| Sf. Gutt

Robbie þarf að fá tækifæri

Robbie Keane hefur verið mikið í fréttum síðustu daga og þá sérstaklega vegna þess að hann kom ekkert við sögu í leik Liverpool og Hull City um helgina. Margir sparkspekingar hafa fjallað um stöðu Robbie hjá Liverpool og álit sumra er það að dagar Robbie hjá Liverpool séu senn taldir. Phil Thompson, fyrrum leikmaður og þjálfari hjá Liverpool, hefur sína skoðun á þessu máli. Hann hafði þetta að segja í viðtali við útvarpsstöðina Newstalk.

“Robbie hefur ekki fengið tíma til að koma sér almennilega fyrir og ég held að hann hafi lagt of hart að sér til að byrja með. Ég vil alls ekki að Robbie fari og ég held að það búi meira í honum en svo að hann gefist upp og fari eftir aðeins sex mánuði. Ég myndi telja að hann hafi farið til framkvæmdastjórans og hafi spurt hvernig hann hugsi sér að nota hæfileika hans sem best. Hann var keyptur til að spila við hliðina á Fernando Torres en hann búinn að eiga skelfilega leiktíð vegna meiðsla. Ætli Fernando hafi ekki byrjað svona átta leiki. Það er ekki hægt að þróa samvinnu með neinum á svona skömmum tíma. En Robbie á betra skilið en að þurfa að sitja á bekknum og þá sérstaklega þegar haft er í huga að hann spilaði sinn besta leik með Liverpool gegn PSV. Hann var alveg frábær í síðari hálfleiknum í þeim leik."

Eins og margir muna þá kom Phil Thompson í heimsókn til Íslands í vor og hann lýsti þá þeirri skoðun sinni að Liverpool ætti að reyna að kaupa Robbie Keane. Það er því vel skiljanlegt að honum finnst að Robbie eigi að fá fleiri tækifæri með nýja liðinu sínu.

 

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan