Liverpool niðurlægði Newcastle
Liverpool vann seinni jólaleikinn með tilþrifum. Liðið fór algerlega á kostum og niðurlægði Newcastle United á útivelli og vann stórsigur 5:1. Liðið jók forystu sína í þrjú stig á toppi deildarinnar og mun leiða deildina þegar nýtt ár gengur í garð.
Sammy Lee stjórnaði liðinu eins og í tveimur síðustu leikjum en Rafael Benítez sat í heiðursstúkunni eins og gegn Bolton á öðrum degi jóla. Í liðsuppstillingunni bar það helst til tíðinda að Robbie Keane, sem hafði skorað þrjú mörk í síðustu tveimur leikjum, var settur á varamannabekkinn.
Liverpool tók strax öll völd á vellinum og fyrsti hálftíminn var með hreinum ólíkindum. Liverpool sótti og sótti og fékk hvert færið á fætur öðru. Það er varla að maður muni eftir öðrum eins yfirburðum Liverpool á útivelli í deildarleik. Fyrsta færið kom snemma leiks þegar Dirk Kuyt fékk boltann frá Steven Gerrard í þröngu færi hægra megin í markteignum og átti hörkuskot en boltinn fór beint á Shy Given, sem vissi kannski ekki mikið hvað gerðist en Írinn bjargaði samt sem áður. Á 11. mínútu braust Steven Gerrard inn í vítateiginn en Shy náði að bjarga með úthlaupi. Á 14. mínútu lagði Dirk boltann út í teiginn á Steven sem náði hörkuskoti með vinstri úr teignum sem Shy varði með tilþrifum. Yfirburðir Liverpool voru algerir og á 19. mínútu sendi Emiliano Insua boltann fyrir frá vinstri. Boltinn barst þvert fyrir markið á Dirk. Hann gaf fyrir markið á Lucas Leiva sem fékk boltann rétt við marklínuna en á ótrúlegan hátt þá náði Shy að bjarga með því að krafsa boltann frá á marklínunni. Þarna átti Lucas, sem átti stórleik, að skora. Mínútu síðar skallaði Lucas óvaldaður eftir horn en Shy varði enn einu sinni meistaralega með því að slá boltann frá. Sami Hyypia, sem lék eins og herforingi, náði svo skalla eftir enn eina hornspyrnuna en varnarmaður bjargaði á línu! Ótrúleg orrahríð og allt gerðist þetta á fimm mínútum eða svo!
Það var með algerum ólíkindum að Liverpool væri ekki búið að skora eins og fjögur mörk á fyrsta hálftímanum en það var loks á 31. mínútu sem Liverpool komst yfir. Javier Mascherano sendi þá boltann inn á teiginn hægra megin. Yossi Benayoun fékk boltann nærri endamörkum og renndi boltanum út í teiginn. Þar var Steven Gerrard mættur og hamraði boltann í stöng og inn uppi undir hægra horninu úr miðjum teig. Loksins mátti Shy hirða boltann út netinu. Glæsilegt mark hjá fyrirliðanum og nú loks hafði Liverpool náð forystu. Litlu síðar náðu heimamenn sókn sem endaði með því að Damien Duff sendi fyrir á Michael Owen sem skoraði. Vörn Liverpool var löngu hætt þar sem línuvörðurinn gaf merki um rangstöðu á Damien en það var ekki réttur dómur. Á 36. mínútu kom þó annað mark. Steven tók hornspyrnu frá hægri. Hann hitt beint á höfuðið á Sami sem skallaði boltann af krafti í markið án þess að nokkur kæmi vörnum við. Stuttu fyrir leikhlé tók Steven horn frá vinstri. Aftur hitti hann á höfuðið á Sami en Shy náði að verja í þetta skiptið og varnarmaður náði svo að koma boltanum í burtu. Sami hefði getað verið kominn með þrennu! En á lokamínútu hálfleiksins náðu heimamenn að skora. Hornspyrna var tekin frá vinstri. Við nærstöngina náði David Edgar að skalla boltann aftur fyrir sig og í netinu lá hann. Það trúði því ekki nokkur maður á St James Park að staðan væri aðeins 2:1 fyrir Liverpool þegar dómarinn flautaði til leikhlés en sú var nú samt raunin!
Hafi stuðningsmenn Newcastle haldið að valdahlutföllin í leiknum myndu breytast í síðari hálfleik þá urðu þeir fyrir vonbrigðum. Yfirburðir Liverpool voru samir og nú komu mörkin! Á 50. mínútu fékk Liverpool hornspyrnu. Steven tók hana og sendi fyrir markið. Ryan Babel fékk boltann inni í markteignum og reyndi að skora með hælspyrnu. Varnarmaður komst fyrir en Ryan fékk boltann aftur. Fimm eða sex varnarmenn Newcastle voru á svæðinu en samt náði Ryan að pota boltanum í markið og fagnaði gríðarlega á eftir. Hér voru úrslitin í leiknum endanlega ráðin og aðeins spurning um hversu mörg mörk Liverpool myndi skora. Reyndar fékk Newcastle næsta færi. Varamaðurinn Geremi tók aukaspyrnu eftir klukkutíma leik utan við vítateig Liverpool. Hann náði föstu skoti en boltinn small í vinklinum á marki Liverpool. Sex mínútum síðar skoraði Liverpool. Steven Gerrard sendi þá á Lucas sem stakk boltanum inn fyrir vörn Newcastle. Þangað var Steven kominn og komst einn í gegn inn á vítateig. Shy Given kom út á móti honum en Steven sá við honum og sneyddi boltann laglega yfir írska landsliðsmarkvörðinn og í autt markið. Steven Gerrard var skipt af leikvelli á 70. mínútu og kom David Ngog í hans stað. Stuðningsmenn Liverpool hylltu fyrirliða sinn og það gerðu líka fjölmargir stuðningsmenn Newcastle!
Á 73. mínútu missti Jose Reina boltann eftir aukaspyrnu. Michael Owen fékk boltann í þröngri stöðu en Jamie Carragher komst fyrir skot hans og bjargaði marki. Annars fékk Michael að finna fyrir því í leiknum og lá tvívegis eftir harðar tæklingar leikmanna Liverpool. Leikmenn Liverpool voru ekki hættir og á 77. mínútu sendi Ryan á David sem var inni í vítateig Newcastle. Þar felldi David Edgar franska strákinn og dómarinn dæmdi réttilega vítaspyrnu. Xabi Alonso, sem kom inn sem varamaður, tók vítaspyrnuna og skoraði með föstu skoti út við stöng hægra megin. David var svo óheppinn litlu síðar þegar hann skoraði eftir að Lucas hafði brotist upp og lagt boltann fyrir á hann. Dæmd var rangstaða á Lucas en það var ekki réttur dómur. Ellefu mínútum fyrir leikslok kom Martin Skrtel inn sem varamaður. Hann sneri þar með aftur til leiks eftir meiðslin slæmu sem hann varð fyrir í haust. Mörk Liverpool gátu orðið enn fleiri því á lokamínútunni kom sending fyrir frá vinstri. Lucas skallaði að marki en Shy varði enn einu sinni. David náði frákastinu en skalli hans fór hárfínt framhjá. Liverpool lék sannarlega frábærlega í þessum leik og vann stærsta sigur sinn á leiktíðinni. Vissulega var lið Newcastle ekki upp á marga fiska en sigurinn hefði getað verið enn stærri en raun bar vitni og það segir sína sögu!
Newcastle United: Given, Edgar, Taylor, Coloccini, Jose Enrique (Ameobi 46. mín.), Gutierrez, Guthrie, Butt (Geremi 56. mín.), N´Zogbia, Duff og Owen (LuaLua 79. mín.). Ónotaðir varamenn: Harper, Xisco, Kadar og Carroll.
Mark Newcastle United: David Edgar (45. mín.).
Gul spjöld: Steven Taylor og Shy Given.
Liverpool: Reina, Carragher, Hyypia, Agger, Insua, Benayoun (Alonso 60. mín.), Mascherano, Lucas, Babel, Gerrard (Ngog 70. mín.) og Kuyt (Skrtel 79. mín.). Ónotaðir varamenn: Cavalieri, Keane, Riera og El Zhar.
Mörk Liverpool: Steven Gerrard (31. og 66. mín.), Sami Hyypia (36. mín.), Ryan Babel (50. mín.) og Xabi Alonso, víti, (77. mín.).
Gult spjald: Javier Mascherano.
Áhorfendur á St. James Park: 52.114.
Maður leiksins: Steven Gerrard fór gersamlega á kostum í leiknum og leikmenn Newcastle United réðu ekkert við hann. Hann skoraði tvö mörk sjálfur og lagði upp tvö önnur eftir góðar hornspyrnur. Hann er nú búinn að skora þrettán mörk á leiktíðinni og líklega telst það vel af sér vikið af miðjumanni um áramót. Frábær leikur hjá fyrirliðanum.
Sammy Lee: Við erum með sterkan og ákveðinn liðshóp. Við erum að spila betur og betur með hverjum leik og að því stefnum við en Liverpool á eftir að leika enn betur. Það vinnast engir titlar í desember en það er hægt að tapa þeim þá. Við erum mjög ánægðir með að vera á toppi deildarinnar um áramótin en við munum ekki leyfa okkur að slaka neitt á.
Fróðleiksmolar: - Liverpool er í efsta sæti deildarinnar með þriggja stiga forskot á Chelsea. - Steven Gerrard hefur nú skorað þrettán mörk á leiktíðinni. - Sami Hyypia skoraði annað mark sitt á leiktíðinni. - Ryan Babel skoraði sitt þriðja mark á leiktíðinni. - Xabi Alonso skoraði annað mark sitt á leiktíðinni. - Þetta var stærsti sigur Liverpool hingað til á leiktíðinni. - Þetta var síðasti leikur Liverpool á þessu Herrans ári 2008.
Hér eru myndir úr leiknum af Liverpoolfc.tv.
-
| Sf. Gutt
Alisson farinn að æfa -
| Sf. Gutt
Landsleikjafréttir -
| Sf. Gutt
Harvey farinn að æfa -
| Sf. Gutt
Ungliðar lánaðir -
| Sf. Gutt
Virgil fékk frí -
| Sf. Gutt
Landsleikjafréttir -
| Sf. Gutt
Georginio Wijnaldum fer víða -
| Sf. Gutt
Tveir uppaldir í enska landsliðinu -
| Sf. Gutt
Trent meiddur -
| Sf. Gutt
Heilsteypt lið!