Jafnt gegn Arsenal
Liverpool gerði enn eitt jafntefli þegar liðið sótti eitt stig á heimavöll Arsenal síðdegis í dag. Heimmenn komust yfir en Liverpool jafnaði 1:1 og þannig lauk leiknum. Liverpool náði ekki að herja fram sigur þrátt fyrir að vera manni fleiri. Liverpool jók því forystu sína á toppnum í tvö stig.
Rafael Benítez var fjarri góðu gamni og var heima í Liverpool samkvæmt læknisráði. Búist hafði verið við því að hann væri orðinn hress eftir nýrnasteinaaðgerðina en svo var ekki. Rafa fjarstýrði þó liðinu sínu og markmannsþjálfarinn Xavi Valaro var í símasambandi við hann á meðan á leiknum stóð. Liverpool byrjaði leikinn vel og á 10. mínútu fékk Robbie Keane langa sendingu fram. Hann sneri baki í markið og renndi boltanum til baka á Steven Gerrard en Manuel Almunia varði skot hans. Stuttu síðar sendi Bacary Sagna góða sendingu fyrir mark Liverpool. Emmanuel Abebayor skallaði að marki en Jose Reina varði af öryggi.
Eftir þetta gerðist ekkert fyrr en á 24. mínútu. Samir Nasri sendi þá langa sendingu fram að vítateig Liverpool. Þar tók Robin Van Persie vel við boltanum. Hann sneri Daniel Agger af sér og náði svo föstu skoti áður en Jamie Carragher komst fyrir boltann. Jose átti ekki möguleika á að verja. Frábært mark hjá Hollendingnum. Heimamenn voru nú sterkari í kjölfarið en undir lok hálfleiksins náði Liverpool góðum leikkafla. Á 43. mínútu jafnaði Liverpool óvænt. Daniel sendi þá háa og langa sendingu fram völlinn. Robbie Keane náði boltanum og stakk varnarmenn Arsenal af. Hann rauk inn í teig og þrumaði boltanum upp í þaknetið. Glæsilegt mark hjá Íranum sem fagnaði innilega enda lengi búinn að bíða eftir marki. Ekki spillti það gleði hans að skora gegn Arsenal enda fyrrum leikmaður Tottenham og það höfðu stuðningsmenn heimamanna minnt hann á frá upphafi leiks. Liverpool fékk svo tvö færi á lokamínútu hálfleiksins. Fyrst náði Dirk Kuyt boltanum af varnarmanni og sendi fyrir markið en Steven náði ekki að stýra boltanum í mark úr opnu færi. Rétt á eftir náði Dirk föstu þverskoti frá hægri en Manuel varði í horn. Staðan var því jöfn í leikhléi og líklega hefur Rafa bara verið sáttur heima í Liverpool.
Liverpool hélt uppteknum hætti í byrjun síðari hálfleiks og Lucas Leiva átti fast skot utan teigs sem Manuel varði vel stuttu eftir leikhlé. Á 62. mínútu fækkaði í liði heimamanna þegar Emmanuel Adebayor gerði harða atlögu að Alvaro Arbeloa og fékk sitt annað gula spjald fyrir vikið. Heimamenn voru æfir af reiði og töldu dómarann hafa hlaupið á sig en honum var ekki hnikað. Skytturnar brugðust mjög reiðar við dómnum og náðu í kjölfarið upp mikilli baráttu sem leikmenn Liverpool átti erfitt að fást við. Liverpool var manni fleiri en það var ekki fyrr en síðustu fimm mínúturnar sem liðið náði að fá færi. Fimm mínútum fyrir leikslok sendi varamaðurinn Nabil El Zhar inn á teiginn á Dirk en Manuel náði að renna sér í boltann og bjarga. Mínútu síðar tók Daniel rispu fram völlinn og þrumaði að marki af um 25 metra færi en boltinn sveif framhjá vinklinum. Á lokamínútunni sendi Emiliano Insua góða sendingu fyrir markið á Nabil en skalli hans fór rétt framhjá. Enn eitt jafnteflið varð því staðreynd hjá Liverpool. Þetta, þó Liverpool hafi um tíma verið manni fleiri, er þó ekki það sem verst er að sætta sig vel en toppsætið gæti tapast annað kvöld.
Arsenal: Almunia, Sagna, Djourou, Gallas, Clichy, Denilson, Fabregas (Diaby 46. mín.), Song, Nasri (Eboue 90. mín.), Adebayor og Van Persie. Ónotaðir varamenn: Fabianski, Vela, Ramsey, Silvestre og Wilshere.
Mark Arsenal: Robin Van Persie (24. mín.).
Rautt spjald: Emmanuel Adebayor debayor.
Gul spjöld: Emmanuel Adebayor, Robin Van Persie og Bacary Sagna.
Liverpool: Reina, Arbeloa, Carragher, Agger, Insua, Kuyt, Leiva (Ngog 88. mín.), Alonso, Riera (Babel 71. mín.), Gerrard og Keane (El Zhar 81. mín.). Ónotaðir varamenn: Cavalieri, Hyypia, Benayoun og Plessis.
Mark Liverpool: Robbie Keane (42. mín.).
Gul spjöld: Robbie Keane, Jamie Carragher og Lucas Leiva.
Áhorfendur á Emirates leikvanginum: 60.094.
Maður leiksins: Emiliano Insua. Argentínski strákurinn sýndi í þessum leik að hann er besti vinstri bakvörðurinn sem er nú í herbúðum Liverpool. Hann var traustur í vörninni og tók margar góðar rispur fram völlinn. Hann á einfaldlega að halda sæti sínu í næstu leikjum. Engin spurning!
Sammy Lee: Strákarnir eru svolítið vonsviknir en leikmenn Arsenal eiga heiður skilinn fyrir þá baráttu sem þeir sýndu eftir að þeir voru orðnir færri. Strákarnir okkar eiga líka mikið hrós skilið því við náðum stjórn á leiknum eftir að hafa lent marki undir. Fyrir leikinn hefðum við verið ánægðir með að ná stigi hérna en hér hjá Liverpool Football Club sættum við okkur við aldrei við jafntefli. Við reynum að vinna alla leiki.
Fróðleiksmolar: - Liverpool er í efsta sæti deildarinnar með tveggja stiga forskot á Chelsea. - Liverpool hefur ekki unnið Arsenal á útivelli frá 1999/2000. - Robbie Keane skoraði sitt fimmta mark á leiktíðinni. - Jamie Carragher lék sinn 550. leik með Liverpool.
-
| Sf. Gutt
Hlýrra uppi í stúku! -
| Sf. Gutt
Dregið í Deildarbikarnum -
| Sf. Gutt
Áfram í Deildarbikarnum -
| Mummi
Miðasala á Liverpool – Ipswich og Liverpool – West Ham -
| Mummi
Seinkun á jólagjöf -
| Sf. Gutt
Af samningamálum Trent Alexander-Arnold -
| Sf. Gutt
Jafntefli manni færri! -
| Sf. Gutt
Enn nær Mohamed Salah merkum áfanga! -
| Sf. Gutt
Sögulegur sigur! -
| Sf. Gutt
Sigur á Spáni