vinstri. Hann sendi boltann að markinu en hann fór rétt framhjá. Leikmenn Liverpool sóttu og sóttu og eftir því sem leið á hálfleikinn fór leikurinn að minna á síðustu tvo heimaleiki í deildinni. Á 60. mínútu virtist þriðja mark Liverpool ætla að koma. Steven tók þá hornspyrnu frá vinstri. Sami var fyrstur að boltanum og skalli hans stefndi í markið en boltann fór í stöngina. Heppnin hefur ekki verið með Sami uppi við markið í síðustu leikjum. Litlu síðar fékk Albert boltann í teignum og hamraði að marki en Boaz Myhill varði vel. Þegar stundarfjórðungur var eftir náði Xabi góðu bogaskoti að marki en boltinn fór yfir. Á 82. mínútu náði Nabil El Zhar, sem kom inn sem varamaður, að leika sig í góða stöðu inni á teignum. Hann náði föstu skoti en Boaz varði frábærlega. Hann hélt ekki boltanum en varnarmenn björguðu. Allt kom fyrir ekki og Tígrarnir héldu sínu með því að verja mark sitt með kjafti og klóm. Liverpool jók forystu sína eftir kröftuga endurkomu en úrslitin eru samt mikil vonbrigði. Það þarf að fara að vinna heimaleiki í deildinni og þetta var þriðja jafnteflið í röð á Anfield Road. Fyrirfram hefði Liverpool átt að vinna þessa þrjá leiki en leikina þarft að vinna inni á vellinum. En Liverpool er í efsta sæti!
Liverpool: Reina, Arbeloa, Hyypia, Carragher, Dossena, Mascherano (Leiva 87. mín.), Alonso, Benayoun (El Zhar 74. mín.), Gerrard, Riera (Babel 82. mín.) og Kuyt. Ónotaðir varamenn: Cavalieri, Agger, Keane og Ngog.
Mörk Liverpool: Steven Gerrard (24. og 32. mín.)
Gul spjöld: Nabil El Zhar, Sami Hyypia og Xabi Alonso.
Hull City: Myhill, McShane (Marney 27. mín.), Zayatte, Turner, Ricketts, Mendy, Ashbee, Boateng (Halmosi 66. mín.), Geovanni, Barmby (Windass 77. mín.) og King. Ónotaðir varamenn: Warner, Garcia, Cousin og Giannakopoulos.
Mörk Hull City: Paul McShane (12. mín.) og Jamie Carragher, sm., (22. mín.).
Gul spjöld: Paul McShane, George Boateng og Dean Marney.
Áhorfendur á Anfield Road: 43.835.
Maður leiksins: Steven Gerrard. Fyrirliðinn var alveg frábær í leiknum og bjargaði málum þegar útlitið var orðið svart. Hann dreif sína menn áfram og skoraði tvö mörk. Hann er nú búinn að skora ellefu mörk á leiktíðinni sem er frábær árangur.
Rafael Benítez: Við hófum leikinn mjög vel en svo fengum við tvö mörk á okkur eftir tvenn mistök. En við sýndum mikinn styrk í kjölfarið. Við vitum að við töpuðum tveimur stigum. En það þýðir ekkert að mæðast yfir því þar sem engu verður breytt um úrslit leiksins.
Fróðleiksmolar: - Liverpool er í efsta sæti tveimur stigum á undan Chelsea. - Steven Gerrard skoraði tvö mörk og hefur nú skorað ellefu mörk á leiktíðinni. - Hull City hefur aldrei unnið sigur á Liverpool.
Hér eru myndir úr leiknum af Liverpoolfc.tv.
-
| Sf. Gutt
Gleðileg jól! -
| Sf. Gutt
Úr leik! -
| Sf. Gutt
Hlýrra uppi í stúku! -
| Sf. Gutt
Dregið í Deildarbikarnum -
| Sf. Gutt
Áfram í Deildarbikarnum -
| Mummi
Miðasala á Liverpool – Ipswich og Liverpool – West Ham -
| Mummi
Seinkun á jólagjöf -
| Sf. Gutt
Af samningamálum Trent Alexander-Arnold -
| Sf. Gutt
Jafntefli manni færri! -
| Sf. Gutt
Enn nær Mohamed Salah merkum áfanga!